EN

Frédéric Chopin: Píanókonsert nr. 2

Frédéric Chopin (1810–1849) fæddist í pólska smáþorpinu Żelazowa Wola sem liggur í 40 kílómetra fjarlægð vestur af Varsjá. Faðir hans var aðfluttur Frakki en móðirin pólsk.

Chopin náði barnungur undraverðum tökum á píanóinu og listinni að spinna tónlist af fingrum fram. Þrettán ára gamall hóf hann nám við Konservatóríið í Varsjá og útskrifaðist þaðan í ágúst 1829. Um haustið hóf hann smíði f­moll píanókonsertsins og lauk verkinu í ársbyrjun 1830. Sat hann sjálfur við slaghörpuna við frumflutning konsertsins í Varsjá 17. mars það ár. Gerði tónsmíðin og flutningurinn hinn unga snilling umsvifalaust að þjóðhetju. Um haustið fór Chopin í tónleikaför til Vínarborgar og átti ekki afturkvæmt til heimalandsins meðan hann lifði. Ástæðan var mislukkuð bylting þar sem Pólverjar risu upp gegn stjórn Rússa og settist Chopin að í París árið 1831.

Orðstír undarbarnsins Chopin hafði fyrir löngu borist til Parísar og varð hinn 21 árs píanósnillingur fljótt eftirlæti Parísaraðalsins. Lék hann í salarkynnum á heimilum og hafði auk þess tekjur af nótnaútgáfu. Helsta tekjulind hans var þó kennsla. Réð aðalsfólk hann til að kenna dætrum sínum þótt hann krefðist hærri þóknunar en nokkur annar píanókennari í borginni. Þá komu efnilegir nemendur erlendis frá til að njóta leiðsagnar hans. Með þessu móti gat Chopin framfleytt sér án þess að reiða sig á opinbert tónleikahald sem hann forðaðist eins og heitan eldinn.

Píanókonsertarnir tveir, sem Chopin samdi um tvítugt, eru einu hljómsveitarverkin sem hann samdi. Öll hin verkin eru, með örfáum undantekningum, fyrir einleikspíanó. Tónlist Chopins er fáguð og í henni kveður oft við viðkvæman tón. Mörg verka hans hafa þjóðlegt, pólskt svipmót ­ einkum masúrkarnir og er síðasti kafli píanókonsertsins nr. 2 gott dæmi um það. Annar kaflinn er angurvært næturljóð sem „er að yfirbragði ýmist skínandi bjart eða fullt af angurværum trega“ svo vitnað sé í Franz Liszt. Fyrsti kaflinn er aftur á móti yfirmáta glæsilegur og píanóparturinn tilþrifamikill og skrautlegur í besta skilningi þess orðs.