EN

Jóhannes Brahms: Píanósónata nr. 3, Op. 5

Stundum er tímabilið frá 1789 til 1914 kölluð „langa 19. öldin". Þetta var mikið umbrotaskeið þar sem flest svið mannlífsins tóku breytingum, stundum í kjölfar byltinga, sumpart iðnvæðingar en auk þess má nefna borgarmenningu og ný þjóðríki – sameining þýsku ríkjanna er þar nærtækasta dæmið.

Þá hefur tónlist 19. aldar eins og hún leggur sig endum og sinnum verið lýst sem „rómantískri“ en það er alltof vítt hugtak til þess að ná yfir allt það sem þá var samið. Nægir það að nefna tónlist Beethovens sem fellur að mestu undir klassíska tímabilið, Schubert – sem er á mörkum klassíkur og rómantíkur, hreinræktuð rómantísk tónskáld, eins og Schumann, Berlioz, Mendelssohn og Chopin, og svo tónskáld sem fóru ólíkar leiðir í að þróa áfram rómantísku stefnuna, og má þar að nefna í haldssamari arminn sem Brahms leiddi, og svo tónskáld á borð við Wagner og Liszt, sem vildu brydda upp á nýjungum í stíl og formi. Anton Bruckner fór kannski bil beggja, en það er alveg víst að verk Mahlers sem samin voru undir lok 19. aldar teygðu sig sífellt nær módernisma.

Jóhannes Brahms stóð á tvítugu þegar hann bankaði upp á hjá Schumann-hjónunum, Róberti og Clöru, í Düsseldorf árið 1853 með meðmæli frá fiðlusnillingnum Joachim. Schumann var gagntekinn af unga manninum og skrifaði afar lofsverðan pistil í tímarit sitt, Neue Zeitschrift für Musik, og sagði hinn unga Brahms hafa sprottið fram fullþroska eins og Aþenu úr höfði Seifs og útnefndi hann vonarstjörnu þýskrar tónlistar. Sjálfur átti Schumann skammt eftir ólifað og eyddi raunar tveimur síðustu árum sínum á geðsjúkrahúsi, farinn að heilsu. Brahms gekk börnum hans í föðurstað og þrátt fyrir töluverðan aldursmun varð samband hans við Clöru afar náið; raunar svo náið að úr varð ástarsamband sem lengi var milli tannanna á samtíðarfólki þeirra og raunar sporgöngumönnum.

Um það leyti sem Brahms kvaddi dyra í Düsseldorf hafði hann samið tvær fyrstu píanósónötur sínar og vann að þeirri þriðju (og síðustu). Verkið er að mörgu leyti óvenjulegt. Það er geysi langt, af sinfónískri stærðargráðu og er uppfullt af bæði andríki og hugmyndaauðgi. Sónatan er í fimm þáttum (sem er óvenjulegt) en segja má að fjórði þátturinn sé „aukaþáttur“ verksins (merktur Intermezzo).

Fyrsti þátturinn, sem er í sónötuformi, hefst á f-moll hljómum í fortissimo sem spanna nánast allt tónsvið píanósins. Þá kynnir tónskáldið til sögunnar tvö stef, hið fyrra í f-moll og hið seinna í c-moll sem er jafnframt tilvitnun í Beethoven (örlagastefið úr fimmtu sinfóníunni). Annar þátturinn hverfist um tilvitnun í ljóð eftir Otto Inkermann (ort undir dulnefninu C.O. Sternau) og hann inniheldur einnig tvö hugljúf stef. Þriðji þátturinn er Scherzo og tríó og þar vitnar Brahms m.a. í píanótríó nr. 2 ópus 66 eftir Felix Mendelssohn. Hér kallast á óróinn í Scherzo-inu og svo rólegri og lýrískari tríó-kaflinn þar sem við heyrum enn og aftur vitnað í Beethoven. Fjórði kaflinn („aukakaflinn“) hefst á upphafsstefi annars þáttarins, en að þessu sinni í annarri tóntegund. Loks er fimmti og síðast kaflinn í rondó-formi. Hann hefst í upphaflegri tóntegund

verksins, f-moll, en hverfist svo um stef á nótunum F, A og E sem stefndur fyrir Frei aber einsam (frjáls en einmanna). Eftir mikið flakk á milli tóntegunda endar svo sónatan í glaðværum F-dúr