EN

Gustav Mahler: Sinfónía nr. 4

„Himnasælusinfónían“

Gustav Mahler (1860–1911) var einn dáðasti tónlistarmaður sinnar samtíðar. Hann varð ungur eftirsóttur óperustjórnandi og gegndi sem slíkur stöðum í Prag, Búdapest og Hamborg. Þrjátíu og sex ára gamall var hann síðan ráðinn aðalstjórnandi Vínaróperunnar og gegndi stöðunni í tíu ár. Mahler gerði miklar kröfur til samverkafólks síns og kom „Húsinu á hringnum“ í röð fremstu óperuhúsa veraldarinnar þar sem Vínaróperan hefur verið allar götur síðan. Átök innan húss og utan urðu til þess að Mahler var sagt upp störfum og hélt hann þá vestur um haf og stýrði um skeið tveimur helstu tónlistarstofnunum New York-borgar, Metropolitanóperunni og Fílharmóníuhljómsveitinni. Dvölin vestanhafs varð þó ekki löng, heilsan brast og Mahler andaðist í Vínarborg vorið 1911 aðeins 51 árs gamall.

Mahler samdi um ævina níu sinfóníur og var sú tíunda í smíðum þegar hann lést. Tónsmíðunum sinnti hann í sumarleyfum sínum í litlum kofa sem hann lét byggja í þorpinu Steinbach við Attersee-vatn í faðmi Alpafjallanna. 

Fyrstu fjórar sinfóníurnar eru gjarnar nefndar Wunderhorn-sinfóníurnar en í þeim er að finna lög úr flokki hans við vísur úr þjóðkvæðasafninu Des Knaben Wunderhorn (Töfrahorn drengsins). Fjórða sinfónían er byggð á einu lagi Das himmlische Leben (Himneska lífið) sem vitnað er í á ýmsa vegu í fyrstu þremur köflunum en sungið í heild sinni af sópransöngkonu í fjórða kaflanum. 

Fyrsti kaflinn er í hefðbundnu sónötuformi en annar kaflinn gletta þar sem konsertmeistarinn leikur á fiðlu sem stillt er heiltóni ofar en venjan er og skapar draugalega spennu enda er Mahler hér að draga upp mynd af dauðanum í líki þýskrar þjóðsagnarpersónu – beinagrind sem spilar dauðadans á fiðluna sína. Þriðji kaflinn er ægifagurt Adagio, friðsælt en um leið tilfinningaþrungið. Í fjórða kaflanum syngur sópraninn um sæluna sem bíður allra engla himnanna.

Sigurður Ingvi Snorrason