EN

Franz Liszt: Píanókonsert nr. 2

Franz Liszt (1811–1886) átti um margt óvenjulegan tónlistarferil. Hann var sem kunnugt er einn mesti píanóvirtúós allra tíma en eiginlegur konsertferill hans stóð ekki nema í tæpan áratug. Liszt braut blað í sögu tónleikahalds, var fyrstur til að leika heila tónleika utanað, fyrstur til að leika verk frá ólíkum tímabilum eftir tónskáld frá Bach til Chopin, fyrstur til að staðsetja flygilinn á sviðinu á þann hátt sem tíðkast í dag, og fyrstur til að halda tónleika um gjörvalla Evrópu frá Pýreneafjöllum til Úralfjalla. Hann var ókrýndur konungur tónleikahalds á heimsvísu og gerði góðlátlegt grín að stöðu sinni með því að hafa á orði: „Le concert, c’est moi“ með vísun í Loðvík XIV. Árið 1847 dró Liszt sig skyndilega í hlé frá öllu tónleikahaldi, 36 ára gamall. Hann tók við stöðu tónlistarstjóra við hirðina í Weimar og einbeitti sér að tónsmíðum það sem eftir lifði, samdi meðal annars þrettán tónaljóð og Faust-sinfóníuna. Auk þess tók hann vígslu innan kaþólsku kirkjunnar árið 1865, hlaut nafnbótina „Abbé Liszt“ og hafði aðsetur í sjálfu Vatíkaninu um 14 mánaða skeið.

Liszt samdi þrjú stór verk fyrir píanó og hljómsveit: tvo píanókonserta og Totentanz, sem er fantasía um gregorssöngsstefið Dies irae. Öll eiga verkin sér fremur langa sögu. Liszt var tæplega 19 ára gamall þegar hann hóf að leggja drög að píanókonsertinum nr. 2 árið 1839, en lauk ekki við hann fyrr en áratug síðar. Enn liðu nokkur ár þar til verkið var frumflutt 7. janúar 1857, og þá með nemanda Liszts, Hans von Schellendorf við flygilinn undir stjórn tónskáldsins. Ein ástæða fyrir þessum miklu töfum kann að hafa verið reynsluleysi Liszts í að skrifa fyrir hljómsveit. Hann naut lengi vel aðstoðar nemenda sinna við hljómsveitarútsetningu verka sinna, ekki síst tónskáldsins Joachim Raff. Þó er talið að lokagerðir píanókonsertanna séu alfarið verk Liszts sjálfs.

Píanókonsertinn nr. 2 er sá „sinfónískasti“ af konsertverkum Liszts, og ólíkt því sem gerist til dæmis í píanókonsertum Chopins hefur hljómsveitin hér í fullu tré við einleikarann og tekur virkan þátt í framvindu verksins. Píanistinn er þó ávallt í forgrunni og einleiksparturinn er virtúósískur með eindæmum, ekki síst sólóstrófurnar sem tengja saman ólíka hluta verksins.

Það var sérstakt áhugamál Liszts og annarra tónskálda um miðja 19. öldina hvernig hægt væri að tengja saman ólíka þætti innan sama verks og þá þannig fram sterkari heildarsvip en ella. Píanósónatan í h-moll er dæmi um hvernig fjögurra þátta form klassíska tímans er beygt undir einþáttungsform þar sem eitt stef umbreytist í annað og þannig koll af kolli. Svipað er uppi á teningnum í píanókonsertinum nr. 2. Hér er um að ræða þriggja þátta form (hratt–hægt–hratt) að viðbættum inngangi og tignarlegu niðurlagi.

Þær umbreytingar sem stefin verða fyrir í verkinu eru af ýmsum toga og minna stundum á músíkalskar sjónhverfingar, ef svo má að orði komast. Konsertinn hefst á ægifögru og lýrísku stefi, hálfgerðu næturljóði sem virðist kannski við fyrstu heyrn ekki sérlega hentugtur útgangspunktur fyrir glæsikonsert. Þetta stef snýr aftur í ýmsum myndum og ekki líður á löngu þar til annað aðalstefið tekur við, marcato-stef í píanóinu. Næturstef upphafsins snýr aftur í ýmsum myndum áður en yfir lýkur, til dæmis sem aðalstef „hæga kaflans“ og síðar sem hetjulegur mars.