Gustav Mahler: Sinfónía nr. 3
Gustav Mahler (1860–1911) fæddist í bæheimska bænum Kalischt (í dag Kalište) sem þá tilheyrði AusturrískUngverska keisaradæminu. Fjölskyldan flutti á fæðingarári hans til Jilhava sem liggur á mörkum Bæheims og Moravíu og þar ólst Gustav upp við alls konar tónlist, meðal annars þjóðlög og lærði ungur að leika á píanó. Tíu ára gamall kom hann fyrst opinberlega fram og byrjaði um það leyti að semja tónlist. Fimm árum síðar hóf hann nám við Konservatóríið í Vínarborg þar sem píanóið vék fljótt fyrir áhuga hans á tónsmíðum og hljómsveitarstjórn. Meðal kennara hans þar var Anton Bruckner sem hafði margvísleg áhrif á hinn unga tónsnilling. Mahler heillaðist einnig af nýstárlegum hugmyndum Wagners og sótti um tíma kennslustundir í heimspeki við Háskólann í Vínarborg.
Hljómsveitarstjórn átti eftir að verða aðalstarf Gustavs Mahler og var frami hans á því sviði glæsilegur. Hann hóf ferilinn í Bad Hall sem er lítill bær í fylkinu Efra-Austurríki en í framhaldinu leiddi hann sem hljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi mörg af helstu tónlistar- og óperuhúsum Evrópu. Undir hans forystu varð Ríkisóperan í Vín ein sú fremsta í heiminum og lauk hann ferli sínum í New York þar sem hann stýrði bæði Metropolitanóperunni og fílharmóníuhljómsveit borgarinnar.
Tónsmíðarnar voru hliðargrein sem hann einungis sinnti í sumarfríum. En þessi sumarfrí voru honum heilög. Auðvitað fylltist hugur hans af hugmyndum meðan hann stjórnaði helstu hljómsveitar- og óperuverkum með mörgum af bestu fáanlegum listamönnum samtíðar sinnar en loks þegar komið var hlé, gat hann fest hugsanir sínar á blað og þá var friðurinn honum mikilvægur.
Mahler eignaðist athvarf í litlum bæ sem heitir Steinbach og liggur við stöðuvatnið Attersee í Efra-Austurríki. Þar lét hann reisa sér lítinn kofa niður við vatnið sem hann notaði til tónsmíða. Í aðdraganda komu hans til bæjarins að kvöldi hins 11. júní 1896 voru ýmsar ráðstafanir gerðar til að skapa tónskáldinu allan þann frið sem hann óskaði sér og þurfti. Að ýmsu var þó að huga vegna þess að Mahler hafði gleymt uppkastinu af 1. kafla þriðju sinfóníunnar í Hamborg og litla píanóið frá Vín var enn ekki komið. Úr þessu var bætt en baráttan við utanaðkomandi hávaða og aðrar truflanir voru þrálátari. Fuglahræður voru settar upp í kringum svokallaðan „Schnützelputz“ kofa Mahlers, ærslafullum börnum og syngjandi farandsveinum mútað með skotsilfri og/eða sætindum og jafnvel hreiður fugla fjarlægð til öryggis. Þessar ráðstafanir báru að mestu tilætlaðan árangur.
Þegar hér var komið sögu var farið að hylla undir lokasprettinn í smíði 3. sinfóníunnar. Sumarið áður hafði hann samið það sem nú eru kaflar 2–5. Þessum köflum hafði hann gefið heiti líkt og Beethoven gerði í Sveitasinfóníu sinni og þannig átti upphafskafli sinfóníunnar að heita „Það sem skógurinn segir mér“ og hinir báru yfirskriftina „Það sem trén segja mér“, „það sem kvöldrökkrið segir mér“, „Það sem gaukurinn segir mér“ og „það sem barnið segir mér“. Nú var komið að því að semja fyrsta þáttinn og Mahler gekk til verks fullur tilhlökkunar að takast á við verkefnið og að sjá fyrir endann á þessu nýja stórverki sínu.
Hljómsveitarstjórinn Bruno Walter - síðar einn helsti túlkandi verka Mahlers sem dvaldi sem gestur tónskáldsins í Steinach þetta sumar þá rétt tæplega tvítugur - lýsir móttökum Mahlers við komuna: „ég kom með gufuskipinu á dýrlegum júlídegi, Mahler beið mín við landganginn og vildi endilega bera töskuna mína þrátt fyrir mótmæli mín... Á leiðinni að húsinu varð mér litið til Heljarfjallanna (Höllengebirge) sem tróna stjörf í bakgrunni hins annars fagra landslags. Þá sagði Mahler: - þér þurfið alls ekki að horfa lengur, allt þetta er ég búinn að setja á blað - og hann byrjaði strax að tala um uppbyggingu fyrsta kaflans sem í frumdrögunum bar heitið - Það sem klettafjöllin segja mér-“
Og það voru ekki einungis austurrísku Helgrindurnar sem nærðu sköpunarmátt Mahlers sumarið 1896. Hann var árrisull og settist stundvíslega við borðið sitt í kofanum klukkan sex að morgni hvers einasta dags og vann fram að hádegi, en morgunverði var hljóðlaust skotið inn til hans um miðmál kl. 9. Hádegisverð snæddi hann með heimilisfólki og gestum en síðan hvarf hann oft á vit náttúrunnar og sneri til baka hlaðinn ferskum hugmyndum. Í huga Mahlers var náttúran allt - hún var veröldin. í bréfi til góðvinkonu sinnar, fiðluleikarans Nathalie Bauer-Lechner, skrifaði hann meðal annars þetta um þriðju sinfóníu sína: „Eiginlega er ekki við hæfi að kalla hana sinfóníu því að hún lýtur alls ekki lögmálum hins hefðbundna sinfóníska forms. Fyrir mér er sinfónía að skapa veröld með öllu sem heimurinn hefur uppá að bjóða“. Þetta rímar við samtal Mahlers og Sibeliusar þegar þeir hittust í Helsinki árið 1907 og Mahler tjáði þá skoðun sína að sinfónían ætti að vera „eins og heimurinn - innihalda allt!“.
Fyrsti kafli þriðju sinfóníunnar er risavaxinn og nær yfir tæplega þriðjung heildarlengdar hennar. Hann hefst á glaðværu lúðrakalli, en eins og Mahlers er von og vísa, verða á ferlinum snögg skapbrigði sem endurspegla tilfinningar hans og upplifanir í Steinach sumarið 1896. Náttúruhljóðum og fuglakvaki bregður fyrir en kaflanum lýkur „mit höchster Kraft“ - með fullum krafti.
Annar þátturinn er ljúfur menúett með sveitablæ þó um miðbikið syrti að um stund. Þriðja þáttinn byggir Mahler á sönglagi sínu Ablösung im Sommer (Sumarafleysing) sem segir frá dauða gauks nokkurs og hvernig næturgalinn hleypur í skarðið með söng sínum.
Í fjórða kaflanum ríkir kvöldkyrrð þar sem einsöngvarinn syngur „miðnætursönginn“ svonefnda úr bók Nietzsches, Svo mælti Zaraþústra. Í þeim fjórða er kvöldkyrrðin rofin með englasöng og bjölluslætti þar sem Mahler er í essinu sínu og tónsetur á líflegan hátt kvæðið Es sungen drei Engel úr þýska þjóðlagasafninu Des Knaben Wunderhorn.
Mahler lýkur hinni miklu sinfóníu sinni á hægum kafla, Adagio, sem var fáheyrt á hans dögum. Best er að hafa sem fæst orð um þessa tónlist sem í fegurð sinni virðist koma úr öðrum heimi og er vissulega einhver sú innilegasta og áhrifamesta sem draup úr penna tónskáldsins