EN

Joseph Haydn: Sinfónía nr. 102

Joseph Haydn (1732–1809) hefur verið kallaður „faðir sinfóníunnar“. Það er að vísu ofmælt því að í þeirri grein byggði hann á því sem eldri tónskáld höfðu áður afrekað. Hann átti eigi að síður stóran þátt í að hefja sinfóníuna til vegs og virðingar. Þegar hann hóf feril sinn var sinfónían fáguð skemmtimúsík en þegar hann samdi sín síðustu verk var hún orðin mikilvægasta form vestrænnar tónmenningar. Haydn var eitt síðasta fræga hirðtónskáldið af því tagi sem tíðkast hafði í Evrópu svo öldum skipti. Undir lok 18. aldar blésu vindar nýrra tíma, aðalsfólk dró saman seglin en tónskáld höfðu þess í stað auknar tekjur af tónleikahaldi og nótnaútgáfu. Haydn hafði starfað við hirð Nikulásar Esterházy um áratuga skeið, en þegar hinn síðarnefndi féll frá haustið 1790 tók við nýtt skeið á ferli Haydns sem nú gat loks um frjálst höfuð strokið – tæplega sextugur að aldri.

Margir sóttust eftir kröftum hans en aðeins einn hafði erindi sem erfiði. Johann Peter Salomon var þýskur fiðluleikari sem hafði getið sér gott orð sem tónleikahaldari í Lundúnum. Svo vel vildi til að hann var staddur á meginlandinu þegar það kvisaðist út hvernig högum Haydns var nú háttað. Því gerði hann sér sérstaka ferð til Vínarborgar, barði að dyrum hjá tónskáldinu og sagði keikur: „Búið yður undir ferðalag. Eftir tvær vikur höldum við til Lundúna.“ Höfuðborg Bretlands var um þetta leyti áfangastaður fjölda listamanna, ekki síst þeirra sem áður höfðu starfað í París en vildu nú ólmir komast burt úr hildarleik byltingarinnar. Haydn og tónleikahaldari hans komu í höfn

í Lundúnum á nýársdag 1791 og blésu strax til tónleikaraðar í Hanover Square, einum af konsertsölum borgarinnar. Fyrir þá tónleika samdi Haydn sex nýjar sinfóníur (nr. 93–98) og þegar hann sneri aftur til Lundúna árið 1794 bættust aðrar sex í hópinn (nr. 99–104). Haydn var tekið með kostum og kynjum á Englandi. Góð vinátta tókst með honum og konungshjónunum sem buðu honum að setjast að í Windsor fyrir fullt og fast, hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Oxford-háskóla og tónleikar með verkum hans voru einhver vinsælasta skemmtun sem völ var á.

Sinfónían nr. 102 er ein hin snjallasta af Lundúnasinfóníum Haydns og eitt þeirra verka hans sem bersýnilega höfðu áhrif á hinn unga Beethoven. Hún hefst á hægum inngangi sem fer vítt og breitt um sviðið hvað hljómatengsl snertir, en meginstef kaflans er létt og fjörugt. Tónlist Haydns einkennist oft af kímnigáfu og kankvísi, en hér gerist líka sitthvað sem ekki verður séð fyrir: skyndilegar þagnir, miklar andstæður í styrkleika og ómstríðir hljómar. Adagio-kaflinn er ljúfur og hæglátur; sömu tónlist notaði Haydn um svipað leyti í píanótríó sitt í Fís-dúr en ekki er ljóst hvort kammerverkið er útsetning á hljómsveitarþættinum eða öfugt. Næst kemur jarðbundinn menúett og tríó, en í spriklandi fjörugum lokakaflanum sækir Haydn innblástur í þjóðlag frá Króatíu. Hér leikur spéfuglinn Haydn á als oddi, þýtur á milli tóntegunda og sýnir tónefni sitt í fjölbreyttu og spennandi ljósi allt fram að lokatakti.