EN

Jean Sibelius: Fiðlukonsert í d-moll Op. 47

Johan Christian Julius Sibelius (1865–1957) fæddist í Hämeenlinna í Finnlandi. Hann eignaðist fiðlu þegar hann var tíu ára gamall og lét sig á unglingsárunum dreyma um að verða fiðluvirtúós. Þó að sá draumur rættist ekki var hann snjall fiðluleikari. Tvítugur hóf Sibelius framhaldsnám í tónsmíðum í Helsinki og tók sér um það leiti nafnið Jean. Að loknu námi árið 1889 fékk hann styrki til frekara náms, fyrst í Berlín og síðar í Vínarborg þar sem hann dvaldi veturinn 1890-91. Meðfram tónsmíðanáminu í Vín lék hann í háskólahljómsveitinni og spilaði meira að segja um stöðu fiðluleikara í Vínarfílharmóníunni, þó án árangurs.

Vínardvöl Sibeliusar markaði þáttaskil í tónskáldaferli hans en þar skrifaði hann sitt fyrsta stóra hljómsveitarverk og næstu fimmtán árin samdi hann mörg af þekktustu hljómsveitarverkum sínum, m.a. fyrstu tvær sinfóníurnar og fiðlukonsertinn. Konsertinn var upphaflega tileinkaður þýska fiðluleikaranum Willy Burmester sem lofaði að frumflytja hann í Berlín. Af fjárhagsástæðum ákvað Sibelius frumflutning í Helsinki og þar sem Burmester átti ekki heimangengt, kom í hlut ungverska fiðluleikarans Victors Nováček að frumflytja konsertinn 8. febrúar 1904 undir stjórn höfundarins. Fékk Nováček nauman tíma til undirbúnings og gekk þessi fyrsti flutningur vægast sagt illa. Sibelius gerði í framhaldinu meiri háttar lagfæringar á verkinu og var ný gerð konsertsins frumflutt í Berlín 19. október 1905. Í þetta sinn stjórnaði Richard Strauss flutningi Hirðhljómsveitar Berlínar (í dag Staatskapelle Berlin). Burmester hafði verið beðinn um að leika einleikshlutverkið, en sem fyrr var hann upptekinn. Lék leiðari hljómsveitarinnar Karel Halíf í hans stað. Móðgaðist Burmester og hét því að sniðganga konsertinn um aldur og ævi. Fór svo að Sibelius tileinkaði konsertinn hinu tólf ára ungverska undrabarni Ferenc von Vecsey. Sjálfur stjórnaði Sibelius seinni gerð konsertsins í fyrsta sinn í Stokkhólmi árið 1924 og á sömu tónleikum frumflutningi 7. sinfóníu sinnar.

Fiðlukonsert Sibeliusar hefur hljómað oftar en 30 sinnum á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar af nokkrum sinnum erlendis, meðal annars í Carnegie Hall í New York og í Tívolísal Kaupmannahafnar. Verkið var fyrst flutt á tónleikum hljómsveitarinnar í Þjóðleikhúsinu í mars 1959 og síðast í Eldborgarsal Hörpu einnig í mars 2020. Konsertmeistarar Sinfóníunnar hafa samtals sex sinnum leikið konsertinn, Guðný Guðmundsdóttir tvisvar og Sigrún Eðvaldsdóttir fjórum sinnum.