EN

Johannes Brahms: Sinfónía nr. 1

Árið 1827 skildi Ludwig van Beethoven í 9. sinfóníu sinni heiminum eftir stórvirki sem markaði þáttaskil í sögu sinfónískrar tónlistar. Hver var fær um að taka við? Nýir menn og nýjar stefnur litu dagsins ljós. Tónaljóðin með Franz Liszt í broddi fylkingar og Richard Wagner með sínar nýstárlegu hugmyndir um óperuna. Franz Schubert hafði kvatt þennan heim ári á eftir Beethoven og helstu arftakar hans á sinfóníska sviðinu voru þeir Mendelssohn og Schumann. En árin liðu og eftir frumflutning á 3. sinfóníu Schumanns 1850 liðu 26 ár þar til málsmetandi sinfónía leit dagsins ljós, 1. sinfónía Brahms.

Johannes Brahms (1833-1897) fæddist í Hamborg sex árum eftir andlát Beethovens en líkt og landi hans kaus hann að búa og starfa í Vínarborg sem lengi var vagga tónlistarmenningar í Evrópu. Hann varð vildarvinur Clöru og Roberts Schumann sem studdu hann með ráði og dáð. Eftir hörmuleg endalok Roberts Schumann axlaði Brahms um skeið ábyrgð á heimilishaldi fjölskyldunnar og gekk sjö börnum Roberts í föðurstað. Samband þeirra Clöru gerðist æ nánara og varð efni í bæði skáldsögur og kvikmyndir. Um eðli sambandsins er ekki hægt að fullyrða en vináttuna varðveittu þau alla tíð og víst er að Clara var helsti ráðgjafi Brahms í tónlistarmálum. Fékk hún að heyra tónsmíðar hans á undan flestum öðrum og sagði skoðun sína umbúðalaust.

Í júlíbyrjun árið 1862 skrifaði hún eftirfarandi í bréfi til Josephs Joachim, fiðluleikara og sameiginlegs vinar þeirra beggja: „Johannes sendi mér nýlega, hugsið yður hvílík undur og stórmerki, fyrsta kafla sinfóníu sem hefst á þennan djarfa máta...“ og hún skrifar fjóra fyrstu takta Allegro-kaflans sem fylgir innganginum sem Brahms bætti síðar við. Áfram heldur Clara: „Þetta er svo sannarlega nokkuð kröftugt en ég var mjög fljót að venjast því. Kaflinn er hlaðinn dásamlegri fegurð og efniviðurinn meðhöndlaður af þvílíkri snilld...“

Engar heimildir eru til um framgang sinfóníusmíðinnar frá 1862–1876. Vinir Brahms og útgefandinn Fritz Simrock minntu hann þó reglulega á verkið og hvöttu til dáða en lítið var um svör frá tónskáldinu. Hann sendi þó Clöru vinkonu sinni eina vísbendingu í póstkorti frá Sviss í september 1868. Á kortinu er laglína og við hana afmæliskveðja til Clöru. Þetta voru 9 taktar úr síðari hluta inngangsins að lokakafla sinfóníunnar þar sem hornið kveður sér hljóðs og markar þáttaskil í verkinu - boðar komu ljóssins.

Í október 1876 dregur loks til tíðinda svo um munar. Brahms var um það bil að leggja lokahönd á 1.sinfóníuna og lét Simrock og Joachim vita. Var ákveðið að sinfónían skyldi frumflutt í Karlsruhe 4. nóvember þá um haustið undir stjórn Ottos Dessoff en í kjölfarið í Mannheim, München og Vínarborg undir stjórn tónskáldsins.

1. sinfónía Johannesar Brahms byrjar í c-moll og endar í C-dúr rétt eins og 5. sinfónía Beethovens og meginferli verkanna er hið sama, ferðalag úr myrkri í ljós, úr moll í dúr. Lykilþáttur verksins er síðasti kaflinn, þar sem Brahms reyndi á sína vísu á semja lokakafla Níundu sinfóníu Beethovens uppá nýtt en án söngvara. Kaflinn hefst með ábúðarfullum tónum en síðan taka bjartari hendingar að brjótast í gegn, meðal annars það sem kalla má „gleðistef“ þessarar sinfóníu. Það er leikið af fiðlum en á fremur lágu - þ.e. „sönghæfu“ - tónsviði. Hendingaskipan þess og hljómaferli er svo að segja nákvæmlega eins og í gleðistefi Beethovens: sextán taktar sem með nokkurri einföldun má

Þegar góðviljaður aðdáandi benti höfundinum á líkindi stefjanna tveggja svaraði Brahms: „Það heyrir nú hvaða asni sem er.“

Með þessari sinfóníu gekk sinfóníuformið í endurnýjun lífdaga eins og saga þess næstu áratugina vitnar um. Brahms samdi þrjár slíkar til viðbótar og í kjölfarið fylgdu Bruckner, Mahler og ótal önnur tónskáld innan og utan Þýskalands.