EN

Antonio Vivaldi: Cessate, omai cessate, úr kantötu RV 684 og Konsert fyrir fiðlu og selló í B-dúr

Antonio Vivaldi (1678–1741), rauðhærði tónsnillingurinn frá Feneyjum, er kunnur fyrir óhemju afköst á sviði tónsmíða. Hann er til að mynda talinn hafa samið um fimm hundruð konserta, en öðru máli gegnir reyndar um kammerkantötur (stundum nefndar sólókantötur), verk samin fyrir einn einsöngvara sem ýmist er studdur af fylgirödd eingöngu eða nokkrum strengjahljóðfærum. Einungis 37 slíkar kantötur úr penna Vivaldis hafa varðveist og þær lágu að mestu gleymdar í meira en 200 ár. Á síðustu áratugum hafa tónlistarmenn dustað rykið af þessum verkum og fundið þar ýmsar perlur, svo sem kantötuna sem hljómar hér í kvöld.

Kammerkantötur voru vinsælt tónlistarform alla sautjándu öldina og fram á þá átjándu. Þær voru oft samdar til flutnings á samkomum í heimahúsum, þar sem farið var með ljóð og tónlist leikin milli þess sem bornar voru fram veitingar og gestir gripu í spil. Texti kantatanna var ortur gagngert fyrir tilefnið; yrkisefnin voru ávallt af veraldlegum toga, mest sungið um ástina — gjarnan undir formerkjum hjarðljóða þar sem fjárhirðar og skógardísir skoppa um í ímynduðum yndisreit. Cessate, omai cessate er í hefðbundnu kantötuformi og þar skiptast á söngles og aríur. Söngvarinn harmar kaldlyndi vinu sinnar Dorillu og óskar sér dauða svo hann geti komið fram hefndum í ríki Hadesar.

Konsert fyrir fiðlu og Selló í B-dúr, rv 547
Langflesta konserta sína samdi Vivaldi fyrir nemendur sína í Ospedale della Pietà, skóla fyrir munaðarlausar stúlkur í Feneyjum. Hann var ráðinn þangað sem fiðlukennari árið 1703 og starfaði við skólann með hléum í nærri fjóra áratugi. Í Ospedale della Pietà var mikil áhersla lögð á tónlistarmenntun; þar var starfrækt rómuð nemendahljómsveit, stúlkurnar komu reglulega fram á tónleikum og fluttu verk sem samin voru af tilefninu. Í flestum konsertum Vivaldis leikur aðeins eitt einleikshljóðfæri á móti hljómsveitinni, langoftast fiðla þótt einnig hafi varðveist ýmsir konsertar hans fyrir önnur hljóðfæri. En stundum eru einleikararnir fleiri, ýmist á sams konar hljóðfæri (t.d. tvö óbó eða fjórar fiðlur) ellegar þá að mismunandi hljóðfærum er stefnt saman eins og í konsertinum fyrir fiðlu og selló sem hér er fluttur.

Tónlistin á íslandi
Hvorki kantatan né þessi konsert hafa áður verið á dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hljómsveitin hefur nokkrum sinnum flutt aðra konserta eftir Vivaldi og hafa einleikarar þá gjarnan komið úr röðum hennar. Af þeim má nefna fiðluleikarana Björn Ólafsson, Bryndísi Pálsdóttur, Laufeyju Sigurðardóttur, Lin Wei og Andrzej Kleina, sellóleikarann Pétur Þorvaldsson og trompetleikarana Jón Sigurðsson og Lárus Sveinsson. Konsertar eftir Vivaldi hafa margoft hljómað á jólatónleikum Kammersveitar Reykjavíkur og þess er skemmst að minnast að hinn 19. nóvember síðastliðinn flutti Barokksveit Breiðholtskirkju tvo konserta og tvær kantötur á tónleikum sem helgaðir voru Feneyjameistaranum.