EN

Georg Friedrich Händel: Ombra mai fu, úr Xerxesi og Vivi tiranno úr Rodelindu

Xerxes, ein af mörgum óperum í ítölskum stíl sem Händel (1685–1759) samdi fyrir King's Theatre í Lundúnum, gerist í Persíu á 5. öld f. Kr. og aðalpersónurnar í verkinu — þar á meðal titilpersónan Xerxes Persakonungur — eiga sér sögulegar fyrirmyndir. Söguþráðurinn hverfist um flókin ástamál eins og hefðbundið var í óperum þessa tíma en að öðru leyti var margt óvenjulegt í þessu verki Händels. Í stað þess að nota libretto skrifað af samtímamanni kaus tónskáldið að láta aðlaga fyrir sig 17. aldar verk sem Giovanni Bononcini hafði notað í óperu nokkrum áratugum fyrr. Þá hafði tíðkast að hafa gamanhlutverk í óperum í bland við hinar göfugu (og alvarlegu) persónur sem sagan hverfðist um. Þannig er það í Xerxesi og það glampar auk þess víðar á gamansemi í verkinu, til að mynda í opnunaratriðinu þar sem Persakonungur syngur aríuna Ombra mai fu, ástríðufullan söng til … platanviðartrés. Arían er líka óhefðbundin að því leyti að hún er ekki þrískipt eins og yfirleitt tíðkaðist, það er að fyrsti hluti væri endurtekinn eftir að sunginn hafði verið millikafli. Nýbreytnin féll áheyrendum ekki í geð, óperan var einungis flutt fimm sinnum og féll svo í gleymsku.

Vivi, Tiranno, Aría úr Rodelindu
Öðru máli gegndi um viðtökur Rodelindu sem var tekið fagnandi við frumsýningu í Lundúnum árið 1725, þrettán árum áður en Xerxes komst á svið. Sögusvið Rodelindu er Langbarðaland á Ítalíu. Þar segir af drottningu Langbarða sem í upphafi verksins grætur eiginmann sinn, Bertarido konung, sem hún hyggur dauðan. Vonbiðillinn Grimoaldo vill fá bæði Rodelindu og hásætið og um tíma virðist það ætla að ganga eftir. Bertarido er þó fráleitt dauður en þegar hann reynir að endurheimta konu og ríki varpar Grimoaldo honum í dýflissu. Bertarido tekst að flýja úr prísundinni og ákveður, þegar hann kemur að Grimoaldo sofandi, að þyrma lífi eljara síns og syngur um það aríuna Vivi, tiranno. Hjarta Grimoaldos mýkist við þessa miskunn og hann færir Bertarido aftur sína fyrri tign sem og drottninguna.

Tónlistin á Íslandi
Hvorug óperan, Rodelinda eða Xerxes, hefur verið færð upp hérlendis en arían Ombra mai fu er mörgum kunn. Hún er tíðum á efnisskrá söngnemenda og einnig oft flutt í umritunum fyrir önnur hljóðfæri, iðulega undir heitinu Largo. Ríkisútvarpið eignaðist snemma hljómplötu með þessari aríu í flutningi Caruso en ekki leið á löngu þar til heyra mátti íslenska söngvara spreyta sig á henni á öldum ljósvakans: Þorstein Hannesson (1942), Hermann Guðmundsson (1944) og Önnu Þórhallsdóttur (1945). Arían hljómaði svo í lifandi flutningi Guðmundar Jónssonar á tónleikum sem hann hélt víða um land veturinn 1944–45.