EN

W.A. Mozart: Hornkonsert nr. 3

Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) samdi tugi einleikskonserta fyrir hin ýmsu hljóðfæri: fiðlu, píanó, horn, flautu, óbó, fagott. Þeirra á meðal eru fjórir hornkonsertar sem Mozart samdi fyrir vin sinn Joseph Leutgeb, sem lék í hirðhljómsveitinni í Salzburg á æskuárum tónskáldsins. Leutgeb var einn færasti hornsnillingur sinnar tíðar en virðist líka hafa haft kímnigáfu sem Mozart féll vel í geð, því að í nóturnar skrifaði tónskáldið ýmsa brandara og orðsendingar sem áttu að skemmta vini hans. Það hefur ávallt verið vandasamt að leika á franskt horn, en þó var það öllu áhættusamara áður en svokallaðir ventlar komu til sögunnar um 1820. Áður var það úrval tóna sem hljóðfærið bauð upp á allmiklu þrengra og takmarkaðist af því sem kallað er yfirtónaröðin. Þrátt fyrir þessar takmarkanir sýnir Mozart sínar bestu hliðar í konsertum sínum fyrir hljóðfærið. Konsertinn nr. 3 í Es-dúr er léttur og leikandi, með ljóðræna rómönsu um miðbikið. Verkinu lýkur með hressilegum þætti sem minnir á annað hlutverk hornleikara fyrr á öldum, að leika á veiðihorn úti í guðsgrænni náttúrunni.