EN

Upphafsár Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Upphafsárin
Saga Sinfóníuhljómsveitar Íslands er í engu frábrugðin sögum annarra menningar- og listastofnana íslensku þjóðarinnar hvað varðar eldmóð og hugsjónir einstaklinga sem lögðu sig alla fram og helguðu krafta sína að stórum hluta því að sjá drauminn rætast. Þessari baráttu, sem rekja má aftur til fyrri alda, má líkja við raðspil, pússluspil, þar sem hvert lítið stykki skipti óendanlega miklu máli í heildarmyndinni.

Ekki er hægt í þessari stuttu samantekt að leita að upphafi baráttunnar sem áhugasamir menn háðu fyrir framgangi hljóðfæratónlistar hér á landi, eða svo samlíkingunni hér að framan sé haldið, að leita að fyrstu stykkjunum í raðmyndina, en bera þess í stað niður í sögunni þar sem hljóðfæraleikur fer að koma við sögu. 

Fyrstu tónleikarnir
Íslendingar efndu til mikillar þjóðhátíðar árið 1874 til að minnast landnáms Ingólfs Arnarsonar. Tónlistarflutningur sá sem fram fór við það tækifæri varð kveikjan að tónlistarvakningu sem átti eftir að velta af stað skriðu sem ekki varð stöðvuð. Árið eftir þjóðhátíðina fóru tveir bræður, Jónas og Helgi Helgasynir, utan til náms í tónlist. Jónas (1839-1903) nam orgelleik en Helgi (1848-1922) trompetleik. Eftir heimkomuna, ári seinna, tók Helgi til óspilltra málanna, þjálfaði nokkra menn í leik á málmblásturshljóðfæri og stofnaði Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur. Lúðurþeytarafélagið samanstóð af sex málmblásurum og efndi síðan til tónleika sem teljast vera fyrstu hljóðfæratónleikar sem haldnir voru á landinu. Rekja má með nokkrum sanni alla síðari hljómsveitarstarfsemi til þessa fyrsta sprota „hljómsveitar“.

Árið 1910 var Lúðrasveitin Harpa stofnuð í Reykjavík og Lúðrasveitin Sumargjöfin var stofnuð tveim árum síðar svo raðmyndin var farin að stækka. Um þetta leyti efndi danskur fiðluleikari sem hér bjó, Poul Bernburg, til tónleika með litlum hljóðfæraflokki sem hann hafði safnað saman.  Annar danskur fiðluleikari, Oscar Johansen, sem einnig bjó hér og starfaði um nokkurra ára skeið, efndi einnig til tónleika þar sem „Hljóðfæraflokkur Oscars Johansen“ lék. Í báðum þessum tilvikum var einungis um litla hljóðfæraflokka að ræða. Næsta umtalsverða skrefið í hljómsveitarsögu landsins var stigið árið 1921.

Konungskoman 1921
Fyrstu tvo áratugi tuttugustu aldar höfðu lúðraflokkar auk áðurnefndra hljóðfæraflokka verið einu hljóðfærasveitirnar sem heyrðust. Árið 1913 lauk 17 ára gamall Reykvíkingur, Þórarinn Guðmundsson (1896-1979), námi í fiðluleik frá Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn, fluttist heim að námi loknu og hóf kennslu í fiðluleik. Kennslan byrjaði rólega en nemendahópurinn stækkaði jafnt og þétt. Þegar Þórarinn hafði rekið fiðluskóla sinn í sex ár stóð fyrir dyrum að Kristján X. konungur Danmerkur og Íslands kæmi í heimsókn til landsins. Leitað var til Þórarins og honum falið að setja saman hljómsveit sem léki við það tækifæri. Þórarinn hóaði saman og þjálfaði 20 manna sveit sem samanstóð að stærstum hluta af fiðlunemendum hans. Þessi „hljóðfærasveit“ hélt síðan tónleika 22. maí 1921, nokkurskonar aðalæfingu, nokkrum vikum fyrir konungskomuna. Á tónleikum þessum kom fram og lék stærri hljómsveit en menn höfðu fengið að heyra í fram til þess tíma á Íslandi. Þegar konungur kom var honum og fylgdarliði hans haldin veisla og lék sveit Þórarins í veislunni.

Í framhaldi af þessu tónleikahaldi var Hljómsveit Reykjavíkur stofnuð og hélt hún sína fyrstu tónleika annan dag jóla 1921; raðmyndin var farin að taka á sig lögun. Ekki tókst þó að halda starfi sveitarinnar gangandi og enn liðu fjögur ár þar til tónskáldin Sigfús Einarsson og Páll Ísólfsson tóku málin í sínar hendur og endurvöktu hljómsveitarstarfið. Á næstu árum þar á eftir hélt hljómsveitin nokkra tónleika undir stjórn tónskáldanna tveggja. Nokkru seinna var gerð tilraun til að auka fagmennsku í hljóðfæraleiknum því borið hafði á að hljómsveitarmennirnir töldu sig mega spila eftir eigin höfði. Fenginn var erlendur stjórnandi, Johannes Velden, til að þjálfa hljómsveitina en eftir skamma veru hans hér var farið að kastast í kekki milli hans og hljómsveitarmanna. Hljóðfæraleikurunum þóttu kröfur hans harðar og virðingu sinni ósamboðið að mega ekki spila eins og þeim sjálfum sýndist! Óþarft er að geta þess að dvöl Veldens hér hafði snöggan endi. Fimm árum seinna kom Fílharmóníuhljómsveit Hamborgar í heimsókn og hélt hér tónleika með Jón Leifs við stjórnvölinn. Vakti leikur þeirrar hljómsveitar mikla athygli, því annað eins hafði ekki áður heyrst. Árin sem í hönd fóru sýndu svo ekki varð um villst að áhugi fólks á tónlist jókst hröðum skrefum eftir því sem það átti þess kost að kynnast henni nánar.

Þess ber að geta áður en lengra er haldið að öll sú vinna sem lá að baki tónleikahaldi þessu var borin uppi og drifin áfram af eldmóði og fórnfýsi allra sem að tónleikahaldinu stóðu. Lítið sem ekkert var hægt að greiða þeim sem að þessu stóðu, æfingar og undirbúningur allur fór fram á kvöldin og í hverjum þeim frístundum sem gáfust. Menn unnu þau störf sem þeir höfðu sér til framfærslu; við prentiðn, afgreiðslustörf, skrifstofustörf, fiskvinnu og almenna verkamannavinnu svo eitthvað sé nefnt. Hljómsveit Reykjavíkur reyndi af veikum mætti að starfa áfram við ofannefnd starfsskilyrði og gerði ótrúlegustu hluti þegar litið er til aðstæðna.

Árið 1930 reyndist vera örlagaár í þróunarsögu tónlistarlífs landsmanna. Ríkisútvarpið tók til starfa á þessu ári og átti eftir að koma við sögu tónlistarmála svo um munaði. Efnt var til mikillar hátíðar á Þingvöllum í tilefni þúsund ára afmælis Alþingis Íslendinga og leitað var til Hljómsveitar Reykjavíkur og hún beðin um að aðstoða við hátíðahöldin. Fengnir voru að láni níu hljóðfæraleikarar frá Danmörku til styrktar hljómsveitinni við þetta tækifæri auk þess sem hljómsveitinni var fenginn erlendur hljómsveitarstjóri til að starfa með henni í eitt ár. Til starfans var ráðinn  dr. Franz Mixa sem síðan átti eftir að vinna mikið og merkt uppbyggingarstarf hér því hann ílentist hér og starfaði nær óslitið í níu ár. Fyrir forgöngu Páls Ísólfssonar og áhugamanna úr Hljómsveit Reykjavíkur var Tónlistarskólinn í Reykjavík stofnaður haustið 1930 og í þann skóla leituðu þeir sem sóttust eftir hljóðfæranámi. Hljómsveit Reykjavíkur annaðist fyrstu tvö árin rekstur skólans en það reyndist henni ofviða. Fyrir forgöngu Ragnars í Smára, Björns Jónssonar og fleiri áhugasamra manna var Tónlistarfélagið stofnað árið 1932 og tók félagið við rekstri skólans. Dr. Franz Mixa starfaði hér að uppbyggingu tónlistarlífs þar til hann fluttist af landi brott árið 1938 eftir gifturíkt starf og við starfi hans tók dr. Victor Urbancic. Enn frekari liðsauki barst erlendis frá þegar dr. Róbert A. Ottósson fluttist til landsins og sömuleiðis dr. Heinz Edelstein sellóleikari. Rétt áður en heimsstyrjöldin skall á haustið 1939 kom Björn Ólafsson fiðluleikari heim frá Austurríki þar sem hann hafði verið við nám. Allir þessir menn voru ráðnir að Tónlistarskólanum í Reykjavík sem kennarar. Með tilkomu Tónlistarskólans í Reykjavík og kennslu þeirra frábæru kennara sem við skólann störfuðu fengu íslenskir hljóðfæranemar tilsögn í hljóðfæraleik sem jafna mátti við það sem þekktist erlendis.

Á þeim áratug sem í hönd fór rak hver stórviðburðurinn annan í tónleikahaldi í Reykjavík. Tónleikahald var farið að vera áberandi hluti bæjarlífsins og stóð Tónlistarfélagið í Reykjavík fyrir því, en einnig frú Anna Friðriksson í Hljóðfærahúsinu. Drifkraftarnir í Tónlistarfélaginu, með Ólaf Þorgrímsson fremstan í flokki, stóðu fyrir stofnun blandaðs kórs, Tónlistarfélagskórsins. Félagið stóð fyrir óperettuflutningi og varð Meyjaskemman fyrst fyrir valinu. Dr. Mixa stjórnaði. Í kjölfarið komu ýmsar aðrar óperettur. Síðar réðst Tónlistarfélagskórinn í að flytja G-dúr messu Schuberts undir stjórn dr. Mixa. Á eftir fylgdi hvert stórvirkið af öðru með þátttöku kórsins. „Sköpunin“ eftir Haydn var flutt 18. des. 1939 í Steindórsskála með 33 manna hljómsveit sem mönnuð var svo til eingöngu íslenskum hljóðfæraleikurum undir stjórn Páls Ísólfssonar og Róbert A. Ottósson stjórnaði flutningi á  „Árstíðunum“. Dr. Victor Urbancic lagði sitt af mörkum og stjórnaði Messíasi eftir Händel, Sálumessu Mozarts og stórverkum Bachs, Jólaóratoríunni og Jóhannesarpassíunni. Allt voru þetta stórviðburðir, í raun hreinasta þrekvirki  að flytja slík verk við þær aðstæður sem hér ríktu.

Tónleikahald höfuðborgarinnar var orðið býsna fjölskrúðugt þegar hér var komið. Reykvíkingar fengu að heyra í listamönnum á borð við Prag-kvartettinn, Smetana-kvartettinn, ýmsa karlakóra, söngvarana Eggert Stefánsson, Elsu Sigfúss, Else Muehl, Jussi Björling og Dietrich Fischer-Dieskau með Gerald Moore píanóleikara, píanóleikarana Ignaz Friedman, Harald Sigurðsson, Margréti Eiríksdóttur, Árna Kristjánsson og  Rögnvald Sigurjónsson, fiðluleikarana Björn Ólafsson, Emil Telmányi  og Henry Holst. Óperetturnar Bláa kápan og Brosandi land voru fluttar, að ógleymdum stóru kór- og hljómsveitartónleikunum sem áður var minnst á. Í júní 1947 var haldin mikil Beethovenhátíð með tónleikum þar sem fram komu m.a. Busch-strengjakvartettinn, og breskir blásarar, Reginald Kell klarínettleikari, Joseph Holbrook fagottleikari og Terenc MacDonough óbóleikari, Adolf Busch og píanósnillingurinn Rudolf  Serkin.

Til viðbótar ofannefndu tónleikahaldi verður að geta þáttar Lúðrasveitar Reykjavíkur sem efndi til útitónleika á fögrum sumarkvöldum á Austurvelli við styttu Jóns Sigurðssonar þar sem Reykvíkingar flykktust að, gengu umhverfis völlinn og hlýddu á leik lúðrasveitarinnar undir stjórn Alberts Klahn. Setti leikur lúðrasveitarinnar skemmtilegan svip á bæjarlífið eins og eldri Reykvíkingar muna eflaust. 

Ekki má skilja þessa frásögn svo að hér hafi hlutir verið farnir að ganga eðlilega fyrir sig. Þetta var hörð barátta fyrir tilvist tónlistarflutningsins, barátta sem mætti litlum skilningi ráðandi afla. Þeir sem stóðu fremstir í baráttunni voru Tónlistarfélagsmennirnir og ber þar helst að nefna Ragnar Jónsson í Smára, Hauk Gröndal framkvæmdastjóra og Björn Jónsson kaupmann auk hljóðfæraleikaranna sjálfra sem reyndu að halda hópinn og efna til tónleika af og til. Starfsemi Hljómsveitar Reykjavíkur var orðin svo lítil og veikburða að Félag íslenskra hljóðfæraleikara (stofnað 1932) reyndi að blása í glæðurnar árið 1944 og efndi til tónleika í Tjarnarbíói, í veikri von um að það styrkti hljóðfæraleikarana í baráttunni, en það stoðaði lítt. Óhjákvæmilega hlaut að koma að því að Hljómsveit Reykjavíkur legði upp laupana og hætti störfum. Hljóðfæraleikararnir vildu ekki gefast upp og freistuðu þess að standa sjálfir að tónleikahaldi undir eigin merki sem þeir kölluðu Symfóníuhljómsveit Reykjavíkur. Hún hélt sína fyrstu tónleika í janúar 1948 í hinu nýbyggða Austurbæjarbíói.

Útvarpshljómsveitin
Það sem haldið hafði lífi í þessari fórnfúsu og vonlitlu baráttu allan þennan tíma var sú staðreynd að skömmu eftir að Ríkisútvarpið tók til starfa árið 1930 höfðu nokkrir hljóðfæraleikarar verið ráðnir í hálft starf til að annast hljóðfæraleik í útvarpinu og menn bundu vonir við að þar gæti eitthvað meira komið til. Upphaflega voru ráðnir tveir hljóðfæraleikarar að útvarpinu, fiðluleikarinn Þórarinn Guðmundsson og Emil Thoroddsen píanóleikari. Seinna bættist Þórhallur Árnason sellóleikari við og  útvarpstríóið varð til. Ríkisútvarpið bætti smám saman við þá tölu þannig að á einum og hálfum tug ára, þegar tala hljóðfæraleikara í hálfu starfi hjá Ríkisútvarpinu var orðin 15 manns, var kominn vísir að „salon orkestri“ sem annaðist tónlistarflutning í útvarpinu. Útvarpshljómsveit þessi lék í beinni útsendingu í Ríkisútvarpinu að jafnaði tvisvar í viku undir stjórn Þórarins Guðmundssonar. Þeir hljóðfæraleikarar sem ráðnir höfðu verið til starfa í hljómsveitinni voru fasti kjarninn í hljómsveitunum sem efndu til tónleika á þessum árum.

Allt bendir til þess að hin slæma útkoma baráttunnar fyrir skilningi ráðamanna á eflingu hljómsveitarstarfsins hafi stafað af því hve ómarkviss hún var. Það vantaði að sameina krafta þeirra fjölmörgu manna sem sáu hve brýnt var orðið að koma föstu formi á rekstur sinfóníuhljómsveitar. Senn kæmi að því að Þjóðleikhúsið tæki til starfa og þörfin fyrir starfandi hljómsveit yrði ennþá brýnni þegar að því kæmi.

Sinfóníuhljómsveitin stofnuð
Allur þessi langi aðdragandi, sem lýst hefur verið hér að framan, hlaut óhjákvæmilega að leiða til þess að tekið yrði föstum tökum á málum. Jón Þórarinsson, sem hafði verið við nám í tónsmíðum í Bandaríkjunum, kom heim síðsumars 1947 og sá hve ömurlegt ástand hljómsveitarmála var. Hann gekk til liðs við menn þá sem stóðu fremstir í baráttunni, þ.e. forystulið Tónlistarfélagsins, og varð strax mjög virkur. Með tilkomu Jóns komst skipulag á baráttuna, skrifaðar voru greinargerðir til rökstuðnings þörfinni fyrir stofnun hljómsveitar og sýnt fram á hvernig mætti fjármagna reksturinn. Farið var á fundi með ráðamönnum menntamála þjóðarinnar og til borgaryfirvalda og spilin lögð á borðið. Öll sú þrautaganga kostaði marga fundi, stafla af skrifuðum skýrslum, tillögum og kostnaðaráætlunum. Kominn var skriður á málin en undirtektir ráðamanna voru misjafnar. Ekki skal rakið nánar í þessum skrifum hvernig viðræðurnar gengu fyrir sig í smáatriðum en þar kom að 7. febrúar 1950 var samþykkt  tillaga í útvarpsráði frá Jónasi Þorbergssyni útvarpsstjóra og tónlistardeild útvarpsins (þeim Páli Ísólfssyni og Jóni Þórarinssyni) um starfrækslu sinfóníuhljómsveitar í tilraunaskyni. Upphaflega fjárhagsáætlunin hafði verið skorin mikið niður en samþykkt hennar byggðist á því að hljóðfæraleikararnir slógu mjög mikið af eðlilegum kaupkröfum sínum „í þeirri von að þessi tilraun geti orðið til að glæða skilning manna á nauðsyn sinfóníuhljómsveitar hér á landi“. Áður hafði útvarpsráð samþykkt að ráða fimm þýska hljóðfæraleikara til landsins. Ofannefnd samþykkt fól í sér að 25 hljóðfæraleikarar skyldu ráðnir á hálfan samning og Ríkisútvarpið legði fram vinnu fastráðinna hljóðfæraleikara sinna til starfa í  hljómsveitina. Einum mánuði og tveim dögum síðar, 9. mars 1950, efndi hin nýstofnaða 39 manna  hljómsveit til fyrstu tónleika sinna og hefur sá dagur verið talinn stofndagur Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, í Austurbæjarbíói 9. mars 1950. Róbert Abraham Ottósson stjórnaði hljómsveitinni. Ljósmynd: Sigurhans Vignir.

Eftir að hljómsveitin var formlega stofnuð í mars 1950 var reksturinn fyrst í höndum þriggja manna stjórnar en í henni sátu Jón Þórarinsson tilnefndur af  Ríkisútvarpinu, Baldur Andrésson tilnefndur af Reykjavíkurborg og Bjarni Böðvarsson tilnefndur af hljóðfæraleikurunum. Menn gerðu sér vonir um að nú væru málefni hljómsveitarinnar loks í höfn en annað átti eftir að koma í ljós.   

Syrtir í álinn!
Þegar fögnuðurinn yfir stofnun hljómsveitarinnar var enn í hámarki og allirí sæluvímu fóru menn að geta greint dökkleit ský bera við sjóndeildarhringinn. Ríkisútvarpið hafði fallist á þessa skipan mála til bráðabirgða svo í raun hafði hljómsveitinni ekki verið tryggður rekstrargrundvöllur nema til eins árs! Góðir menn lögðu  nótt við dag til að finna lausn á vandanum til framtíðar. Þótt margir legðu þar hönd á plóginn verður að geta þeirra sem fremstir stóðu í baráttunni en það voruþeir Ragnar Jónsson í Smára, Haukur Gröndal og Björn Jónsson kaupmaður úr röðum Tónlistarfélagsins í Reykjavík, tónskáldin Jón Þórarinsson og Páll Ísólfsson og stjórnmálamennirnir Gylfi Þ. Gíslason menntmálaráðherra og Gunnar Thoroddsen borgarstjóri. Óhætt er að fullyrða að íslenskt tónlistarlíf stendur í ævarandi þakkaraskuld við þessa menn því án fórnfúsrar baráttu þeirra hefði hljómsveitin ekki náð lengri lífdögum en þetta eina ár "til bráðabirgða". Ennfremur verður að geta hvern þátt hljómsveitarmennirnir sjálfir áttu í þessari baráttu fyrir tilvist hljómsveitarinnar. Þeir sættu sig við svo lág laun til þess að hægt var að halda hljómsveitinni gangandi að óhjákvæmilegt var fyrir þá annað en að hafa önnur störf sér til framfærslu. Hljómsveitarstarfið var þannig einungis aukastarf, mjög krefjandi aukastarf sem þeir lögðu á sig afbrennandi áhuga við erfiðustu skilyrði. Í allri samningagerð um laun og starfsskyldu var alla tíð tjaldað til einnar nætur í senn. Hver einasti samningur við samtök hljómsveitarmanna hafði ákveðna klausu í lokin sem hljóðaði efnislega þannig; -  að ef fjárframlög til hljómsveitarinnar brystu mætti segja samningunum upp án nokkurs fyrirvara. Þannig tókst að halda hljómsveitinni á floti og fallöxin hékk yfir henni.

Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur fyrir nemendur í Íþróttahúsi Melaskóla,
árið 1951 eða 1952. Ljósmynd: Pétur Thomsen eldri.

Hljómsveitin deyr en lifnar á ný.
Á þessum fyrstu árum sá ríkisútvarpið um daglegan rekstur hljómsveitarinnar en þegar fjögur ár voru liðin af starfseminni gerðist það sem menn höfðu óttast: ríkisútvarpið sá sér ekki fært að halda fjárframlagi sínu til hljómsveitarinnar áfram og starfsemin var lögð niður! Átti hljómsveitin að hljóta þau örlög að deyja eftir nokkurra ára starf?! Bjargvættirnir tóku til sinna ráða og eftir fimm mánaða samningaþref við fjárveitingaaðila var lífi blásið í hljómsveitina á ný og hún gerð að sjálfstæðri stofnun með tiltekin framlög frá útvarpi, Þjóðleikhúsi, ríki og borg. Skipuð var sjömanna stjórn yfir hljómsveitina og henni ráðinn framkvæmdastjóri. Þannig hélt hún velli næstu fimm árin en þá var farið að hrikta í fjárhagsstoðum hennar. Á vormánuðum 1961 var reksturinn kominn í óefni. Ríkisútvarpið tók þá að sér að annast um reksturinn á ný og næsta starfsár gat hafist án þessað nokkurt hlé yrði á tónleikahaldinu. Farið var út í áskriftarfyrirkomulag í tónleikahaldinu og tónleikarnir voru fluttir úr Þjóðleikhúsinu þar sem þeir höfðu verið haldnir á fyrsta áratug starfseminnar. Háskólinn hafði byggt veglegt kvikmyndahús vestur á melum og þar fékk hljómsveitin inni með tónleika sína. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti starfsemi sína í Háskólabíó árið 1961 og var það aðsetur hennar í hálfa öld. Hér sjást skólabörn flykkjast á tónleika hljómsveitarinnar í lok sjöunda áratugarins. Ljósmyndari óþekktur.

Þótt segja megi að tónleikagestir hafi ekki orðið þess áskynja að nokkuð væri að í tónleikahaldi hljómsveitarinnar var margt þess valdandi að erfiðlega gekk með reksturinn. Má þar fyrst og fremst nefna óöryggið því tilvist hennar hékk á bláþræði og kom því stundum til smá árekstra sem í flestum tilfellum stöfuðu af fjárhagsskorti og þrengingum sem hljómsveitarfólk var orðið þreytt á en urðu að sætta sig við vegna hins ótrygga ástands. Samt má líta svo á að rekstur og tónleikahald hljómsveitarinnar hafi verið komið í býsna fastar skorður og hljómsveitin hafði sannað tilverurétt sinn svo um munaði. Menn voru farnir að leiða að því hugann að kominn væri tími til að setja lög um hljómsveitina. Sett var á laggirnar nefnd til að semja drög að lagafrumvarpi um hljómsveitina.

1983. Tilveran tryggð, lögin samþykkt.
Ástæðulaust er að fara í smáatriðum út í það hver aðdragandinn að setningu laganna varð en þess má geta að það var ekki fyrr en við fjórðu frumvarpsgerð að lögin voru samþykkt árið 1983 eftir að málið hafði verið rætt á fjórum þingum. Þannig öðlaðist Sinfóníuhljómsveit Íslands tilverurétt eftir rúmlega þriggja áratuga baráttu. Skipuð var fimm manna stjórn til að sjá um reksturinn og fengu aðilar þeir sem stóðu að fjármagni til rekstursins hver sinn fulltrúa þ.e.  ríki, borg, útvarp og Þjóðleikhús auk þess sem hljómsveitarmenn fengu fulltrúa í stjórnina. Einn rekstraraðilanna, Seltjarnarnesbær, sóttist ekki eftir því að eiga fulltrúaí stjórninni. Gegn framlagi ríkisútvarps og Þjóðleikhúss kom vinnuframlag hljómsveitarinnar. Hljómsveitinni var nú markað ákveðið hlutverk í menningarlífi þjóðarinnar. Einn var þó sá þáttur í starfsskyldu hljómsveitarinnar sem í ljós kom að stóð eðlilegum vexti hennar fyrir þrifum en það voru skyldur hljómsveitarinnar til að annast um tónlistarflutning fyrir  Þjóðleikhúsið. Það samningsákvæði gerði stjórn hljómsveitarinnar nánast ókleift að skipuleggja aðra þætti hljómsveitarstarfsins því aldrei var hægt að sjá fyrir hver þörf leikhússins fyrir leik hljómsveitarinnar yrði. Menntamálaráðherra skipaði fimm manna nefnd til að finna lausn á því. Útkoman úr starfi nenfndarinnar var að hljómsveitin var leyst undan þeirri kvöð og Þjóðleikhúsið var þar með ekki lengur aðili að rekstrinum. Með þann örugga starfsgrundvöll sem nú var kominn náði hljómsveitin fyrstað vaxa listrænt og starfið varð allt mun markvissara. 

Vladimir Ashkenazy og Daniel Barenboim æfa píanókonsert nr. 2 eftir Chopin í Háskólabíói í desember 1971. Þetta var í fyrsta sinn sem Ashkenazy stjórnaði tónleikum hljómsveitarinnar, en hann stýrði henni síðan á fjölda tónleika og tók við stöðu heiðursstjórnanda árið 2002. Ljósmynd: Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon.

Hljómsveitin fór í sína fyrstu utanlandsferð árið 1977 og heimsótti þá frændur okkar í Færeyjum. Þremur árum síðar fór hljómsveitin í tónleikaferð til Þýskalandsog Austurríkis og nokkrum árum síðar var gerður fyrsti hljómplötusamningurinn. Var það enska útgáfufyriertækið Chandos sem samdi um útgáfu á leik hljómsveitarinnar á tíu geisladiska. Sænska fyrirtækið BIS gerði síðan samning um útgáfu geisladiska með leik hljómsveitarinnar og um svipað leyti leitaði hið þekkta fyrirtæki Naxos eftir samvinnu við hljómsveitina og hefur gefið út marga geisladiska með leik hennar. Farin var tónleiklaferð til Frakklands, síðan til Norðurlandanna, til Grænlands, til München, og til Bandaríkjanna 1996. Hafa þessar tónleikaferðir og geisladsikaútgáfur vakið gífurlega athygli á Sinfóníuhljómsveit Íslands og því háa menningarstigi sem hér ríkir.

Osmo Vänskä stjórnar hljómsveitinni á sviði Carnegie Hall í New York árið 1996, en tónleikarnir hlutu mikið lof tónlistargagnrýnanda The New York Times. Ljósmynd: Steve J. Sherman.

Gunnar Egilson skráði.