EN

Jean Sibelius: Sinfónía nr. 6

Jean Sibelius (1865–1957) hóf að semja fimmtu og sjöttu sinfóníur sínar um svipað leyti, að lokinni tónleikaferð um Bandaríkin í júní 1914. Ferðin heppnaðist með eindæmum vel og honum var margvíslegur sómi sýndur. En mánuði síðar skall ógæfan yfir, þegar styrjöld hófst á meginlandi Evrópu. Stríðið hafði bein fjárhagsleg áhrif á tónskáldið: þar sem þýskt nótnaforlag átti útgáfurétt að verkum Sibeliusar hlaut hann engin höfundarlaun meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir. Um þetta leyti tók Sibelius einnig að skoða stöðu sína sem tónskáld í nýju ljósi. Hann hafði um árabil verið í hópi evrópsku „nútíma“-tónskáldanna, en þegar hann dvaldist í Berlín í janúar 1914 heyrði hann nýjustu verk Schönbergs og sannfærðist um að hann ætti ekki lengur samleið með framúrstefnunni.  

Glæsilegt niðurlag fimmtu sinfóníunnar var langt frá því að vera til marks um nýfundið sjálfsöryggi Sibeliusar í listinni. Hann braut stöðugt heilann um hvernig best væri að tengja saman form og innihald, og til að bæta gráu ofan á svart var ekkert lát á peningaáhyggjunum. Hann fékk sama sem engin höfundarlaun fyrir elstu tónsmíðar sínar, og það voru helst píanólög og smáverk sem gerðu honum kleift að helga sig tónlistinni. Stærri tónverk eins og sinfóníur og tónaljóð gáfu lítið sem ekkert í aðra hönd, en þar lá listrænn metnaður hans engu að síður. 

Sibelius hafði byrjað að pára niður hugmyndir að nýju verki meðan fimmta sinfónían var enn í smíðum. Til að byrja með var alls óljóst hvaða form tónlistin myndi taka á sig. Um skeið leit allt út fyrir að úr henni yrði fiðlukonsert nr. 2 („Concerto lirico“ stendur á einu skissublaðinu), og síðar var Sibelius með hugann við tónaljóð byggt á Kalevala-bálknum, sem átti að heita Mánadísin. Það var ekki fyrr en árið 1922 sem Sibelius ákvað að best væri að gera nýja sinfóníu úr stefjunum sem höfðu hrannast upp. Hann skrifaði í dagbók sína 27. apríl: „Nýja verkið þröngvar sér í heiminn, en ég er ekki ánægður enn. Ég hef enn svo margt að segja í tónlistinni. Við lifum á tímum þar sem allir horfa til fortíðar... Ég gef gömlu meisturunum ekkert eftir.“

Sibelius stjórnaði sjálfur frumflutningnum í Helsinki 19. febrúar 1923. Í tilefni flutningsins birtist viðtal við hann í Svenska dagbladet þar sem hann útskýrði hugmyndirnar að baki sinfóníunni: „Hún er mjög friðsæl hvað yfirbragðið og formið varðar, og eins og sú fimmta byggir hún á láréttri undirstöðu, þ.e. línurnar ráða meiru en hljómarnir. Hún er í fjórum köflum eins og flestar sinfóníur, en hvað formið snertir eru kaflarnir allir frjálsir. Ég hugsa ekki um sinfóníu eingöngu sem tónlist sem fyllir svo og svo marga takta, heldur birtist í henni ákveðin andleg sýn, ákveðið tímabil í innri tilveru listamannsins.“

Mörg tónverk Sibeliusar hafa yfir sér þjóðlegt eða fornt yfirbragð, en í sjöttu sinfóníunni gengur hann lengra í þessa átt en oft áður. Á fyrstu blaðsíðum verksins notar hann eingöngu „hvítu nóturnar“ á píanóinu, þannig að frekar má segja að tónlistin sé í dórískri tóntegund, þ.e. einni af fornu kirkju-tóntegundunum, en í d-moll. Það er ávallt auðheyrt þegar „svörtu nóturnar“ skjóta upp hausnum, því að þá setur Sibelius áherslu eða breytir styrkleikanum svo þær fari ekki framhjá neinum. Upphafið er hreint og tært, eins og innilegt sálmalag, en smám saman kemst allt á meira flug og tónavalið verður fjölbreyttara en áður.

Hægi kaflinn er draumkenndur og frjáls, en scherzóið aftur á móti jarðbundið og ákaft. Lokaþátturinn hefst með fagurri hendingu sem heyrist til skiptis í blásurum og strengjum, en tónlistin verður ósamhverfari og ákafari eftir því sem á líður. Að lokum heyrist enn eitt sálmalagið, hreint og fagurt, og sinfónían endar á veikum en upphöfnum tónum. Sibelius dáði Bach öðrum tónskáldum fremur, en sjálfur forðaðist hann að semja tónlist með beinum trúarlegum tilvísunum. Þó var hann trúaður á sinn eigin hátt. Einkaritari hans minntist þess að eitt sinn á desemberkvöldi hafi sólin brotist í gegn eftir að hafa verið hulin skýjum um langa hríð. „Hversu stórfengleg er jafnvel þessi litla sólarglæta,“ sagði Sibelius þá. „Hvílkur innri friður sem náttúran getur kallað fram í mannssálinni. Alheimslögmálin eru stórfengleg, og þau gera mannskepnuna svo litla í samanburði. Það er nákvæmlega þetta sem ég kalla Guð.“