EN

Béla Bartók: Fiðlukonsert nr. 2

Béla Bartók (1881–1945) var helsta tónskáld Ungverjalands á 20. öld og uppruni hans mótaði lífsstarfið allt. Hann leit á það sem hlutverk sitt að bjarga þjóðlegri tónlist heimalands síns frá gleymsku. Franz Liszt og Johannes Brahms höfðu í verkum sínum notað ungverska sígaunamúsík sem hljómaði á kaffihúsum borganna. En Ungverjar áttu líka annars konar tónlist. Í fáförnum fjallahéruðum var að finna bændur og alþýðufólk sem kunni ógrynnin öll af söngvum með framandi blæ. Bartók ferðaðist um sveitir landsins, festi bændasöngva á vaxhólkahljóðrita og varð með tíð og tíma afkastamikill þjóðlagasafnari og fræðimaður. Hann hélt sig ekki einungis við sveitir heimalands síns heldur safnaði nærri 10.000 þjóðlögum frá Rúmeníu, Slóvakíu, Búlgaríu, Króatíu og Serbíu, og hélt jafnvel í leiðangur til Norður­Afríku í því skyni. Eftir því sem árin liðu varð tónlist Bartóks gegnsýrð af anda þjóðlagsins. Jafnvel þegar hún var að öllu leyti frumsamin ber hún blæ bændasöngvanna sem urðu honum eins og annað móðurmál.

Þegar Bartók samdi fiðlukonsert sinn nr. 2 á árunum 1937–38 stóð hann á hátindi ferils síns. Hugmyndin að verkinu kom frá ungverska fiðluleikaranum Zoltán Székely sem frumflutti það í Amsterdam ári síðar. Þegar Székely falaðist eftir verkinu lét Bartók í ljós þá ósk að semja einþáttung í stóru tilbrigðaformi

í stað hefðbundins þriggja þátta konsertforms, en Székely tók dræmt í þá tillögu. Segja má að Bartók hafi farið bil beggja, því að þótt þættirnir séu þrír gætir áhrifa tilbrigðaformsins í gegnum verkið allt. Annar þáttur er stef með tilbrigðum, en auk þess má segja að þriðji þáttur verksins sé eins konar tilbrigði við þann fyrsta.

Fáum módernistum tókst á fyrstu áratugum 20. aldar að sameina framsækna tónsköpun og þjóðararf á svo sannfærandi hátt sem Bartók. Þetta heyrist glöggt í upphafstöktum fiðlu­ konsertsins sem minna á spunakennda ungverska þjóðlaga­ tónlist. Þótt tónlist Bartóks sé um margt nýstárleg hélt hann þó fast í tilfinningu fyrir grunntóni, að ein tónmiðja lægi til grundvallar tónlistinni á hverjum tíma. Í seinna meginstefi fyrsta þáttar fer hann þó lengra í átt að tóntegundaleysi en oftast áður og virðist hér undir áhrifum frá tólftónahætti Arnolds Schönberg. Annar þáttur konsertsins er dulúðug stemningstónlist og sver sig í ætt við það sem oft er kallað „næturtónlist“ í verkum Bartóks, þar sem innblástur virðist sóttur meðal annars í töfrahljóð næturinnar. Kaflinn er sex tilbrigði við blítt og hjartnæmt stef fiðlunnar. Í lokaþættinum notar Bartók að mörgu leyti sama efnivið og í þeim fyrsta, en raðar honum upp með öðru móti.

 

Þegar Bartók lauk við konsertinn var hann eini fiðlukonsert Bartóks sem almennt var vitað um. Það var ekki fyrr en árið 1958 sem annað verk Bartóks í þessari grein kom í leitirnar, konsert sem hann samdi á fyrsta áratug 20. aldar fyrir æskuást sína, fiðluleikarann Steffi Geyer, en stakk undir stól þegar ljóst var að hún endurgalt ekki tilfinningar hans. Þegar sá konsert kom aftur í ljós var farið að kalla hann fiðlukonsert „nr. 1“ og því hefur verkið sem Bartók samdi handa Székely allar götur síðan borið heitið „fiðlukonsert nr. 2“.