EN

Antonín Dvořák: Slavneskir dansar op. 46

Þjóðerniskennd efldist til muna á 19. öld og með henni sú skoðun að listin skyldi bera einkenni þeirrar þjóðar sem fóstraði hana. Um þetta leyti tóku tónskáld í ýmsum löndum að skapa tónverk í þjóðlegum anda, allt frá einföldum útsetningum upp í sinfóníska smíði og óperur. Slík verk efldu þjóðarvitundina heima fyrir en vöktu einnig áhuga utanlands. Þegar vel tókst til náði hún metsölu, ekki síst smálög sem hentuðu áhugafólki. Í hinum smærri ríkjum álfunnar spratt þjóðleg tónsköpun fyrst og fremst úr pólitískri þörf; þær raddir urðu háværari sem kröfðust sjálfstæðis smáríkja og sameiningar þjóða sem töluðu sama tungumál. Þessi krafa grundvallaðist meðal annars á listsköpun þjóðanna og menningararfi, hvort sem það var í Ungverjalandi, Bæheimi, Noregi eða Finnlandi – og þannig mætti áfram telja. Öll þessi lönd áttu sín þjóðartónskáld sem lögðu baráttunni lið og urðu táknmynd sjálfstæðis í menningarlegum skilningi.

Antonín Dvořák (1841–1904) var eitt helsta þjóðartónskáld Bæheims, sem nú er í Tékklandi en var þá hluti af hinu víðfeðma austurríska keisaradæmi. Hann ólst upp í sveitum Bæheims og hóf feril sinn sem organisti og víóluleikari, meðal annars í hljómsveit óperuhússins. Að því kom að hann sagði starfi sínu lausu til að einbeita sér að tónsmíðum, og hagur hans vænkaðist þegar hann hlaut styrk til þeirra starfa frá austurríska ríkinu á árunum 1874–76. Svo vel vildi til að í dómnefnd áttu sæti tveir mektarmenn tónlistarlífs í Vínarborg, Eduard Hanslick og Johannes Brahms, sem heillaðist svo af tóntaki unga mannsins að hann tryggði honum umsvifalaust samning við forleggjara sinn.

Sá iðraðist ekki samningsins því að útgáfan hitti beint í mark: Slavneskir dansar op. 46 fyrir fjórhent píanó. Hér reri Dvořák á svipuð mið og Brahms í Ungverskum dönsum sínum nokkrum árum fyrr, og vinsældirnar voru slíkar að annar flokkur slavneskra þjóðdansa fylgdi á eftir.