EN

Maurice Ravel: Tríó í a-moll

Útsetning: Yan Pascal Tortelier

Maurice Ravel (1875–1937) var ekki sérlega afkastamikill höfundur kammertónlistar, heldur beindi hann kröftum sínum fremur að píanótónlist og hljómsveitarverkum. Hann hafði í raun ekki samið nema þrjú fullgild kammerverk á ferlinum þegar hann hóf að semja píanótríó sitt árið 1913: fiðlusónötu sem ekki var gefin út fyrr en að honum látnum, meistaralegan strengjakvartett og Inngang og Allegro fyrir hörpu, flautu, klarínett og strengjakvartett. Þegar Ravel hóf að semja tríóið dvaldi hann sumarlangt í Baskalandi, í sjávarþorpinu St. Jean­ de­Luz skammt frá fæðingarstað sínum. Þar komst hann vel á veg með verkið en lauk því ekki fyrr en ári síðar, skömmu
eftir að heimsstyrjöld braust út. Ravel var ákveðinn í því að þjóna landi sínu með einu eða öðru móti en umsókn hans um herþjónustu var hafnað þar sem hann var of smávaxinn. Í staðinn gerðist hann sjúkraflutningamaður og tríóinu lauk hann á mettíma haustið 1914 til þess að hann gæti hafið störf sem fyrst.

Tríó Ravels (fyrir píanó, fiðlu og selló) er almennt talið eitt helsta kammerverk hans og ásamt píanótríói nr. 2 eftir Shostakovitsj merkasta framlag til þessarar greinar tónlistarinnar á 20. öld. Tónlistin er litrík og fjölbreytt en um leið afar krefjandi fyrir flytjendur. Til grundvallar fyrsta þætti liggur baskneskur danshrynur. Dansinn zortziko einkennist af síkvikum hryn; hann er nóteraður í 8/8 en innbyrðis skiptist hver taktur í 3+2+3 slög. Þótt kaflinn hafi að sumu leyti þjóðlegt yfirbragð er framsetning stefjanna samkvæmt klassískri hefð, í sónötuformi með tveimur meginstefjum og úrvinnslu þeirra um miðbikið. Í öðrum þætti byggir Ravel einnig á gamalgrónu tónlistarformi, sem í þetta sinn er scherzó/tríó. Hér fléttast meginstefin saman með áhugaverðum hætti og líklega er það þetta sem Ravel vísaði til þegar hann gaf þættinum hina sjaldséðu yfirskrift Pantoum, sem er bragarháttur ættaður frá Malasíu, eins konar ferskeytla. Frönsk skáld, til dæmis Victor Hugo og Charles Baudelaire, höfðu ort undir áhrifum þessa bragarháttar, sem einkennist af því að önnur og fjórða lína hvers erindis verða fyrsta og þriðja lína í hinu næsta. Þriðji þáttur er passacaglia, eða tilbrigði um síendurtekna átta takta bassalínu sem fyrst hljómar í píanói (í sellóum og bössum í útsetningu Torteliers). Lokakaflinn er hraður og sérlega glæsilegur, og eins og í fyrsta þætti notar Ravel ósamhverfan hryn – í þetta sinn fimm­ og sjöskiptan takt til skiptis – sem gefur tónlistinni aukna spennu og kraft.

 

Yan Pascal Tortelier, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hefur sagt í viðtali að Ravel sé „það tónskáld sem stendur hjarta mínu næst“. Hann telur píanótríó
Ravels eitt af meginverkum kammertónlistar á 20. öld og vann að hljómsveitarútsetningu sinni í fjögur ár. Ekki er leiðum að líkjast því að sjálfur var Ravel einn snjallasti hljómsveitarútsetjari sem sögur fara af. Útsetning Torteliers hljómaði í fyrsta sinn árið 1993, á tónleikum á Proms­ tónlistarhátíð BBC í Royal Albert Hall þar sem hann stjórnaði sjálfur Fílharmóníuhljómsveit breska útvarpsins.