EN

Jean Sibelius: Sinfónía nr. 7

Finnar lýstu yfir sjálfstæði í kjölfar októberbyltingarinnar í Rússlandi 1917 en Rússar höfðu lagt landið undir sig snemma á 19. öld og gert að stórhertogadæmi. Seinni hluti 19. aldar og allt fram á 20. öld var mikið umbrotaskeið í þjóðernislegu tilliti í Finnlandi og úr því umhverfi spratt Sibelius. Tónlist átti einmitt mikinn þátt í að styrkja sjálfsmynd þjóðarinnar og þar lék kunnasta tónskáld Finna lykilhlutverk. Kannski má einmitt segja að Sibelius hafi leitast við að fanga þjóðarandann í verkum sínum en verk hans voru eftir sem áður frumsamin, þ.e.a.s. hann studdist ekki beint við þjóðlög í verkum sínum. Hann sótti þó innblástur í þjóðararfinn, svo sem Kalevela.

Á árunum 1899‒1924 samdi Sibelius sjö númeraðar sinfóníur sem ekki hvað síst halda nafni hans á lofti. Þetta eru þó býsna ólík verk, einkum eru fyrsta og önnur sinfóníurnar frábrugðnar þeim seinni fimm. Kannski má segja að fyrstu tvær sinfóníurnar séu skyldar verkum Tsjajkovskíjs og Bruckners en seinni fimm séu meira í nýklassískum anda (sú fjórða tengist líka módernisma sterkum böndum). Reyndar hafa sumir haldið því fram að Sibelius hafi samið níu sinfóníur, þ.e.a.s. ef kórsinfónían Kullervo og Lemminkäinen-svítan eru taldar með, en það er annað mál og flóknara.

Sibelius minnist fyrst á sjöundu sinfóníuna í bréfi frá árinu 1918 eða um það leyti sem hann var að ljúka við fimmtu sinfóníuna og var farinn að leggja drög að þeirri sjöttu. Upphaflega gerði tónskáldið ráð fyrir að sjöunda sinfónían yrði í þremur þáttum (rétt eins og sinfóníur nr. 3 og 5) en reyndin varð önnur. Hinn 24. mars árið 1924 var frumflutt í Stokkhólmi verk í einum þætti undir heitinu Sinfónísk fantasía nr. 1. Sibelius var á báðum áttum með hvort verkið skyldi fylgja hinum sex númeruðu sinfóníum sínum en loks afréð hann að svo skyldi verða og þegar verkið var gefið út árið 1925 fékk það heitið Sinfónía nr. 7 í einum þætti.

Verkið hefst á þremur slögum hjá pákunum áður en strengirnir leika einfaldan C-dúr skala. Verkið er einmitt í C-dúr og það vakti athygli samtímamanna Sibeliusar í hópi tónskálda sem margir héldu því fram að búið væri að gjörnýta þessa tóntegund; ekki væri lengur hægt að semja verk í þessari tóntegund en Sibelius afsannaði það rækilega. Tónlistarfræðingar hafa gert margar tilraunir til þess að hólfa verkið niður, ýmist í þrjá eða fjóra hluta, en kannski er einfaldast að segja að um sé að ræða um það bil 22 mínútna samfellt verk þar sem tónskáldið kynnir til sögunnar lítil stef hér og þar sem mörg hver tengjast sterkum böndum; þannig verður til hugmynd sem vex og dafnar og getur af sér aðrar hugsanir og svo framvegis.

Sjöunda sinfónían var eitt síðasta verkið sem Sibelius samdi á ferlinum (hann átti einungis tónaljóðið Tapiola ósamið) en hann drakk orðið ótæpilega. Meðal þess sem hann átti til að gera var að stjórna hljómsveitum undir áhrifum áfengis, oftar en ekki með hörmulegum afleiðingum (má þar meðal annars nefna áðurnefndan frumflutning sjöundu sinfóníunnar). Tónskáldið hafði hins vegar eitt ár um nírætt þegar hann lést árið 1957 og því má segja að hann hafi sest snemma í helgan stein, enda lifði hann í rúm þrjátíu ár án þess að semja nokkuð eftir að Tapiola kom út. Aðdáendur hans biðu langeygir eftir áttundu sinfóníunni en drög að henni brenndi Sibelius sennilega í kringum árið 1940.