EN

Olivier Messiaen: Les Offrandes oubliées

Franska tónskáldið Olivier Messiaen er um margt einstakur í tónlistarsögu tuttugustu aldar, ekki síst fyrir sterkan, trúarlegan innblásturinn sem einkennir verk hans á tímum þegar veraldleg viðfangsefni voru flestum tónskáldum hugstæðari. Sjálfur komst hann svo að orði að merkingarfyllsti þáttur tónsmíða sinna – og ef til vill sá eini sem hann myndi ekki sjá eftir á dauðastundinni – væri sá sem „varpaði ljósi á guðspekilegar staðreyndir kaþólskrar trúar.“

Þessar guðspekilegu staðreyndir eru allsráðandi strax í fyrsta hljómsveitarverkinu sem Messiaen sendi frá sér, aðeins 22 ára að aldri, en það nefnist Les Offrandes Oubliées, eða Gleymdar fórnargjafir. Verkið rekur hvernig hin mikla fórn Jesú Krists gleymist manninum í syndavafstri sínu, en rifjast upp á ný með aðstoð helgisiða kirkjunnar og veitir þannig líkn og frið. Það kom út rétt eftir útskrift tónskáldsins úr Parísar-konservatoríinu sumarið 1930, var frumflutt hálfu ári síðar og vakti strax athygli. Franskir gagnrýnendur lofuðu frumleika þess og kraft, og einn hafði sérstaklega orð á því hve óvenjulegt væri að samtímatónlist byggi yfir svo mikilli tilfinningu og dýpt.

Les Offrandes Oubliées ber undirtitilinn „sinfónísk hugleiðing“ og skiptist í þrjá samhangandi hluta: Krossinn, Syndina og Altarissakramentið. Upphafskaflinn er hægur og tregafullur – enda ætlað að túlka þjáningu Jesú á krossinum. Skyndilega er djúp sorgarandaktin rofin: Hraður og kraftmikill miðkaflinn ryðst fram, en þar er örvæntingarfullur ofsi syndarinnar allsráðandi.

Í texta sem fylgir verkinu segir Messiaen að hér sé dregin upp mynd af því hvernig mannskepnan fellur í linnulausum, óseðjandi tryllingi ofan í botnlaust hyldýpi syndarinnar. Lokakafl- inn, leikinn samkvæmt leiðbeiningum tónskáldsins „af djúpri samúð og miklum kærleika“, færir okkur svo að lokum mildi og fyrirgefningu – í Altarissakramentinu birtist endurlausnin sem mannkyninu hlotnast fyrir kærleika Krists.