EN

Beethoven: Sinfónía nr. 8

Ludwig van Beethoven (1770–1827) samdi áttundu sinfóníu sína að mestu leyti sumarið 1812, þegar hann dvaldi í Teplitz og Karlsbad sér til heilsubótar. Hann hafði um árabil víkkað þanþol sinfóníuformsins með lengri og kröfuharðari verkum en alla jafna tíðkuðust, en sú áttunda er stysta sinfónía hans að þeirri fyrstu undanskilinni. Hér má greina afturhvarf til gáskans og glettninnar sem einkenndi Haydn en sem minna fer fyrir í síðari verkum hins alvörugefna Beethovens. Hann var hæstánægður með nýju sinfóníuna og stjórnaði frumflutningnum sjálfur í Vínarborg 27. febrúar 1814 þrátt fyrir dvínandi heyrn. Carl Czerny, sem þá var nemandi Beethovens, lét í ljós furðu sína á því að sú áttunda hefði ekki hlotið jafn góðar viðtökur í Vínarborg og sú sjöunda. Þá á Beethoven að hafa svarað: „Það er vegna þess að sú áttunda er svo ólíkt betri!“

Áttunda sinfónían hefst með glaðværu og þróttmiklu stefi. Atburðirnir gerast hratt og tónskáldið á það til að beina stuttum hendingunum inn á ófyrirséðar brautir. Ekki líður á löngu þar til aðalstefið villist af leið; Beethoven endurtekur sama hljóminn aftur og aftur, lætur hann deyja út í algjöra þögn áður en allt fer af stað á ný. Síðan leika fyrstu fiðlur síðara aðalstefið í „vitlausri“ tóntegund áður en þær rétta sig af með snaggaralegri módúlasjón. Hér birtist Beethoven okkur sem húmoristi í anda Haydns, hefur alla þræði í hendi sér en leyfir tónlistinni að rata á villigötur endrum og sinnum – með afbragðs árangri.

Annar kaflinn er kunnur fyrir tifandi undirleik blásaranna í upphafi, sem einkennist af allt að því metrónómískri nákvæmni. Lengi var talið að hér væri Beethoven að vitna í gamansaman kanón sem hann átti að hafa samið vorið 1812 til heiðurs Johanni Nepomuk Maelzel, þeim sem fann upp taktmælinn. Keðjusöngurinn Til Maelzels er fjörugt verk við bjánalegan texta („Ta ta ta ... lieber Mälzel, leben Sie wohl, sehr wohl!“), en fyrir nokkrum árum var sýnt fram á að hann væri fölsun eftir Anton nokkurn Schindler, sem var kunningi Beethovens í Vínarborg og skrifaði endurminningar um kynni sín af tónskáldinu en fór býsna frjálslega með staðreyndir.

Þriðji þáttur sinfóníunnar er ekki hratt scherzó eins og þau sem Beethoven hafði áður samið, heldur yfirvegaður menúett. Beethoven hafði ekki samið slíkan kafla síðan í strengjakvartettinum op. 59 nr. 3, árið 1806, og þetta var jafnframt í síðasta sinn sem hann lét menúett fylgja stóru verki. Hér leikur Beethoven sér með hrynbrellur að hætti Haydns, en í tríóinu er hornið í aðalhlutverki og þá fær tónlistin alvarlegri blæ, jafnvel leyndardómsfullan.

Í lokaþættinum er brandarakarlinn Beethoven aftur við stjórnvölinn. Kaflinn byrjar hratt en ofurveikt og dregur enn úr styrk eftir því sem á líður. Að lokum leysist tónlistin upp í þögn; aðeins hljómar einn og einn tónn á stangli. Þögnin er rofin af þrumandi tóni í allri hljómsveitinni, eins og Beethoven reki tunguna framan í áheyrendur áður en upphafsstefið heldur áfram, en nú leikið fortissimo. Þessi þrumusterki tónn hefur ýmsar afleiðingar fyrir áframhaldið og gefur Beethoven leyfi til að skauta frjálslega milli óskyldra tóntegunda eins og ekkert sé. Enda þarf heila 53 takta af sterkum og afgerandi hljómum í lokatöktunum til að fullvissa áheyrendur um að heimahöfn sé náð og að Beethoven sé hættur að spauga – um sinn.