EN

Beethoven: Sinfónía nr. 3

Eroica

Í maí 1804 tilkynnti franska þingið að Napóleon hefði verið gefin keisaranafnbót og í desember sama ár tók hann við krúnunni úr hendi Píusar VII páfa. Atburðirnir voru reiðarslag fyrir þá sem höfðu trúað á fyrirheit frönsku byltingarinnar um jafnrétti og bræðralag meðal manna. Einn franskur samtímamaður komst svo að orði: „Á þessum tímum virtist byltingin eins fjarri okkur í tíma og grísk eða rómversk fornöld.“ Meðal þeirra sem misstu trúna á Napóleon í kjölfar þessara atburða var Ludwig van Beethoven, sem hafði einmitt nýlokið við sinfóníu til heiðurs franska konsúlnum. Beethoven var svo misboðið að hann strikaði út tileinkun sinfóníunnar – „intitolata Bonaparte“ – með slíku offorsi að hann gerði gat á titilsíðu handritsins. Í staðinn kom yfirskriftin „Sinfonia eroica per festeggiar il suovenire d'un gran uomo“ eða „Hetjuhljómkviða – samin í minningu mikilmennis.“ 

Beethoven hafði þegar getið sér orð fyrir byltingarkenndar tónsmíðar sínar árið 1804, en með þriðju sinfóníunni gekk hann lengra en nokkru sinni áður. Aldrei hafði áður heyrst þvílík djörfung í hljómavali, formi eða tímalengd. Eroica er allt að því helmingi lengri en fólk var vant og fyrsti þátturinn einn og sér er á við heila Haydnsinfóníu af eldri gerðinni. Sinfónían var frumflutt á heimili Lobkowitz prins, sem var mikill velgjörðarmaður Beethovens, en fyrsti opinberi flutningurinn fór fram í apríl 1805 í Theater an der Wien undir stjórn tónskáldsins. Vínarbúar vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið. „Ég skal gefa ykkur kreutzer ef þið hættið þessum hávaða,“ á örvæntingarfullur tónleikagestur að hafa hrópað úr einni stúkunni. Einn gagnrýnandi sagði að þótt enginn skortur væri á fögrum köflum þá væri verkið í heild „týnt í frumskógi lögleysunnar.“ Annar sagði að sinfónían væri „of þung, of löng og óbærileg venjulegu áhugafólki um tónlist.“ Þótt hugsjónir frönsku byltingarinnar væru flestum gleymdar var músíkbylting Beethovens rétt að byrja. 

Eroica hefst með tveimur mikilfenglegum hljómum sem gefa til kynna hverjar áherslurnar verða. Sellóin leika upphafsstefið, lagræna hendingu sem spunnin er út frá tónum Es-dúr hljómsins. Ekki líður þó á löngu þar til stefið lendir á óvæntum slóðum og í kjölfarið taka að spretta upp ýmsir fyrirboðar þess sem koma skal: rytmísk togstreita í strengjum, óvænt styrkleikabrigði og beittir, ómstríðir hljómar. Eroica er sinfónía hins óvænta, og maður skyldi varast að þykjast vita hvað leynist handan við næstu beygju. 

Það líður heldur ekki á löngu þar til taktfestan sem Beethoven gaf til kynna með upphafshljómunum tveimur er fokin út í veður og vind. Á tímabili er engu líkara en að taktstrikin séu hreinlega horfin, eða að minnsta kosti rækilega færð til. Beethoven breytir þrískipta taktinum í tvískiptan þar til maður veit varla hvað snýr upp eða niður. Í úrvinnslunni kemur Beethoven okkur stöðugt á óvart, ekki síst með því að hægja á hljómskiptunum svo um munar, og hlaða ómstríðum hverri ofan á aðra svo að margt virðist enn nýstárlegt þótt meira en tvöhundruð ár séu liðin frá smíði verksins. Enn leikur Beethoven sér með væntingar hlustandans; á meðan flest hljóðfærin eru enn að undirbúa endurkomu upphafsstefsins leikur fyrsta horn aðalstefið í heimatóntegundinni. Útkoman er vægast sagt sérkennileg. Engu líkara er en að hornið hafi komið inn of snemma, enda hrópaði einn uppáhaldsnemandi Beethovens, Ferdinand Ries, upp yfir sig þegar sinfónían var flutt í fyrsta sinn: „Fjárans hornleikarinn! Kann hann ekki að telja?“ Beethoven er sagður hafa reiðst svo mjög við þessi ummæli að hann var nærri búinn að gefa umræddum Ries utanundir. 

Annar þáttur sinfóníunnar er útfararmars í c-moll sem hefst með tregafullri hendingu í dempuðum strengjum. Þetta er viðamikill kafli og Beethoven teflir fram dramatískum andstæðum. Um skeið er tónlistin komin í bjartan dúr, með ljúfu óbóstefi sem leiðir inn í mikilfenglegan forte-kafla með pákum og trompetum áður en útfararónlistin snýr aftur. Stundum er engu líkara en að treginn sé við það að bera tónlistina ofurliði. Í lokin heyrist upphafsstefið í molum; fiðlurnar standa eftir einar og óstuddar, en kontrabassarnir styðja við með plokki á stöku stað.  

Þótt scherzo-þátturinn hefjist á veiku nótunum er hann fullur af lífi og fjöri. Hér er líka nokkuð um ófyrirséða rytma þótt ekki jafnist á við upphafsþáttinn. Á fyrstu áratugum sinfóníuformsins um miðja 18. öld var lokaþátturinn oftast smærri í sniðum en upphafskaflinn, en þetta tók að breytast á tímum Beethovens. Júpíter-sinfóníu Mozarts (1788) lýkur með stórbrotnum kafla fullum af tónsmíðabrellum, og Beethoven átti seinna eftir að þenja lokaþátt sinfóníuformsins til hins ítrasta með Níundu sinfóníu sinni. Í Eroicu er lokaþátturinn hápunktur verksins í heild og leysir um alla þá spennu sem hefur safnast upp í fyrri köflum. Þátturinn samanstendur af tilbrigðum um stef sem Beethoven hafði samið um 1801 og notað bæði í balletti sínum Verur Prómeþeifs (Die Geschöpfe des Prometheus), og í píanótilbrigðum op. 35. Stefið er ofureinfalt en hentar vel til margvíslegra umbreytinga sem Beethoven nýtir sér til hins ítrasta, m.a. með virtúósavaríasjón fyrir fiðlur og flautu, litríkum sígaunadansi í g-moll og sálmalagastemningu í tréblásurum. Tignarlegir lokataktarnir vísa aftur til upphafshljómanna tveggja í fyrsta kafla nema nú eru hljómarnir mun fleiri, enda ekki vanþörf á eftir jafnævintýralegt ferðalag.