EN

Ernest Chausson: Sinfónía í B-dúr Op. 20

Amédée Ernest Chausson (1855–1899) fæddist í París og ólst upp í faðmi velmegandi og ástríkrar fjölskyldu. Faðir hans var byggingaverktaki sem auðgaðist af verkefnum fyrir Baron Haussmann við endurbyggingu Parísarborgar á 6. áratug nítjándu aldar. Hann var listhneigður en kaus að ljúka lögfræðiprófi áður en hann sneri sér alfarið að tónlistinni. Settist hann á skólabekk hjá Jules Massenet í Konservatoríinu í París á tuttugasta og fimmta aldursári. Meðal samnemenda hans voru Henri Duparc, Vincent d'Indy, Joseph-Guy Ropartz og Sylvio Lazzari. Hann var í miklu uppáhaldi hjá Massenet sem lýsti honum sem fágætum persónuleika og sönnum listamanni. Chausson lærði einnig hjá César Franck og tókst með þeim náin vinátta sem varði þar til Franck lést árið 1890. Á árunum 1882 og 1883 fór hann til Bayreuth til að hlýða á óperur Wagners. Í fyrra skiptið í fylgd vinar síns, tónskáldsins Vincents d'Indy til að upplifa frumsýninguna á óperunni Parsifal. Í síðari ferðinni var ferðafélaginn tilvonandi eiginkona hans, Jeanne Escudier (1862–1936).

Frönsk tónskáld höfðu um langa hríð einbeitt sér að óperusmíði og gefið „hreinni“ hljóðfæratónlist fremur lítinn gaum. Áhugi þeirra á slíkri list kom meðal annars til sem óvænt viðbragð úr þjóðernisátt eftir að Frakkar biðu lægri hlut í stríðinu við Prússland á árunum 1870–71. Fáeinum dögum eftir að prússneski herinn marseraði niður breið - götuna Champs-Élysées stofnuðu frönsk tónskáld samtök sem báru heitið Société Nationale de Musique. (Þjóðar - tónlistarfélagið) og höfðu að einkunnarorðum Ars gallica - „frönsk list“. Markmiðið var að hvetja þarlend tónskáld til dáða, ekki síst í þeim greinum sem hingað til höfðu helst verið ríkjandi á verkaskrám Þjóðverja: sinfóníum og sónötum, konsertum og kammertónlist. Yfirburðum sigurvegaranna á þessu sviði var með öðrum orðum ekki lengur tekið þegjandi og hljóðalaust. Með inngöngu sinni í Konservatoríið var Chausson kominn mitt í hringiðu þessarar hreyfingar og 1886 gerðist hann ritari Þjóðartónlistarfélagsins og gegndi því starfi til æviloka.

Chausson lést aðeins 44 ára gamall af áverkum eftir reið - hjólaslys. Stuttu síðar skrifaði Camille Mauclair eftirfarandi um vin sinn: „Þrátt fyrir hörmulegan dauða Chaussons hafði hann notið mikillar hamingju í lífinu. Hann var efnaður og umvafinn brosi fallegs lífsförunautar og fimm dásamlegra barna. Heimili hans var fullt af smekkvísi og list. Henry Lerolle hafði skreytt það með veggfóðri þar sem viðarteinungar fléttuðust utan um ungar meyjar á ljóðrænan hátt. Þar var safn verka eftir Odilon Redon, Degas, Besnard, Pavis og Carrière. Hér bjó Chausson bakvið há gluggatjöld, einföld húsgögn, píanóin sín, raddskrár og bækur. Á borðinu hans sameinaðist fjölskyldan á ljósmyndum; elskulegur lítill heimur, ungar konur, gáfaðir menn, hver á sínum stað. Vinirnir sem oft eyddu kvöldinu í húsakynnunum á Boulevard de Courcelles komu úr hópi fremstu listamanna samtíðarinnar, þar á meðal tónskáldin Henri Duparc, César Franck, Claude Debussy og Isaac Albéniz, ljóðskáldið Stéphane Mallarmé, rússneski rithöfundurinn Ivan Turgenev og málarinn Claude Monet. En að þessum samkomum slepptum kaus Chausson félagsskap fárra vina...“

Chausson hóf smíði einu sinfóníu sinnar í september 1889 og lauk henni desember 1890. Hún er skrifuð fyrir stóra hljómsveit; þrískipaða tréblásturssveit, fjóra trompeta, þrjár básúnur, túbu, pákur, slagverk og tvær hörpur auk strengjasveitarinnar. Var hún frumflutt undir stjórn höfundar á tónleikum Société Nationale de Musique í Érard Salle 18. apríl 1891. Verkið náði þó ekki að snerta hjörtu Parísarbúa fyrr en ungverski hljómsveitarstjórinn Arthur Nikisch heimsótti borgina ásamt Fílharmóníuhljómsveit Berlínar og flutti sinfóníuna sex árum síðar eða í maí 1897. Hún er í þremur köflum og hefst á hægum og dökkmáluðum inngangi (Lent) sem rís og hnígur áður en rofar til með nýju glaðlegu stefi (Allegro vivo). Úr þessum efniviði vinnur svo tónskáldið á glæsilegan hátt og bætir í spennuna allt til enda kaflans. Hægi kaflinn (Trés lent) hefst á þriggja tóna rísandi stefi sem kallast á við upphaf sinfóníunnar. Í miðhlutanum fá hin dekkri hljóðfæri, englahornið, hornin og víólurnar að blómstra. Lokakaflinn hefst af krafti í strengjum og með lúðrakalli. Dýnamísk og rytmísk spenna ræður svo ríkjum þar til málmblásararnir upphefja sálm sem byggður er á fyrsta stefinu og leggur grunn að hátíðlegu niðurlagi verksins.

Sinfónía í B-dúr eftir Ernest Chausson hefur aldrei áður verið flutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Fiðlueinleiksverk hans Poème hljómaði aftur á móti síðast hér í Hörpu á tónleikum hljómsveitarinnar í maí 2017.