EN

Sergei Prokifíev: Sinfónía nr. 5

Á meðan síðari heimsstyrjöldin geisaði var Sergej Prokofíev (1891–1953), líkt og öðrum fremstu tónskáldum Sovétríkjanna, komið fyrir í Ivanovo, borg sem liggur um 200 kílómetra norðaustur af Moskvu. Sumarið 1944 voru þar saman komnir auk Prokofíevs þeir Shostakovitsj, Kabalevskíj og Míaskovskíj, og þar gafst þeim betra næði til tónsmíða en í stríðshrjáðu stórborgunum Leníngrad og Moskvu. Prokofíev kvað hafa verið iðnastur þeirra allra í útlegðinni. Þegar sumri tók að halla hafði hann samið áttundu píanósónötu sína, gengið frá ballettinum Öskubusku í hljómsveitarútgáfu og samið fimmtu sinfóníuna að mestu. Sextán ár voru liðin frá því að síðast hafði verið frumflutt sinfónía eftir Prokofíev. Frumflutningur þeirrar fimmtu, á tónleikum í Tónlistarháskólanum í Moskvu 13. janúar 1945, var í síðasta sinn sem Prokofíev kom opinberlega fram sem hljómsveitarstjóri. Hann var um það bil að að ganga á svið þegar tilkynnt var að úkraínsk herdeild hefði brotið varnir Þjóðverja á bak aftur. Áður en flutningurinn hófst var því skotið af fallbyssum í fagnaðarskyni og eflaust hefur andrúmsloftið átt sinn þátt í að sinfónían varð einn mesti listsigur Prokofíevs í heimalandi sínu.

Hann naut gleðinnar ekki lengi. Aðeins nokkrum dögum síðar hrasaði hann og fékk heilahristing – við rannsókn kom á daginn að hann þjáðist af of háum blóðþrýstingi – og náði aldrei fullri heilsu á ný. Árið 1948 hlaut hann opinbera fordæmingu hjá menningarpáfum Sovétríkjanna fyrir alþýðufjandsamlegan „formalisma“ í verkum sínum. Verk hans voru sjaldan leikin eftir þetta og þegar hann lést 5. mars 1953 var hann bugaður maður. Ógæfan virtist elta hann í dauða ekki síður en í lífi. Klukkustund eftir fráfall Prokofíevs lést Jósef Stalín og andlát hins mikla leiðtoga kommúnismans skyggði svo að segja algjörlega á andlát eins mesta tónsnillings 20. aldar. Þegar aprílhefti tónlistarblaðsins Sovietskaya Muzyka kom út var minningargrein um Stalín á forsíðu, en smáklausu um andlát Prokofíevs var að finna á síðu 117.

Ekki kemur á óvart að fimmta sinfónían skuli hafa vakið hrifningu við frumflutninginn, því að hér er Prokofíev í eðalformi. Fyrsti þáttur er borinn uppi af tveimur meginstefjum. Þótt bæði séu áheyrileg við fyrstu heyrn er eins og Prokofíev vilji ekki gefa of mikið uppi strax í byrjun, heldur halda þau áfram að vaxa og þróast eftir því sem líður á kaflann. Allt tónefnið er skoðað í nýju ljósi í úrvinnslukaflanum, en að honum loknum heyrist upphafsstefið leikið þrumusterkt, fortissimo, af málmblásurum – í lúðrasveitarstíl og með ómstríðum hljómaundirleik. 

Annar kaflinn var upphaflega ætlaður í ballettinn Rómeó og Júlíu (1935–36). Tónlistin er fremur í anda þess sem Prokofíev fékkst við á þriðja og fjórða áratugnum, einkennist af kaldhæðni, galsaskap og trúðslátum. Hægi kaflinn er alvörugefinn, minnir jafnvel á útfararmars um miðbikið. Lokakaflinn hefst á innhverfum nótum en skyndilega víkur hæglátur blærinn fyrir glaðværri stemningu. Það sem eftir lifir verks leikur Prokofíev við hvern sinn fingur og ákafinn eykst með hverjum takti allt fram að lokahvellinum.