EN

Jón Leifs: EDDA II – Líf guðanna

Jón Leifs (1899–1968) var fyrsta þjóðlega íslenska tónskáldið. Tónlist hans tekur mið af íslenskum þjóðlagaarfi og sækir efnivið í stórgerða náttúru landsins og fornan bókmenntaarf. Verk Jóns fengu misjafnar viðtökur meðan hann sjálfur lifði og það var ekki fyrr en á síðasta áratug 20. aldar sem hann hlaut þann sess sem honum ber í íslenskri tónlistarsögu. Flest verka hans hafa nú verið flutt að minnsta kosti einu sinni og hljóðrituð fyrir sænska plötuforlagið BIS, en þó eru nokkur verka hans enn óflutt. Óratorían Edda er stærsta verk Jóns og eitt metnaðarfyllsta tónverk íslenskrar tónlistarsögu, þriggja kvölda tónsmíð fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit byggt á textum úr Eddukvæðum og Snorra-Eddu. Segja má að smíði þess hafi verið stór hluti ævistarfs Jóns, því hann hóf að leggja drög að Eddu I um 1930 og náði ekki að ljúka þriðju óratóríunni áður en hann lést árið 1968.

Fyrstu vísbendingar um að Jón hafi í hyggju að semja verk af þessum toga er að finna í bréfi sem hann ritaði Sigurði Nordal í febrúar 1928. Þar kvaðst hann hafa í hyggju að tónsetja Völuspá og bað um aðstoð hans við að koma textanum saman. Það tók Jón nokkur ár að fullgera söngtextann enda varð verkið mun stærra í sniðum en hann hafði upphaflega ætlað. Völuspá var ekki lengur eina heimildin heldur leitaði hann fanga víða í Eddukvæðum og Snorra-Eddu. Þegar Jón gekk endanlega frá textahandritinu í maí 1933 var það 86 vélritaðar síður og skiptist í fjóra hluta: Sköpun heimsins, Líf guðanna, Ragnarök og Endurreisn. Annað tónskáld hafði áður byggt risavaxinn fjórþáttung á frásögnum Eddukvæða af sköpun heimsins og lífi hinna norrænu goða. Jón þekkti vel til Niflungahringsins eftir Richard Wagner, hafði keypt nóturnar á námsárum sínum og séð hann nokkrum sinnum í þýskum óperuhúsum. En nálgun Wagners var of fáguð og rómantísk til að falla að smekk íslenska tónskáldsins sem kvaðst hafa samið mörg verka sinna, þeirra á meðal Eddu-óratóríuna og Sögusinfóníuna, „sem andmæli gegn Wagner, er misskildi svo herfilega norrænt eðli og norræna listarfleifð“.

Jón lauk við Eddu I árið 1939. Verkið heyrði hann aldrei í heild sinni, en tveir þættir hljómuðu á tónskáldamóti í Kaupmannahöfn árið 1952 og dræmar viðtökur urðu til þess að draga úr honum kjark með framhaldið. Fáeinum mánuðum fyrr hafði hann dregið fram nótnapappírinn til að hefja smíði Eddu II, sem er í sex köflum. Um það leyti sem hann hélt til Kaupmannahafnar hafði hann lokið við 48 blaðsíður af fyrsta þætti sem er stórbrotin lýsing á Óðni hinum alráða. Þegar hátíðinni hafði verið slitið hélt hann til Svíþjóðar og reyndi að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Kraftarnir dugðu til að semja tvær og hálfa síðu. Jón lagði handritið til hliðar og það liðu tíu ár þar til hann tók þráðinn upp að nýju. Á blaðsíðu 51 stendur: „Hér byrjað aftur á tónsmíðinni 11. júlí 1962 í Bifröst, Borgarfirði.“

Fyrsti þáttur verksins var fullgerður síðla árs 1962 og ári síðar var annar kaflinn, Synir Óðins, einnig kominn á blað en þá er eins og hann bresti skyndilega kjark. Var hann að missa trúna á meistaraverkið enn eina ferðina? Í blaðaviðtali sumarið 1962 hafði hann nefnt hversu auðvelt honum reyndist að taka upp þráðinn: „Ég varð hissa á því, að skriftin og hugsunargangurinn skyldu ekkert hafa breyst á þessum tíma. Það er alls ekki hægt að sjá hvar ég hætti fyrir tíu árum og hvar ég byrjaði nú á ný.“ Við nánari íhugun hlýtur Jón að hafa séð hve tvíbent þessi athugasemd hans var. Listamaður sem játar að sköpun hans hafi ekkert þróast á heilum áratug getur varla haft margt nýtt fram að færa. Jón hafði staðnað, hann hafði spilað sig út í horn með tónsmíðastíl sem varð ýktari og einstrengingslegri með hverju árinu sem leið. Hugsanlega brast líka trúin á að Ísland yrði þess nokkru sinni megnugt að flytja risaverkið við Eddukvæði sem rúmaðist ekki einu sinni á venjulegum nótnapappír.

Hafi Edda ISköpun heimsins gert nær óviðráðanlegar kröfur um fjölda og getu flytjenda gengur Edda II – Líf guðanna skrefinu lengra. Hún er samin fyrir þrjá einsöngvara, blandaðan kór og hljómsveit sem telur einnig fornlúðra og stóran slagverkshóp að hætti tónskáldsins. Fyrsti þátturinn er lýsing á hinum tignarlega Óðni, þar sem kór og einsöngvarar eru í forgrunni, mezzósópran, tenór og bassi. Tenórinn fer með stærsta hlutverkið og fær í sinn hlut langar og flóknar hendingar sem tónskáldið biður um að séu sungnar „quasi jodeln“ – eins og jóðlað. Í öðrum þætti, Synir Óðins, notar Jón bæði kór á sviðinu og „coro separato“ baksviðs, þar sem einsöngvararnir syngja líka endrum og sinnum. Í þeim kafla er sungið um lúðurinn Gjallarhorn sem heyrist um alla heima og á meðan fá málmblásturshljóðfærin ærið að starfa.

Ásynjur er blíðari þáttur, að mestu sunginn af karlaröddum kórsins og ástaróður til hinna tignu meyja sem eru nefndar hver á eftir annarri: Frigg, Sága, Eir, Gefjun, Fulla og Freyja. Tónlistin fær ekki voldugri blæ fyrr en síðasta ásynjan er nefnd á nafn, enda er það Sigyn sem heldur mundlauginni undir eitrið sem drýpur á Loka. Bæði munu þau koma aftur við sögu þegar heimurinn er á vonarvöl. Síðustu taktarnir eru örlagaþrungið hróp kórsins sem hljómsveitin tekur öll undir og verður síðan viðkvæði Eddu III: „Vituð ér enn eða hvat?“

Þrír styttri þættir fylgja í kjölfarið. Valkyrjur eru gamansamur þáttur en Nornir hæg, ofurveik en magnþrungin lýsing á örlaganornunum Urði, Verðandi og Skuld. Eddu II lýkur með bardagalýsingu rétt eins og Sögusinfóníunni. Í kaflanum Einherjar er þó allt á glaðværum nótum enda er hér ekki barist upp á líf og dauða. Áhrifamiklir hápunktar rísa engu að síður enda er blásið í lúðra og bumbur slegnar meðan einherjar höggvast á.