EN

Dmitríj Shostakovitsj: Píanókonsert nr. 2

Dmitríj Shostakovitsj (1906–1975) samdi tvo píanókonserta sem báðir eru eins konar skemmtitónlist, án þess dramatíska inntaks sem einkennir sinfóníur hans og kammerverk. Lagrænir hæfileikar hans njóta sín til fulls og gleðin virðist fölskvalausari en oft áður.

Dmitríj Shostakovitsj (1906–1975) samdi tvo píanókonserta sem báðir eru eins konar skemmtitónlist, án þess dramatíska inntaks sem einkennir sinfóníur hans og kammerverk. Lagrænir hæfileikar hans njóta sín til fulls og gleðin virðist fölskvalausari en oft áður.

Fyrri píanókonsertinn samdi Shostakovitsj fyrir sjálfan sig að leika, enda var hann einkar snjall á hljóðfærið. Seinni konsertinn var aftur á móti útskriftarverk fyrir átján ára gamlan son tónskáldsins, Maxim, sem var efnilegur píanisti en sneri sér síðar að hljómsveitarstjórn. „Þessi konsert hefur í sjálfu sér ekkert listrænt gildi,“ skrifaði Shostakovitsj viku eftir að hann lauk við konsertinn í febrúar 1957. Hér hefur hann kannski verið full dómharður í eigin garð. Vissulega sjáum við hér aðra hlið en þá sem við blasir í sinfóníunum, en konsertinn er ekkert síðri fyrir það. Þetta er sá Shostakovitsj sem gat, þrátt fyrir kúgun og ofsóknir sovéskra yfirvalda, leikið á als oddi í góðra vina hópi og hrópað manna hæst á fótboltaleikjum.

Verkið hefst á gamansömu fagottstefi sem setur tóninn fyrir framhaldið. Shostakovitsj gætir þess að gera ekki of miklar tæknikröfur til píanistans, þess í stað er spenna verksins borin uppi af fjörugum hryn og litríkri hljómsveitarútsetningu. Í draumkenndu andrúmslofti hæga kaflans bregður fyrir bergmáli frá rómantískum píanókonsertum Griegs og Rakhmanínovs. Þótt yfirborðið sé einfalt er tjáningin einlæg og úrvinnsla hugmyndanna einkar snjöll. Lokaþátturinn er fjörugt rondó þar sem meðal annars bregður fyrir líflegum dansþáttum í 7/8-takti. Einnig hljóma þar feykihraðir tónstigar þar sem kankvíslega er vísað í æfingabók franska píanistans Charles-Louis Hanon sem margir píanónemendur hafa þurft að sigrast á.