EN

W.A. Mozart: Don Giovanni, forleikur

Don Giovanni varð til árið 1787 fyrir óperuhúsið í Prag, en þar átti Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) takmarkalausa aðdáun borgarbúa. Don Giovanni er byggð á alkunnri sögu um flagara sem hlýtur maklega refsingu fyrir siðlaust líferni. Sagan hlaut fyrst leikbúning í verki spænsks munks um 1630, síðar orti franska skáldið Molière leikrit upp úr sögunni og Gluck samdi ballett um örlög flagarans. Þeir Mozart og textahöfundurinn Lorenzo da Ponte sóttu þó einkum í óperu sem hafði verið frumflutt í Feneyjum nokkrum mánuðum áður en þeir sjálfir hófu störf. Óperu sína kölluðu þeir dramma giocoso eða gamandrama, sem var ein grein ítalskrar gamanóperu. Í slíkum verkum er dramatískur undirtónn og það á svo sannarlega við um Don Giovanni.

Don Giovanni er kvennabósi en allt gengur á afturfótunum hjá honum. Óperan hefst þar sem hann reynir að fleka hefðarfrúna Donnu Önnu en hún streitist á móti og hrópar á hjálp. Höfuðsmaðurinn faðir hennar kemur aðvífandi en Don Giovanni bregður sverði, stingur hann banasári og flýr af hólmi. Hann heldur uppteknum hætti en að lokum verður hrokinn honum að falli. Á gröf höfuðsmannsins hefur verið reist stytta af honum sem óvænt lifnar við og Giovanni býður höfuðsmanninum að snæða með sér kvöldverð. Styttan þekkist boðið og þar með eru örlög flagarans ráðin; undir lok óperunnar steypist hann niður í helvítisloga.

Tónlist höfuðsmannsins er dökk og ógnvænleg. Þegar hann ber á góma heyrast ómstríðir hljómar, sérkennilegir tónstigar upp og niður, auk þess sem Mozart notar dökkan hljóm básúnunnar, hljóðfæris sem oft mátti heyra í kirkjutónlist en ekki upp úr óperugryfjum. Það er þessi tónlist sem einkennir forleikinn að óperunni, eða öllu heldur fyrri helming hans. Því næst skiptir Mozart yfir í dúr og býður upp á stuttan þátt í sónötuformi þar sem hugmyndirnar eru ýmist ljúfar og kröftugar, eins konar upphitun fyrir allar þær ýktu tilfinningar sem í vændum eru.