EN

Robert Schumann: Píanókonsert

Framan af tónsmíðaferli sínum einbeitti Robert Schumann sér að skrifum fyrir píanó. Sjálfur stefndi hann á frama sem píanóleikari áður en handameiðsl settu strik í reikninginn, og samdi hann þá gjarnan verk til þess að leika sjálfur. Síðar samdi hann píanóverkin oftar en ekki fyrir Clöru, konuna sína, en hún var meðal fremstu píanóleikara samtíðarinnar, og dóttir hins virta Friedrichs Wieck, píanókennara Schumanns. Sá kærði sig reyndar ekkert um að eignast tónskáldið fyrir tengdason, og varð því hjónabandið ekki að veruleika fyrr en eftir þriggja ára þref fyrir dómstólum.

Þrátt fyrir að vera á heimavelli við slaghörpuna tók það Schumann mörg ár og nokkrar misheppnaðar tilraunir að semja einleikskonsert fyrir píanó og hljómsveit. Elstu atrennur hans að forminu eru frá 1827, en fyrstu fjórar tilraunir hans döguðu uppi sem skissur. Ef til vill var ástæða þess hve Schumann sóttist seint að semja píanókonsert sú að hann taldi fyrirbærið sem slíkt á krossgötum. Hann hafði litla trú á píanókonsertum samtímamanna sinna og vildi finna forminu algerlega nýjan farveg. Árið 1839 hafði hann skrifað Clöru í bréfi að hann gæti ekki skrifað „konsert fyrir virtúósa“, og honum gramdist að píanókonsertinn væri jafnan álitinn léttúðug tónsmíð, eins konar flugeldasýning þar sem fingrafimi einleikarans væri í aðalhlutverki en tónlistarleg dýpt af skornum skammti. Það verður að viðurkennast að dómur sögunnar er Schumann hliðhollur í þessum efnum, enda eru virtúósakonsertar kollega hans á borð við Kalkbrenner, Thalberg, Herz og Pixis sjaldan á dagskrá tónleikahúsa okkar daga.

Þessar hugleiðingar Schumanns báru loks ávöxt árið 1841 þegar hann lauk við Fantasíu fyrir píanó og hljómsveit, einþáttung sem frumfluttur var á einkatónleikum í Leipzig sama ár. Þá var það einmitt Clara Schumann sem lék á píanóið, en hljómsveitinni stjórnaði vinur þeirra hjóna, tónskáldið Felix Mendelssohn. Verkið var þó hvorki leikið aftur né gefið út, og það var ekki fyrr en fjórum árum síðar að Schumann tók Fantasíuna upp úr skúffunni á ný og gerði hana að fyrsta kafla Píanókonsertsins í a-moll. Kaflinn er bæði angurvær og ástríðufullur, enda ber hann yfirskriftina Allegro affettuoso – hratt og með ástúð. Þrátt fyrir að heilsu Schumanns væri tekið að hraka og ýmsir erfiðleikar steðjuðu að heimilislífinu urðu hinir þættir konsertsins til á undraskömmum tíma, þokkafullur og blíður miðkafli og líflegur og uppfinningasamur lokasprettur. Það var svo auðvitað Clara Schumann sem frumflutti verkið á nýársdag 1846.

Ekki voru allir samtímamenn Schumanns sannfærðir um ágæti konsertsins, og þótti sumum hann tilþrifalítill. Fræg eru ummæli tónskáldsins og píanóleikarans Franz Liszt, sem gekk svo langt að kalla hann „konsert án píanós“. Það er þó óhætt að segja að Schumann hafi með þessu verki tekist hið sanna ætlunarverk sitt: Að beina píanókonsertinum á nýja braut. Í stað þess að einleikari og hljómsveit skiptist á að láta ljós sitt skína eru hlutverk þeirra hér samofin hvort öðru og andrúmsloftið er innilegt – næstum eins og í kammertónlist. Þótt konsertinn sé vissulega krefjandi fyrir einleikarann er fingrafimin hér þjónn tónlistarinnar og þéttofins samspilsins við hljómsveitina. Auk lipurðarinnar krefst verkið svo tilfinningalegrar dýptar, fágunar og smekkvísi ef vel á að takast. Og enn er dómur sögunnar hliðhollur Roberti Schumann – Píanókonsertinn í a-moll óx hratt í vinsældum eftir frumflutninginn, og er enn í dag meðal dáðustu píanókonserta tónlistarsögunnar.