EN

Kaija Saariaho: Ciel d'hiver (Vetrarhiminn)

Kaija Saariaho (f. 1952) er eitt þekktasta núlifandi tónskáld Norðurlanda og hefur hlotið ótal viðurkenningar fyrir list sína, svo sem Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs (2000), Sibeliusarverðlaunin (2009), dönsku Léonie Sonning tónlistar­ verðlaunin (2010) og sænsku Polat­verðlaunin (2013). Saariaho hefur búið og starfað í París um árabil en þangað fluttist hún árið 1982 til þess að leggja stund á raf­ og tölvutónsmíðar við IRCAM rannsóknarstöðina. Áður hafði hún numið við Sibeliusar­akademíuna í Helsinki og við tónlistarháskólann í Freiburg í Þýskalandi auk þess sem hún sótti hin frægu sumarnámskeið tónskálda í Darmstadt.

Hljómsveitarverk Kaiju Saariaho báru þess skýr merki framan af hversu handgengin hún er elektrónískri tónlist. Þau einkenndust af þykkum tónvef sem umbreyttist í hægum skrefum. Á síðari árum hefur Saariaho getið sér gott orð fyrir óperur sínar, ekki síst L'Amour de loin (Ást úr fjarska) sem var frumsýnd á Salzburgarhátíðinni árið 2000 og hefur síðan verið sett upp víða, meðal annars í Metropolitan­óperunni í New York í fyrravetur. Óperuskrifin og önnur verk Saariaho fyrir söngrödd þykja hafa haft áhrif á tónsmíðar hennar fyrir hljómsveit þar sem nú fer meira en áður fyrir laglínum og reglulegum tónmynstrum.

Ciel d'hiver (Vetrarhiminn) var upphaflega annar þáttur af þremur í hljómsveitarverkinu Orion, sem Saariaho samdi árið 2002 að beiðni Cleveland­hljómsveitarinnar, en árið 2013 útbjó hún þáttinn sem sjálfstætt hljómsveitarverk. Það er hægferðug tónsmíð, tónvefurinn gæti minnt á Vetrarbrautina — en hér tindra líka stakar stjörnur og ef til vill hattar fyrir stjörnuhrapi. Verkið hefst á sólói pikkólóflautunnar, síðan tekur einleiksfiðla við laglínunni og þar næst klarinett, óbó og dempaður trompet; hljómsveitin breiðir stjörnuteppi undir. Smám saman þykknar hljómsveitarparturinn en undir lokin hægist enn á tempóinu, við heyrum í píanóinu sem eins og leiðir okkur lengra út í geiminn og markar, ásamt slagverki, lok verksins.