EN

Gustav Mahler: Sinfónía nr. 1

Meðan Gustav Mahler (18601911) lifði var hann kunnari sem hljómsveitarstjóri en tónskáld. Tónlist hans þótti sérkennilega samansett, hálfgert samsull af ólíkum tónlistarstefnum og gjörólík því sem hlustendur áttu að venjast hjá til dæmis Brahms eða Liszt. Sinfóníur Mahlers endurspegla kannski að einhverju leyti þær andstæður sem einkenndu manninn sjálfan. Hann var ákafur náttúruunnandi og kunni hvergi betur við sig en í austurrísku fjalladýrðinni, en hann starfaði stærstan hluta ævinnar sem hljómsveitarstjóri í stórborgum: Búdapest, Vínarborg og New York. Hann var gyðingur en tók kristna trú til að vera gjaldgengur sem óperustjóri í Vínarborg; hann var tónskáld en gerði mest af því að stjórna verkum annarra til að hafa í sig og á. Hann var í senn endastöð rómantíkur undir lok nítjándu aldar og einn af upphafsmönnum módernismans á þeirri tuttugustu.

Mahler samdi fyrstu sinfóníu sína á undraskömmum tíma, sex vikum snemma árs 1888, og hún var frumflutt í Búdapest ári síðar. Viðtökur voru vægast sagt dræmar og hið sama var uppi á teningnum þegar hún hljómaði í Vínarborg. Gagnrýnendur kölluðu hugmyndir Mahlers hversdagslegar, jafnvel hreinustu lágkúru. Um fyrstu sinfóníuna lét Eduard Hanslick, virtasti tónlistargagnrýnandi Vínarborgar, þessi fleygu orð falla: „Annar okkar hlýtur að vera genginn af göflunum – og það er ekki ég.“

Upphaf verksins vakti til dæmis furðu. Í strengjahljóðfærum heyrist einn og sami tónninn en á ólíku tónsviði, allt frá ógnardjúpum kontrabössum og upp í skæran tón í efstu fiðlurödd. „Wie ein Naturlaut“, skrifar Mahler í nóturnar: „Eins og náttúruhljóð“. Sinfóníuhljómsveitin á að hljóma eins og náttúran sjálf; fuglarnir kvaka, sólin skín, í fjarska heyrist þytur í herlúðrum. Gauksstefið breytist í ljúft sellóstef sem á rætur sínar í sönglagi úr söngvasveig Mahlers, Lieder eines fahrenden Gesellen, eða Söngvar förusveins. Textana sótti hann í safn þýskra þjóðkvæða; í þessu tiltekna lagi er skáldið á morgungöngu yfir akurinn og heyrir fuglana tala til sín: „En hvað ég elska heiminn!“ Í öðrum þætti ríkir einnig sveitastemning. Tónlistin er dæmigerður sveitadans, Ländler, sem naut vinsælda í Austurríki og Sviss á 18. og 19. öld, með tilheyrandi hoppi og stappi á dansgólfinu.

Að sveitadansinum loknum breytir sinfónían snögglega um svip. Fyrri þættirnir tveir eru glaðvær tónlist með ívafi sveitasælu. Í hinum tveimur síðari er annað uppi á teningnum. Tónlistin er dökk og kaldhæðin, jafnvel grótesk, en leitar eftir lausn í birtu og fögnuð. Mahler sótti innblástur að þriðja kaflanum í teikningu eftir Moritz von Schwind, sem var kunningi Schuberts. Myndin kallast „Líkfylgd veiðimannsins“ og sýnir hvar dýrin í skóginum – kanínur, hreindýr, dádýr, úlfar og villisvín – hafa fellt veiðimann nokkurn og bera hann til grafar. Hér er dregin upp mynd af heimi þar sem öllu hefur verið snúið á haus. Mahler laðar fram þessi áhrif í tónlist sinni með snilldarlegum hætti. Kaflinn hefst með stefi sem allir þekkja: Meistari Jakob, eða Bruder Martin eins og það heitir á þýsku. En Mahler snýr öllu á haus, setur stefið í moll og lætur ólíklegasta sólóhljóðfæri í allri hljómsveitinni spreyta sig á því: kontrabassa. Því næst bætast við fleiri dimmrödduð hljóðfæri, fagott, selló og túba. Mahler sýnir hér að ógn getur falist jafnvel í hinum einfaldasta efniviði. Hann nýtur þess sömuleiðis að hrúga saman tónlist af ólíku tagi, láta eitt stef grípa fram í fyrir öðru. Í þessum þætti vitnar Mahler aftur í sönglag, í þetta sinn niðurlagið á Söngvum förusveins. Þar lýsir óhamingjusamur maður ástinni sem hann missti, og kveðst nú hvergi finna frið nema undir linditré sem stendur á veginum. Í miðri gróteskri jarðarförinni er þessi tilvitnun óvænt hvíldarstund.

Fjórði og síðasti kaflinn hefst með hvelli; Mahler sagði að upphafstaktarnir ættu að koma eins og þruma úr svörtu skýi. Um skeið virðist sem sitthvað gangi úr skorðum í framvindu sinfóníunnar en þó kemur að því að hljómsveitin snýr vörn í sókn. Glæsilegur lúðraþytur heyrist af og til, og eftir langa glímu ná sigurvissar hendingarnar undirtökunum – eins og tónskáldið vinni sig með handafli upp úr hyldýpi eymdar og drunga. Sjálfur sagði Mahler um lokaþáttinn: „Ætlun mín var að sýna baráttu þar sem sigurinn er fjærst hetjunni einmitt þegar henni sjálfri þykir hann vera innan seilingar. Þannig er það með alla glímu andans.“