EN

Felix Mendelssohn: Fiðlukonsert í e-moll op. 64

Texti eftir Johönnu Brynju Ruminy

Árið 1838 ákvað þýska tónskáldið, píanóleikari, organistinn og hljómsveitarstjórinn Felix Mendelssohn (1809-1847) að semja fiðlukonsert handa vini sínum Ferdinand David. Í bréfi til hans sagðist Mendelssohn langa að skrifa handa honum konsert, að hann væri með laglínu í e-moll á heilanum sem léti hann ekki í friði. Það tók rúm sex ár að semja konsertinn sem var frumfluttur árið 1845. Verkið er einn mest flutti fiðlukonsert sem saminn hefur verið.

Konsertinn þykir frekar óhefðbundinn fyrir það skeið sem hann er sprottinn úr. Hann er að vísu saminn í hefðbundnu þriggja þátta formi en þó er hann um margt mjög óvenjulegur og frumlegur. Fyrsti þáttur hefst á stefi í e-moll, laglínunni sem Mendelssohn hafði svo lengi haft í huga. Einleiksfiðlan kynnir stefið í fyrsta sinn en á þessum tíma tíðkaðist að hljómsveitin spilaði langt forspil og kynnti fyrsta stef áður en einleikshljóðfærið kæmi inn. Kadensan hefst um miðbik fyrsta kafla en í stað þess að gefa einleikaranum frelsi til að semja sjálfur, eins og tíðkaðist á þeim tíma, samdi Mendelssohn kadensuna. Kaflinn endar á hröðu samspili hljómsveitar og einleikara og loks einungis fagotti sem leiðir beint inn í annan kafla. Hann er í hægum dúr og einstaklega fallegur. Í honum ríkir kyrrð svo að tónlistin er nánast himnesk. Fyrir miðjum kafla leikur hljómsveitin þjáningarfullt stef þar sem einleikarinn er í senn undirleikari og sólisti. Tilfinningaþrungið millispil strengja tekur við eftir lok annars kafla. Það er í sömu tóntegund og fyrsti kaflinn, líkt og eins konar dauf minning. Trompet ýtir þriðja kaflanum loks af stað með lúðragjalli og hljómsveitin tekur undir með tilheyrandi hraða og spennu. Konsertinum lýkur í björtum og glæsilegum dúr.