Jóhann Jóhannsson: A Prayer to the Dynamo
A Prayer to the Dynamo (2012) eftir Jóhann Jóhannsson var pantað af Sinfóníuhljómsveitinni í Winnipeg (Kanada) og flutt á tónlistarhátíð hljómsveitarinnar fyrir nýja tónlist (New Music Festival) í febrúar 2012. Verkið hefur ekki verið flutt aftur fyrr en nú. Verkið er skrifað fyrir fulla sinfóníuhljómsveit og má segja að það hafi markað ákveðin tímamót á ferli Jóhanns en þetta er stærsta og lengsta verkið sem hann skrifaði sem sjálfstætt verk, óháð söguframvindu kvikmynda eða leikverka. Þó er verkið ekki absólút tónlist í þeim skilningi að Jóhann hafi ekki byggt það á neinni hlutlægri fyrirmynd en hann sagði í viðtali fyrir frumflutning verksins að hann hefði alltaf einhverja mynd eða hugmynd til þess að vinna alla sína tónlist út frá. Í þessu verki sótti hann innblástur í kaflann „The Dynamo and the Virgin“ úr bók Henry Adams, The Education of Henry Adams. Þar lýsir höfundurinn á ljóðrænan hátt mystískri upplifun sinni á heimssýningunni í París árið 1900. Þar sótti hann sýninguna „Great Hall of Dynamos“ sem sýndi risastóra og nýlega rafla. Í kaflanum ber hann þessa upplifun sína saman við mátt trúarinnar. Jóhann tekur þessa kveikju og tengir við öll þau raforkuver sem má finna á Íslandi. Hann fer í sinn eigin rannsóknarleiðangur um verin og tekur upp hljóð í Elliðaárvirkjun sem heyra má í verkinu og má túlka sem virðingarvott við tækni fortíðar. Jóhann vefur þessum upptökum við strengjamassa, kóralhljóma í málmblásturshljóðfærum og loftkenndum stefjum í tréblásturshljóðfærunum. Þessi margbrotni og mikilfenglegi hljóðskúlptúr ber með sér áru handanheims þar sem hinu mennska og hinu vélvædda er steypt saman. Segja má að með A Prayer to the Dynamo ljúki þríleik Jóhanns tengda þema gamallar tækni en hin verkin eru IBM 1401, A User's Manual (2002) og Fordlandia (2008).
A Prayer to the Dynamo er nú flutt í fyrsta sinn á Íslandi. Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar hljóðritaði verkið fyrir Deutsche Grammophon og kom platan út fyrr í mánuðinum.