EN

Hector Berlioz: Ungverskur mars

Hector Berlioz (1803–69), var eitt helsta tónskáld Frakklands á öðrum fjórðungi 19. aldar. Sagt hefur verið að hljómsveitin hafi verið eina hljóðfærið sem Berlioz kunni að höndla, en það gerði hann líka svo eftir var tekið. Hann var að vissu leyti faðir útsetningartækni í nútímaskilningi, uppgötvaði liti sem engum hafði komið til hugar að sinfóníuhljómsveit gæti kallað fram. Kennslubók hans í hljómsveitarútsetningu var fyrsta lykilverk sinnar tegundar, Grand traité d’ instrumentation et d’orchestration (1843). Það var engin tilviljun að Berlioz hreifst svo af blæbrigðum hljómsveitarinnar því að mótunarár hans voru mikill uppgangstími hljómsveitarspils í París.

Einn af helstu áhrifavöldum úr hópi skálda á tónhöfunda 19. aldar var Johann Wolfgang von Goethe, ekki síst skáldverk hans Fást. Við texta þaðan voru samin ógrynni verka, jafnt í smáum sem stórum formum – til dæmis sönglagið Meine Ruh ist hin eftir Schubert, Szenen aus Goethes Faust eftir Schumann og áttunda sinfónía Mahlers. Berlioz las Fást þegar bókin kom út í franskri þýðingu árið 1828, og hreifst svo af verkinu að hann samdi við það Huit scènes de Faust („Átta atriði úr Fást“), sem varð hans fyrsta útgefna verk, ópus 1. Sautján árum síðar, þegar Berlioz hafði öðlast heimsfrægð fyrir tónsmíðar sínar, sneri hann sér aftur að þessu efni. La Damnation de Faust („Fordæming Fásts“, 1846) er risastórt verk fyrir fjóra einsöngvara, kór, barnakór og hljómsveit, um ástir þeirra Fásts og Margrétar í skugga hins djöfullega Mefistófelesar.

Fyrsti þáttur verksins gerist á sléttum Ungverjalands. Fást dáist að fegurð náttúrunnar en á vegi hans verður flokkur ungverskra hermanna á leið til orrustu. Á þessu augnabliki í verkinu vitnar Berlioz í kunnan ungverskan mars, Rákóczi­marsinn svonefnda sem ungverskir fiðluleikarar léku gjarnan á fyrstu áratugum 19. aldar og sem var um skeið eins konar óopinber þjóðsöngur Ungverja. Berlioz var ekki einn um það meðal tónskálda að fá þetta stef að láni í stærri tónsmíðar. Þeim sem vilja heyra aðra meðferð á sama stefi er til dæmis bent á Ungverska rapsódíu nr. 15 eftir Franz Liszt, sem einmitt var fæddur í Ungverjalandi og því voru hæg heimatökin þegar kom að því að meðhöndla þetta frísklega stef.