EN

Frédéric Chopin: Píanókonsert nr. 1

Lang stærstur hluti verka eftir Frédéric Chopin (1810–1849) eru samin fyrir einleikspíanó. Inn á milli leynast þó önnur verk, þar á meðal tveir píanókonsertar. Raunar var það svo að konsertinn sem er númer tvö (frá 1829) er eldri en sá númer eitt (frá 1830). Ástæðan fyrir því að númer þeirra víxluðust er sú að yngri konsertinn (sá sem við þekkjum númer 1) birtist fyrr á prenti.

 Chopin var um tvítugt þegar hann samdi píanókonsertana og bera þeir nokkurn keim æskuverka. Báðir njóta hylli áhorfenda (sá númer tvö er oftar fluttur en sá númer eitt) en hvorugur þeirra hlaut náð fyrir eyrum gagnrýnanda. Raunar fengu þeir báðir slaka dóma og er þar einna helst bent á óspennandi hljómsveitarkafla auk þess sem samspil einleikara og hljómsveitar þykir lítið dramatískt. Hér eru þó gagnrýnendur að dæma býsna hart, enda er um að ræða afar ljóðræn verk. Kannski var það einmitt sú staðreynd sem gagnrýnendum blöskraði. Þeir áttu flestir von á flugeldasýningu þar sem Chopin bjó yfir gríðarlegri tækni. 

Í fyrsta þætti konsertsins númer eitt – sem hljómar hér í kvöld – heyrum við tvö eftirminnileg stef; hið fyrra mikilfenglegt en seinna stefið minnir okkur á nokkurs konar næturljóð. Um annan þáttinn skrifaði tónskáldið í bréfi: „Hægi kaflinn í konsertinum mínum er rómansa, kyrrlát og full eftirsjár. Þetta er eins konar draumur í tunglskini á fögru vorkvöldi.“ Chopin sækir svo innblástur til Póllands í lokaþættinum. Meginstefið minnir þannig á vinsælan þjóðdans, krakowiak, sem ættaður er frá Kraká.