EN

Louise Farrenc: Sinfónía nr. 3

Það að hasla sér völl á tónlistarsviðinu var konum á 19. öldinni þyrnum stráður vegur.

Vissulega þótti sómi af færni kvenna í hljóðfæraleik svo framarlega sem þær iðkuðu list sína einungis innan veggja heimilisins. Óperuflutningur kallaði á eftirspurn eftir söngkonum en hjónaband þýddi sjálfkrafa brotthvarf þeirra af óperusviðinu. Þegar kom að tónsköpun kvenna var trúin á hæfileika þeirra til slíkra verka nánast engin. Það þurfti því sterkan persónuleika og áræðni í bland við heppilegar ytri aðstæður til þess sigrast á þessum hindrunum.

Allt þetta hafði Louise Farrenc (1804–1875). Fjölskylda hennar - Durmont fjölskyldan var mikilsmetin í listaheiminum en hún státaði af frægum listmálurum og myndhöggvurum allt aftur á ofanverða 17. öld. Listhæfileikar Louise komu snemma í ljós og stundaði hún píanónám hjá Anton Reicha sem var kennari við Konservatóríið í París. Kom hún reglulega fram á einkatónleikum og opinberum tónleikum í Sorbonne-listmannahverfinu þar sem fjölskyldan bjó. Þar kynntist hún flautuleikaranum Aristide Farrenc sem hún giftist síðan sautján ára gömul og eignaðist í honum traustan stuðningsmann og vin. 

Louise Farrenc ákvað snemma að einbeita sér að tónsmíðum og kennslu í stað þess að helga tónlistarferðalögum krafta sína. Hún hélt þó áfram að koma opinberlega fram sem píanóleikari í París og árið 1842 var hún fyrst kvenna skipuð í stöðu píanókennara við Konservatóríið í París þar sem hún kenndi í 30 ár. Flest fyrri verka Louise Farrenc eru fyrir píanó en eftir 1840 fer hún að semja kammer- og hljómsveitarverk. Þar á meðal eru sónötur, píanótríó, píanókvintettar og tveir hljómsveitarforleikir (sem á næstu árum voru fluttir í París, Brussel og Kaupmannahöfn) og sinfóníurnar þrjár. 

Þriðja sinfónían, samin 1847, var frumflutt á tónleikum Société des Concerts du Conservatoire í apríl 1849 og hlaut lofsamlega dóma þrátt fyrir ójafna samkeppni við hitt verkið á efnisskránni sem var 5. sinfónía Beethovens. Þriðja sinfónía Louies Farrenc er í alla staði glæsileg og heillandi tónsmíð sem vonandi hlýtur þann sess sem hún á skilið á verkefnalistum sinfóníuhljómsveita.