EN

Josef Suk: Pohádka

Það olli straumhvörfum í lífi Josefs Suk, upprennandi tónskálds og fiðluleikara frá litlu þorpi í Bæheimi, þegar hann kynntist höfuðtónskáldi Tékka, Antonín Dvořák, á síðasta námsári sínu við Konservatoríið í Prag. Suk varð fljótlega eftirlætisnemandi Dvořáks, góður vinur – og að lokum tengdasonur. Við tók mikið hamingjutímabil í lífi tónskáldsins unga, og báru tónsmíðarnar þess merki – ekki síst hljómsveitarsvítan Pohádka eða Ævintýri, enda umfjöllunarefni hennar sigur ástarinnar. Suk samdi svítuna upp úr eigin leikhústónlist fyrir uppsetningu landa síns, Juliusar Zeyers, á ævintýrinu Radúz og Mahulenu. Leikritið fór á fjalirnar 1898, sama ár og Suk kvæntist sinni heittelskuðu Otilie Dvořákovu, en svítan var frumflutt 1901.

Verkið er í fjórum þáttum. Í þeim fyrsta eru aðalpersónurnar kynntar: Prinsinn Radúz og prinsessan Mahulena fella hugi saman þótt fjandskapur ríki milli landa þeirra. Einleiksfiðla flytur ljúfan ástarsöng og litríkur hljómsveitarvefnaður færir okkur inn í gróðursælt sveitalandslag. Um miðbik kaflans dregur ský fyrir sólu – málmblásararnir minna á þau illu öfl sem vinna gegn elskendunum – en svo rofar til og draumkennd ást- arsælan tekur völdin á ný. Í öðrum kafla er hamingja sveitalífsins fest í sessi með líflegum þjóðdönsum, en í þriðja kafla hefur dauðinn knúið dyra í leikriti Zeyers. Aldinn konungur er fallinn frá og tónlistin er harmræn og virðuleg í senn. Lokakaflinn hefst á mikilli dramatík. Móðir Mahulenu, hin illa drottning og seiðkerling Runa, hefur lagt á elskendurna bölvun: Radúz er lostinn minnisleysi og ráfar nú um í skóginum án þess að muna nokkuð eftir heitmey sinni – en henni hefur Runa breytt í ösp. Dularfull þrá leiðir þó prinsinn að öspinni sem andi Mahulenu býr í. Hann heggur tréð, léttir álögunum og leysir ástina sína úr prísundinni.

Þótt ástin sigri í ævintýrunum getur líf tónskáldanna verið nöturlegra. Aðeins fáeinum árum eftir að Pohádka leit dagsins ljós voru bæði Otilie og Antonín Dvořák látin eftir skammvinn veikindi. Josef Suk varð aldrei samur eftir þessi áföll, og tónsmíðar hans tóku miklum breytingum í kjölfarið. Áhrif læriföðurins Dvořáks viku fyrir innhverfara, stríðara og tilraunakenndara tónmáli. Síðar átti Suk eftir að semja stór og metnaðarfull hljómsveitarverk í anda Mahlers og Strauss, en hann kvæntist aldrei að nýju.