EN

Heitor Villa-Lobos: Bachianas Brasileiras nr. 7

Heitor Villa­-Lobos (1887–1959) var höfuðtónskáld Brasilíu og sló þjóðlegan tón í verkum sínum, blandaði seiðandi hryn brasilískrar tónlistar saman við áhrif frá Stravinskíj. Meðal helstu verka hans er flokkurinn Bachianas Brasileiras þar sem brasilískir tónar renna saman við form og stíl barokksins á heillandi hátt. Um flokkinn sagði Villa­Lobos: 

„Þetta er sérstök gerð af tónsmíð sem byggir á náinni þekkingu á stórkostlegum verkum Bachs en einnig hljómaveröld hans sem og kontrapunkti og lagrænu andrúmslofti brasilískrar þjóðlagahefðar. Tónskáldið lítur á Bach sem alþjóðlegan nægtabrunn þjóðlaga sem á rætur í alþýðutónlist allra landa veraldarinnar. Hann sameinar alla kynþætti.“

Villa-­Lobos samdi Bachianas Brasileiras nr. 7 árið 1942 og var verkið frumflutt undir hans stjórn í Rio de Janeiro 13. mars 1944. Fyrsti þátturinn, Prélude: Ponteio, byggir á íhugulu stefi og hefur yfir sér alvarlegt yfirbragð. Ponteio þýðir plokkað á portúgölsku sem vísar til pizzicatos strengjanna í kaflanum. Í næsta þætti, Gigue: Quadrilha, mætast tveir fjörugir dansar ­ gigue eða jig sem var vinsæll hirðdans á meginlandi Evrópu og Bretlandi á 17. og 18. öld og Quadrille sem var dansaður í ferhyrning af minnst fjórum pörum. Hér notar tónskáldið brasilísku karnivalgerð hennar Quadrilha Caipira eða sveitaquadrillu. Í fjörugri og ögrandi Toccötunni, Tocata: Desafio, eru engin grið gefin og tónlistin er eins og rússíbanaferð frá byrjun til enda. Lokaþátturinn, Fuga: Conversa (samtal), hljómar líkt og hátíðleg kveðja tónskáldsins til Johanns Sebastian Bach.

Villa­-Lobos lét tónlistarmenntun heimalandsins mjög til sín taka og árið 1932 var hann skipaður yfirmaður tónlistarfræðslu í gjörvallri Brasilíu. Undir hans handleiðslu voru á næstu árum gerðar róttækar umbætur á þessu sviði auk þess sem að Villa­-Lobos stóð að stofnun nýrra tónlistarskóla á efri stigum.

Eftir Heitor Villa-­Lobos liggja um tvö þúsund tónverk af ýmsum stærðum og gerðum. Meðal þessara verka eru tólf sinfóníur, sextán strengjakvartettar, flokkurinn Chôros sem samanstendur af fjórtán verkum fyrir ýmsar samsetningar, tveir sellókonsertar, hörpukonsert, gítarkonsert og konsert fyrir harmóniku.