EN

Sergej Prokofíev: Fiðlukonsert nr. 1

„Fremst meðal jafningja“ sagði rússneskur tónlistargagnrýnandi um einleiksfiðluna í Fiðlukonserti Sergejs Prokofíev (1891-1953) nr. 1 og átti þá við að einleikshljóðfærið hefji sig ekki beinlínis yfir hljómsveitina og tróni yfir henni, heldur sé það hluti af heildarvef tónlistarinnar. Önnur nýjung sem í verkinu fólst var bygging þess, í stað þess að kaflarnir séu hinir venjulegu hraður/hægur/hraður er málum víxlað, miðjukaflinn er hraður og stuttur, fyrsti og þriðji hægari og ljóðrænni, þótt vissulega felist í þeim bæði snerpa og kraftur.

Konsertinn varð til á umbrotatímum í heimalandi tónskáldsins, Rússlandi, á því herrans ári 1917. Það þarf tæpast að koma á óvart að verkið hafi ekki verið frumflutt í Sankti Pétursborg það ár, eins og til hafði staðið, heldur sex árum síðar og það í París, þar sem tónskáldið hafði þá sest að. Byltingarárið 1917 reyndist þó einkar gjöfult fyrir Prokofíev sem tónskáld, kannski urðu ytri átök til að skerpa á skapandi huga hans, en á árinu litu dagsins ljós tvær píanósónötur hans, fyrsta sinfónían og fleiri píanóverk, auk fiðlukonsertsins.

Upphafstónar konsertsins eru töfrandi og ljóðrænir, fiðlan syngur angurværan söng – tónskáldið tók skýrt fram að hann vildi ná fram dreymandi andrúmslofti, sognando. Drög að fyrsta kaflanum höfðu orðið til 1915, þegar Prokofíev hugðist semja konsertínó í einum þætti, verk sem hann lagði á hilluna vegna anna, en tók fram tveimur árum síðar og gerði að fullgildum konserti. Fljótlega víkur draumurinn fyrir átakameiri tónum, sem áttu að vera narrando, eða í frásagnartón, „spilaðu þetta eins og þér liggi eitthvað brýnt á hjarta“ voru fyrirmæli tónskáldsins til fiðluleikarans. Í konsertinum býr margt sem einkennt hefur tónmál Prokofíevs, sem er fullt af andstæðum, þarna er ljóðræn fágun og fegurð en líka húmor, kaldhæðni, gróteska og djöfulgangur, vélrænn dans og villimennska.

Þrátt fyrir erfiða fæðingu og dræmar viðtökur í upphafi hefur Fiðlukonsert Prokofíevs nr. 1 orðið fastur liður á efnisskrám fiðluvirtúósa um allan heim, kannski er hann fremstur meðal jafningja þegar kemur að fiðlukonsertum 20. aldarinnar.

Í þessu verki fær fiðluleikarinn sannarlega tækifæri til að sýna hvað í honum býr og fara öfganna á milli í tækni jafnt sem tilfinningum. Verkið eins og fjarar út, fiðlan klífur tónstigann fimlega, fer ofar og ofar, spilar sífellt hærri trillutóna, sem taka að sindra eins og stjörnur á himni þegar upphafsstefið hljómar að nýju.