EN

Shostakovitsj: Sinfónía nr. 6

Þann 20. nóvember 1938 birtist stutt grein í blaðinu Hin sovéska list  sem bar yfirskriftina „Sinfónía í minningu Leníns“. Þar tilkynnti Dmítríj Shostakovitsj (1906–1975) um væntanlega sinfóníu sína, fjögurra þátta verk fyrir hljómsveit, kór og einsöngvara við texta eftir Majakowskíj, Dshambul og Stalski. Stuttu seinna var komið annað hljóð í strokkinn og tónskáldið sagði að nýja sinfónían yrði hreint hljómsveitarverk án nokkurra skírskotana. 

Sinfóníuna samdi Shostakovitsj á tímabilinu apríl til október 1939 og var hún frumflutt af Leningrad-fílharmóníunni (í dag St. Pétursborgar-fílharmónían) undir stjórn Évgenís  Mravinskíj í nóvember sama ár. Hinn almenni tónleikagestur tók sinfóníunni fagnandi en viðbrögð gagnrýnenda voru fremur neikvæð. Óvenjuleg uppbygging verksins - langur og þungbúinn fyrsti kafli og tveir stuttir ærslafullir þættir - var dæmd ruglingsleg og úr jafnvægi. „Þetta er höfuðlaus sinfónía“ sagði krítíkin sem saknaði hefðbundins fyrsta kafla sónötuformsins.

Líklegt er að Shostakovitsj hafi í upphafskafla sinfóníunnar notað efni úr hinni ráðgerðu minningarsinfóníu um Lenín. Allt yfirbragð kaflans er harmrænt og tónmálið yfirmáta kraftmikið og tilfinningaþrungið. Þá er tónsvið hljómsveitarinnar þanið til hins ýtrasta sem og tónstyrkurinn. Er við hlustun nærtækt að ímynda sér sorgarathöfn þar sem margir taka til máls og mæla fram minningarorð. 

Síðari kaflarnir tveir eru í öllu alger andstaða við fyrsta kaflann. Glettan, í þrískiptum takti, þeysist óþreyjufull áfram frá byrjun til enda og gerir í glæsilegum rithætti tónskáldsins miklar kröfur til færni allra hljóðfæraleikara hljómsveitarinnar. Í upphafi lokaþáttarins heldur fjörið áfram og er aðalstef  hans eins konar dansandi galopp à la Rossini. Stemningin breytist skyndilega þegar nýtt tónefni tekur yfirhöndina og magnast smám saman upp í óvæntan hápunkt. Fagott og  sólófiðlan fara svo fremst í flokki við að brúa bilið yfir í freyðandi upphafsstef kaflans sem endar með miklum gleðilátum.