EN

Charles Gounod: Sinfónía nr. 2

Franska tónskáldið Charles Gounod (1818-1893) er nú á dögum án efa þekktastur fyrir Ave Maríu sína, fallega laglínu sem svífur yfir prelúdíu nr. 1 í C-dúr úr Vel tempraða hljómborðinu eftir Johann Sebastian Bach, verk sem Gounod samdi árið 1853. Um þær mundir voru óperutónsmíðar raunar helsta viðfangsefni hans, en sú tónlistargrein naut mikillar hylli í París um miðja 19. öld. Óperum Gounods var þó tekið fálega, allt þar til óperan Faust, byggð á samnefndu leikriti eftir Goethe, hreif Parísarbúa árið 1859 og átti eftir að bera hróður hans víða, sem og aðrar óperur hans sem á eftir komu.

Gounod lærði á píanó frá unga aldri hjá móður sinni, sem var píanóleikari, hann fékk síðar inngöngu í Konservatoríið í París en stundaði einnig nám í heimspeki. Trúmál voru honum lengi ofarlega í huga, hann samdi mörg tónverk af trúarlegum toga, varð fyrir miklum áhrifum af tónlist Palestrina og um tíma íhugaði hann að gerast kirkjunnar þjónn. Eftir nokkurra ára tónsmíðanám hlaut Gounod hin eftirsóttu Rómarverðlaun, Prix de Rome, sem franska ríkið veitti námsmönnum sem sköruðu framúr í listgreinum. Verðlaunin fólu í sér þriggja ára náms- dvöl í Rómarborg, í Villa Medici í hjarta borgarinnar, ásamt öðrum styrkþegum. Má nærri geta að borgin eilífa með öllum sínum menningarminjum hafi orðið ungu listafólki örvun til sköpunar, þá jafnt sem nú. Af öðrum tónskáldum sem hlotið hafa þessi verðlaun má nefna Berlioz, Bizet og Debussy. Í Róm lágu leiðir þeirra Gounod og Fannyar Mendelssohn saman, en hún dvaldi þar um tíma ásamt eiginmanni sínum, málaranum Hensel. Sögur herma að þau hafi oft komið saman og spilað tónlist, að Fanny hafi setið við píanóið og leikið píanóumritanir af konsertum og sinfóníum og fyrst kynnt Gounod fyrir verkum tónskálda á borð við Bach, Beethoven, Schumann og auðvitað eigin tónlist og tónlist bróður síns, Felix Mendelssons, sem Gounoud átti síðar eftir að heimsækja til Leipzig.

Víst er að finna má drætti í Sinfóníu nr. 2, sem Gounod samdi árið 1855, sem svipar til verka þýskra starfsbræðra hans. En hún ber frönskum höfundi sínum líka vitni, með þokkafullum streymandi laglínum, léttleika og fáguðum stíl, óvæntum tón- tegundabreytingum sem boða rómantíska hugsun, þó innan hins klassíska forms.