EN

Hafliði Hallgrímsson: Fimm söngvar fyrir sópran

Hafliði Hallgrímsson (f. 1941) hefur átt óvenjulega fjölbreyttan og viðburðaríkan feril bæði sem sellóleikari og tónskáld. Hann lauk burtfararprófi í sellóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1962 og fimm árum síðar lokaprófi frá í Royal Academy of Music í London þar sem hann debúteraði í Wigmore Hall með einleikstónleikum árið 1971.

Árið 1967 bauðst honum staða í Haydn strengjatríóinu og varð hann fljótlega upp frá því eftirsóttur sem þátttakandi í vel þekktum kammerhópum og kammerhljómsveitum Lundúna, m.a. English Chamber Orchestra, Menuhin Festival Orchestra og Monteverdi Orchestra.

Hafliði hefur allan sinn feril tekið þátt í flutningi á nýrri tónlist og var um árabil meðlimur í New Music Group of Scotland og Icelandic Canadian Ensemble.

Árið 1977 tók Hafliði við stöðu fyrsta sellóleikara í Scottish Chamber Orchestra sem starfaði á þeim árum með miklum blóma og lék árlega á Edinborgarhátíðinni og var þrisvar sinnum staðarhljómsveit á tónlistarhátíðinni í Aix en Provance. Árið 1982 sagði hann upp stöðu sinni til að helga sig svo til eingöngu tónsmíðum sem hann hafði stundað meðfram sellóleiknum allt frá unglingsárum. Hann stofnaði Mondrian-tríóið í Edinborg sem lék aðallega í Skotlandi og hafði fasta tónleikaröð í Queen's Hall í Edinborg í nokkur ár.

Hafliði stundaði nám í tónsmíðum hjá Elizabeth Luthyens, Dr. Alan Bush og Sir Peter Maxwell Davies. Tónsmíðar hans hafa verið leiknar víða um heim og eru þær nú ríflega hundrað talsins.

Hann hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir tónverk sín, m.a. fyrstu verðlaun í alþjóðlegu Viotti-tónlistarkeppninni á Ítalíu og önnur verðlaun í Wieniawsky-keppninni í Póllandi. Þá hlaut hann Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1986 fyrir fiðlukonsertinn Poemi.

Hafliði hefur í tvígang verið staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

 

Um tónverk sitt segir Hafliði Hallgrímsson:

„Ljóðin fimm sem urðu fyrir valinu fyrir sönglagaflokkinn eru eftir William Blake (1757–1827), Christina Rosetti (1830–1894) og Samuel Taylor Coleridge (1772–1837). Ljóðin eiga það öll sameiginlegt, að þau vitna til og hugleiða hvert þeirra á sinn hátt, hinar margslungnu tilfinningar mannsins gagnvart eigin tilveru, og listinni að lifa.

Fyrsta ljóðið, er örstutt brot úr ljóðabálknum The Ancyent Mariner eftir Samuel Taylor Coleridge, og lýsir frelsisþrá og upphafningu sjófarans, sem leggur aleinn upp í dramatíska sjóferð um heimsins höf til að svala þrá sinni í leit að ævintýrum.

Annað ljóðið, De Profundis (Christina Rosetti), hugleiðir þrá mannsins til a ná til fjarlægra stjarna í himinhvelinu og harmar þá jarðbundna fjötra hans sem koma í veg fyrir draumkennt flug útí himingeiminn til að geta rannsakað leyndardóma hans.

Þriðja ljóðið, Little Boy Lost eftir William Blake, lýsir trú mannsins á þá mynd af Guði sem hann hefur sjálfur skapað, en Blake, sem var djúpt andlega sinnaður, taldi þá mynd þröngsýna og alls ófullnægjandi og manninum aðeins til ama. Í þessu ljóði er er sá Guð túlkaður sem „faðirinn“ en litli drengurinn sem mannkynið, sem aldrei nær að haldast í hendur við þessa sköpun sína, og heldur þess vegna áfram að fara „villu vegar“ eins og Blake túlkaði það.

Fjórða ljóðið, The Fly, einnig eftir Blake, minnir á tilfinningaleysi og hroka mannsins gagnvart náttúrunni, sem hann í flestum tilfellum umgengst sem eigin eign sem hann vill drottna yfir, og er til orðin að hans mati, einungis til að sinna þörfum hans.

Fimmta ljóðið, Have you forgotten (Christina Rosetti), minnir á djúpa þörf mannsins til að elska og vera elskaður, en um leið á hinn fallvalda draum hans um fullkomna og eilífa ást og þau vonbrigði, sem þessum óraunsæja draumi fylgir.

Hlutverk hljómsveitarinnar er margþætt og margslungið, þar sem áhersla er lögð á að kalla fram viðeigandi litbrigði og form, sem ætlað er að auka áhrif ljóðanna.

Form og litbrigði hljómsveitarinnar í hverju sönglagi, eiga rætur sínar beint og óbeint í formi, stemmningu og sérkennum hvers ljóðs, og innstu meiningu þeirra, eins og ég hef skynjað hana.

Verkið er samið til minningar um bróður minn Guðmund Hallgrímsson.“