EN

Johannes Brahms: Fiðlukonsert

Fiðlukonsert Johannesar Brahms (1833–1897) má fyrst og fremst þakka vináttu hans og samstarfi við aldavin sinn, fiðluleikarann, tónskáldið og hljómsveitarstjórann Joseph Joachim. Brahms var tvítugur að aldri þegar hann kynntist Joachim, einum mesta fiðluvirtúós 19. aldarinnar. Vinátta þeirra var sterk og varði í meira en 30 ár. Aðeins bar skugga á samband þeirra einu sinni, þegar Brahms reyndi að miðla málum í vonlausu hjónabandi Joachims. Í kjölfarið fylgdu tímabundin vinslit allt þar til Brahms samdi nýtt verk, konsertinn fyrir fiðlu og selló, og sendi Joachim sem sáttargjöf.  

Það var Joachim sem bað Brahms um að semja handa sér fiðlukonsert, og það löngu áður en tónskáldinu gafst tími til að sinna beiðninni. Brahms þurfti fyrst að stíga yfir sálfræðilegan þröskuld þar sem eina konsert hans fram að þessu, píanókonsertinum í d-moll, hafði verið afspyrnu illa tekið við frumflutninginn 1859. Það var ekki fyrr en tæpum tuttugu árum síðar að Brahms réðist aftur til atlögu við konsertformið. Brahms vann að fiðlukonsertinum í austurríska smábænum Pörstschach sumarið 1878. Hann lýsti bænum einu sinni í bréfi á þennan hátt: „hér fljúga svo margar laglínur um loftin blá að maður verður að vara sig á að stíga ekki á þær“. Þegar haustaði stakk Brahms upp á því við Joachim að þeir hefðu samstarf varðandi lokagerð fiðluraddarinnar, þar sem Brahms væri ekki sjálfur fiðluleikari og þekkti hljóðfærið ekki jafn vel. Joachim lá ekki á liði sínu eins og rauða blekið á handriti konsertsins ber með sér. Hann endurskrifaði marga einleikskafla með það fyrir augum að gera þá „fiðlulegri“ og Brahms tók sér sömuleiðis penna í hönd eftir frumflutninginn í Leipzig 1879 og þynnti hljómsveitarpartinn á köflum til að einleikarinn næði betur í gegn.  

Tónlist Brahms er glæsileg, tilfinningaþrungin og oft átakanlega fögur. En Brahms gerir líka miklar kröfur til hlustenda sinna. Hann er ekki eitt þeirra tónskálda sem lætur fallega laglínu hljóma aftur og aftur í óbreyttri mynd. Hjá Brahms er tónlistin í sífelldri þróun: úrvinnsla stefjanna hefst svo að segja í fyrsta takti og henni lýkur ekki fyrr en lokataktinum er náð. Fyrsti þátturinn hefst á því að hljómsveitin kynnir til leiks helstu stef þáttarins – sum ljóðræn, önnur kraftmikil – en þegar einleikarinn birtist skyndilega með glæsileg arpeggio fær kaflinn nýja vídd. Fiðluparturinn gerir miklar kröfur til einleikarans en hann er engu að síður hluti af stærri heild. Eins og í D-dúr fiðlukonsert Beethovens, sem var helsta viðmið Brahms við smíði verksins, er aldrei um að ræða innantómt virtúósítet. Hvert einasta hlaup þjónar aðeins þeim tilgangi að dýpka upplifun okkar á tónlistinni sjálfri.  

Hægi kaflinn var upphaflega alls ekki hluti af konsertinum. Brahms hafði upphaflega hugsað sér verkið í fjórum þáttum, en ákvað síðan að klippa burt miðkaflana tvo, adagio og scherzo, og semja nýjan í staðinn. Ekki var það þó gert án eftirsjár, því hann skrifaði síðar að kaflarnir tveir sem hann kastaði burt hefðu verið þeir bestu í verkinu. Hægi kaflinn hefst á undurfallegu stefi í óbóinu, sem fiðlan skreytir með glitrandi tónaflúri.  

Það var ungverski fiðluleikarinn Eduard Reményi sem kynnti Brahms fyrir tónlist heimalands síns þegar sá síðarnefndi var ungur að árum. Brahms varð svo heillaður af tónlist sígaunanna, ástríðufullri og leikandi í senn, að hann sótti til hennar innblástur hvað eftir annað, t.d. í Ungversku dönsunum fyrir hljómsveit, Sígaunalögunum op. 103, strengjakvintettinum nr. 2 o.s.frv. Hinn síðskeggjaði og brúnaþungi Brahms er hér fyrirvaralaust kominn í dansskóna og stígur sígaunadans eins og unglamb, fullur af eldmóði og geislandi fjöri.