EN

Richard Strauss: Ævintýri Ugluspegils

Ísmábænum Mölln í norðurhluta Þýskalands er að finna legstein manns sem uppi var á 14. öld og bar nafnið Till Eulenspiegel. Um Ugluspegil, eins og nafn hans útleggst á íslensku, spannst fjöldi þjóðsagna eftir því sem aldir liðu og gengu flestar út á prakkarastrik hans og óhefðbundin uppátæki. Í gamansömu tónaljóði sínu fangaði Richard Strauss (1864–1949) bæði skapgerð Ugluspegils og hið ótrúlega ævintýrabrölt hans.

Verkið hefst á tveimur stefjum sem bæði tákna Ugluspegil: hið fyrra er ljúft og táknar samkvæmt Strauss upphaf ævintýrisins – „Einu sinni var...“; hið síðara, leikið af horni, er fjörugt og óútreiknanlegt. Þetta helsta einkennisstef Ugluspegils snýr aftur hvað eftir annað, sem eins konar viðlag enda er tónsmíðin í rondó­formi, en það einkennist af því að eitt stef hljómar ítrekað í bland við ólíka millikafla. Fyrst sést Ugluspegill ríða á hesti sínum á vit nýrra ævintýra. Hann þeytist á hesti sínum gegnum markaðstorgið, konum og börnum til ómældrar skelfingar; þá þjóta klarínetturnar upp á við og slagverkið þrumar. Hann verður ástfanginn en stúlkan vill ekkert með hann hafa. Því næst fer hann á fund nokkurra fræðimanna í þeim tilgangi að snúa út úr lærdómi þeirra. Tónlistin verður flóknari eftir því sem fræðingarnir flækjast í eigin speki, þar til Ugluspegill rekur tunguna framan í þá og gengur brott sigri hrósandi.

Að endingu grípa örlögin í taumana. Ugluspegill er tekinn höndum og leiddur fyrir dómara undir ógnvekjandi trommuslætti. Hann reynir að blístra til að róa taugarnar en stef hans verður sífellt örvæntingarfyllra. Að lokum er dómur kveðinn upp: „Hengið hann!“ Ugluspegill stígur upp í gálgann og lafir þar, en hljómsveitin kveður með tónum upphafstaktanna og minnir okkur á að taka örlög ævintýrapersónunnar ekki of alvarlega.