EN

Carl Orff: Carmina Burana

Í Ríkisbókasafninu í München er að finna handrit upp á 119 síður, skrifað á fyrri hluta 13. aldar. Þetta handrit hefur um langt skeið verið nefnt Carmina Burana, sem er latína og þýðir Söngvar frá Bæjaralandi, og það hefur að geyma yfir 250 kvæði um ástir og örlög, drykkju og lífsnautnir. Það var margt sem flaug gegnum huga farandklerka á miðöldum, golíardanna svonefndu sem flökkuðu úr einu þorpi í annað og sungu um lífsins lystisemdir, ýmist á latínu eða miðaldaþýsku. Fæst af því átti erindi í guðsorðabækur en til allrar hamingju hafa textarnir varðveist í nokkrum handritum sem gefa dýrmæta innsýn í horfinn heim. 

Kvæðin komu fyrst fyrir almenningssjónir árið 1847, og tæpri öld síðar kveiktu þau í ímyndunarafli þýsks tónskálds sem hafði fram að því samið fátt sem verulegt bragð var að. Carl Orff (1895–1982) ritaði útgefanda sínum himinlifandi eftir frumflutninginn á Carmina Burana í Frankfurt sumarið 1937: „Þið megið eyðileggja allt sem ég hef hingað til samið, og sem þið hafið því miður gefið út á prenti eftir mig. Með Carmina Burana hefst hinn eiginlegi tónsmíðaferill minn.“

Orff var rösklega fertugur að aldri, hafði lært á ýmis hljóðfæri sem barn en var að mestu sjálflærður í tónsmíðum. Hann hafði samið þó nokkur tónverk, gert athyglisverðar útsetningar af verkum barokkmeistara sem höfðu verið grafin úr gleymsku, en var einnig með puttann á púlsinum þegar kom að nýjustu hræringum í heimi tónlistarinnar; hann útsetti til dæmis fyrri Kammersinfóníu Arnolds Schönberg fyrir fjórhent píanó. Það að hann skuli hafa slegið í gegn í Þýskalandi árið 1937 er kannski engin tilviljun. Af heimildum að dæma var hann reiðubúinn að tefla með pólitíska sannfæringu sína þegar þess var krafist; hann var einn af ríflega 40 þýskum höfundum sem gerðu nýja tónlist við Draum á Jónsmessunótt þegar leikhúsmúsík gyðingsins Mendelssohns þótti ekki lengur brúkleg. Amma Orffs var gyðingur en þá staðreynd tókst honum að fela fyrir nasistum; að heimsstyrjöldinni afstaðinni gerði hann lítið úr pólitísku starfi sínu og þóttist jafnvel hafa unnið fyrir andspyrnuhreyfinguna Hvítu rósina, en fræðimönnum reyndist auðvelt að afsanna þá staðhæfingu. En Carmina Burana fór sína sigurgöngu um heiminn þrátt fyrir það; að síðustu óperum Richards Strauss undanskildum er þetta eina tónverkið sem varð til í þúsundáraríki Hitlers sem hefur allar götur síðan átt sinn sess á tónleikaskrám um víða veröld.

Enda er óumdeilanlegt að með Carmina Burana hitti Orff á sannkallaða draumaformúlu. Hann leitar í fornan tónlistararf og semur laglínur sem minna ýmist á munkasöng miðalda eða ævagömul þjóðlög. Í stað dúr og moll notar hann kirkjutóntegundir og hendingarnar hafa takmarkað tónsvið, hringsóla stundum um örfáa tóna sem gefur þeim seiðandi blæ. Melódískt innihaldið einkennist af naumhyggju en rytmísk uppbygging verksins er ágeng og kraftmikil. Stór slagverkssveit og tveir flyglar gefa tónlistinni sterkan drifkraft og í hljóðfæravalinu er líka að finna vísbendingar um helsta áhrifavald Orffs þegar kom að því að finna miðaldaáhrifunum ferskan blæ. Í Brúðkaupinu (Les noces, 1917–23) notar Ígor Stravinskíj kór, fjögur píanó og slagverk til að gefa fornum rússneskum þjóðlagabrotum nútímalegan búning, og ótal margt í Carmina Burana kallast á við verk Stravinskíjs beint eða óbeint.

Orff skiptir verki sínu í þrjá stóra hluta – Vor, Á kránni, Hirð ástarinnar – sem hann rammar inn með voldugum upphafs- og lokakórnum um hið fallvalta gæfuhjól, O Fortuna. Þættirnir um vorkomuna eru ljúfir og glaðværir; hringdansar eru stignir, stundum í óreglulegum rytma svo minnir á Stravinskíj, og oft með þjóðlegum blæ. Aðeins karlanir fá aðgöngu að kránni. Hér er karlakórinn í forgrunni ásamt einsöngvurunum, tenór sem tekur að sér hlutverk steikta svansins, og barítón í hlutverki ölvaðs prests sem tekur holdsins lystisemdir fram yfir göfgun andans. Í þriðja hlutanum, Hirð ástarinnar, koma sópran- og barnaraddir meira við sögu. Sópransöngkonan syngur einlægasta kafla verksins, hjartnæma sönginn In trutina, og gefur sig að lokum ástarbrímanum á vald (Dulcissime). 

Orff tókst aldrei aftur að semja verk sem náði slíkri alþýðuhylli og Carmina Burana. Þó samdi hann framhald verksins í tveimur þáttum: Catulli Carmina (Söngvar Katúllusar, 1943) og Trionfo di Afrodite (Sigur Afródítu, 1951), auk fjölda leikhúsverka af ýmsum toga. Þá eyddi hann stórum hluta ferilsins í að þróa tónlistarkennslu fyrir börn; þrátt fyrir allt er Orff-Schulwerk hugsanlega merkasta framlag Orffs til tónlistarinnar. Og Carmina Burana heldur áfram að hrífa hverja kynslóðina á fætur annarri, hvort sem er í tölvuleikjum (Final Fantasy VII), sjónvarpsþáttum (X Factor, The Simpsons) eða kvikmyndum (The Doors, Jackass: The Movie). Þessi kraftmikli kokteill fornra hendinga í sinfónískum búningi virðist á góðri leið með að verða stærsti smellur klassískrar tónlistar á 20. öld, hvað svo sem segja má tónskáldinu sjálfu til lofs eða lasts.