EN

Hector Berlioz: Symphonie fantastique

Draumórasinfónían

Hector Berlioz (1803–69) var fremstur meðal franskra tónskálda af rómantísku kynslóðinni svonefndu, þ.e. þeirri kynslóð sem lét að sér kveða í tónlistarlífi Evrópu um og upp úr 1830. Sagt hefur verið að hljómsveitin hafi verið eina hljóðfærið sem Berlioz kunni að höndla, en það gerði hann líka svo eftir var tekið. Hann var að vissu leyti faðir útsetningartækni í nútímaskilningi, uppgötvaði liti sem engum hafði komið til hugar að sinfóníuhljómsveit gæti kallað fram..

Kvöld eitt í septembermánuði 1827 hélt Berlioz, þá tuttugu og þriggja ára, í Odéon-leikhúsið til að sjá leikhóp frá Lundúnum flytja Hamlet. Með hlutverk Ófelíu fór Harriet Smithson, ung leikkona sem hreif gjörvalla Parísarborg með túlkun sinni. Berlioz var þar ekki undanskilinn. Næstu vikur ritaði hann leikkonunni ótal ástarbréf en fékk ekkert svar. Þegar hann fregnaði að hún væri í tygjum við annan mann fékk hann útrás fyrir örvæntingu sína með því að semja heila sinfóníu, sannfærður um að ást hans yrði aldrei endurgoldin. Söguhetjan er ungur tónlistarmaður sem fellur fyrir ungri draumadís en hún vill ekkert með hann hafa. Yfirbugaður af harmi reynir hann að fremja sjálfsmorð með því að taka inn of stóran ópíumskammt. Hann deyr þó ekki heldur fellur í djúpan vímusvefn, dreymir að hann hafi myrt elskuna sína, sé dæmdur sekur og leiddur á höggstokkinn.

Þegar Draumórasinfónían var frumflutt í desember 1830 hafði Berlioz gleymt öllu um Harriet og var farinn að slá sér upp með annarri stúlku. En um sama leyti vann hann til Rómarverðlaunanna og þeim fylgdi tveggja ára dvöl við listsköpun í hinni eilífu borg. Þegar hann sneri aftur til Parísar hafði stúlkan heitbundist öðrum og því var Berlioz ólofaður þegar verkið var flutt í annað sinn síðla árs 1832. Við það tækifæri sátu í salnum margir helstu listamenn borgarinnar: Chopin, Liszt, Paganini – og Harriet Smithson. Skemmst er frá að segja að hún kolféll fyrir hinu hrifnæma tónskáldi sem hafði tjáð ást sína með svo óvenjulegum hætti. Þau gengu í hjónaband ári síðar en það reyndist ógæfuspor. Harriet hallaði sér að flöskunni og þau skildu að borði og sæng ellefu árum síðar.

Við frumflutning sinfóníunnar fylgdi efnisskránni ítarleg skýring á söguþræði verksins. Draumórasinfónían er „hermitónlist“ – tónlist sem segir sögu. Tónlist hafði oft áður átt að lýsa ytri atburðum en sjaldan með eins nákvæmum hætti og hér. Aldrei hafði heldur tónskáld gert eigið líf að miðpunkti frásagnarinnar, samið heila sinfóníu um sjálfan sig. Þættir verksins eru sem hér segir:

1. Draumar – ástríður (Rêveries – Passions)
Ungur tónlistarmaður hrífst af draumadísinni í fjarska. Í hvert sinn sem hann hugsar til hennar heyrir hann stef sem býr yfir sömu eiginleikum og hún sjálf, ástríðufullt en hlédrægt í senn. Þetta meginstef sinfóníunnar kallar Berlioz idée fixe eða þráhyggjustef; það er eins konar mottó sem kemur fyrir í öllum fimm þáttum verksins. Þegar það hljómar í fyrsta sinn er það leikið af fiðlum og flautu, en strengirnir kippast við með snöggum og óreglulegum tónum sem vafalaust eiga að tákna hjartslátt elskhugans. Fyrsti þáttur sinfóníunnar ratar um hin ýmsu skapbrigði, „frá ljúfsárum draumi yfir í brjálaða ástríðu, afbrýðisemi, blíðu, tár, og huggun í trúnni,“ eins og Berlioz orðaði það sjálfur.

2. Dansleikur (Un bal)
Hvert sem listamaðurinn fer bregður fyrir ímynd hinnar heittelskuðu. Hér er hann staddur í virðulegu samkvæmi og tvær hörpur gefa tónlistinni glitrandi yfirbragð. Hafa má í huga að hörpur voru síður en svo algengar í sinfóníuhljómsveitum árið 1830. Þær þóttu eiga betur heima í stássstofum og á dansleikjum eins og þeim sem Berlioz lýsir einmitt hér. Raunar var hljómsveitin í Symphonie fantastique einhver sú fjölbreytilegasta sem þá hafði verið sett saman. Auk stórrar strengjasveitar gerir Berlioz kröfu um 23 tré- og málmblásara, þar á meðal ophicleide, stórt málmblásturshljóðfæri sem síðar vék fyrir túbu. Þá gefur Es-klarínett lokaþættinum óvenjulegan blæ, en það hafði áður aðeins hljómað í herlúðrasveitum.

3. Í sveitinni (Scène aux champs)
Söguhetjan flýr upp í sveit og heyrir að kvöldlagi tvo hjarðsveina leika kúasmalasöng á svissneskan máta, ranz des vaches. Friðsæl tónlistin, landslagið og lágvær niður vindsins í trjánum á sinn þátt í að færa unga manninum frið á ný, en dekkri tónum bregður fyrir þegar hann ímyndar sér að stúlkan sé að svíkja hann. Undir lok kaflans leikur annar hjarðsveinninn lag sitt á ný en hinn er horfinn á braut og svarar ekki lengur. 

4. Upp á aftökupallinn (Marche au supplice)
Listamaðurinn er sannfærður um að ást hans sé ekki endurgoldin og reynir að svipta sig lífi með ópíumskammti. Hann fellur í djúpan svefn og draumfarir hans eru ógnvænlegar: hann hefur myrt sína heittelskuðu, verið dæmdur til dauða og færður á aftökupallinn við tilþrifamikla marséringartóna. Öxin fellur með þungu höggi (fortissimo-hljómur í hljómsveitinni allri), höfuðið dettur í þar til gerða körfu (veikt pizzicato í strengjum) og mannfjöldinn fagnar ákaft (sterkir blásarahljómar og trommusláttur). Svo bókstafleg lýsing á aftöku kann að virðast spaugileg en kannski hefur málið horft öðruvísi við samtímamönnum tónskáldsins. Margir þeirra höfðu orðið vitni að slíkum atburði.

5. Nornadraumur – Dies irae – Nornadans (Songe dʼune nuit de Sabbat – Dies irae – Ronde du Sabbat)
Þegar aftakan er um garð gengin er listamaðurinn skyndilega staddur á ógurlegum nornafundi. Þar er ástin hans einmitt viðstödd en nú hefur hún breyst í mesta skass. Idée fixe-stefið hljómar sem skrumskælt danslag, kirkjuklukkur glymja og í kjölfarið hljómar sjálfur sálumessusöngur kaþólsku kirkjunnar, Dies irae (Dagur reiði, dagur bræði). Þetta féll í misjafnan jarðveg enda var kirkjan valdamikil stofnun og höfð voru orð eins og „guðlast“ yfir þennan hluta verksins. Hér kannar Berlioz nýjar slóðir – hvernig tjá megi ljótleika í tónlist. Hin nýja „fagurfræði ljótleikans“ var héðan í frá meðal þeirra tjáningarmöguleika sem stóðu tónskáldum 19. aldar til boða.