EN

Richard Strauss: Serenaða fyrir blásara í Es-dúr

Richard Strauss (1864–1949) fæddist og ólst upp í München í notalegu borgaraumhverfi. Ekki hafði þó verið mulið undir föður hans, Franz, sem komst áfram á tónlistarhæfileikum sínum. Hann var afburða hornleikari og Richard litli ólst upp með hljóm þessa tignarlega en vandmeðfarna hljóðfæris í eyrunum. Faðirinn mótaði líka tónlistarsmekk sonarins framan af - Franz hélt upp á meistara klassíska tímabilsins, Haydn, Mozart og Beethoven, en fussaði yfir tónlist Richards Wagner. Hann fékk syni sínum kennara, fyrst í píanóleik, síðan einnig í fiðluleik, hljómfræði og kontrapunkti. Strauss tók barnungur að semja tónlist og var ekki nema sextán ára þegar tónsmíðar eftir hann voru fyrst fluttar opinberlega. Þær báru keim af tónlistaruppeldi föðurins og sóttu meira til klassíkurinnar en þeirrar tónlistar sem nýrri var af nálinni.

Serenaðan fyrir blásara er slíkt æskuverk, samin þegar Strauss var á lokaári í menntaskóla. Verkið tileinkaði hann tónsmíðakennara sínum, Friedrich Wilhelm Meyer. Það er ekki laust við að andi Mozarts svífi hér yfir vötnum, en réttri öld áður en menntskælingurinn Strauss setti saman serenöðuna samdi Mozart fræga kvöldlokku sem gengur undir nafninu Gran partita. Hún er fyrir tólf blásara og þrettánda manninn, kontrabassaleikara. Strauss skrifar einnig fyrir þrettán hljóðfæri, allt blásturshljóðfæri, en gerir jafnframt ráð fyrir kontrabassa - í tveimur síðustu töktunum. Það þykir heldur lítið til þess að það borgi sig að kveðja bassaleikara á svið og þessu hógværa hlutverki bassans er því jafnan sleppt í flutningi. Serenaða Strauss er í hefðbundnu sónötuformi. Það er óbó sem kynnir fyrsta stefið og klarínett það næsta; úrvinnslan er fremur stutt en síðan hefja hornin ítrekunina á upphafsstefinu.

Serenaðan var frumflutt í Dresden árið 1882 af blásurunum í Dresdner Tonkünstler-Verein. Verkið vakti athygli hljómsveitarstjórans Hans von Bülow á tónskáldinu unga og hann bauð Strauss í kjölfarið að verða aðstoðarmaður sinn við hirðleikhúsið í Meiningen, sem státaði af einni bestu hljómsveit álfunnar. Þangað fór Strauss haustið 1885 og fékk þar sannkallaða óskabyrjun á gifturíkum ferli sem hljómsveitarstjóri.