EN

Joseph Haydn: Sinfónía nr. 104

Austurríska tónskáldið Joseph Haydn (1732-1809) er oft nefndur faðir sinfóníunnar. Þó fullyrðingin sé stór er ákveðið sannleikskorn í henni. Vitaskuld var Haydn ekki fyrsta tónskáldið til þess að nota orðið sinfónía yfir skrifaða tónlist en áhrif hans á þróun formsins og endurreisn þess eru slík að nafnbótina verðskuldar hann. En það er ekki bara endurreisn og þróun á hinu sinfóníska formi sem er eftirtektarverð þegar Haydn og sinfóníur eru annars vegar. Fá tónskáld, ef nokkurt, skilur eftir sig jafn gríðarmikið magn sinfónía og Haydn gerði. Sinfóníur hans eru alls 108 talsins, 104 númeraðar og fjórar án númers. 

Ástæður þess hversu iðinn Haydn var að semja sinfóníur má rekja til þeirra kjöraðstæðna sem hann bjó við en árið 1761 réð hann sig til hinnar vellauðugu Esterházy fjölskyldu sem hljómsveitarstjóri og hirðtónskáld og hafði því hljómsveit til þess að leika verk sín og þróa tónsmíðastíl sinn. Haydn dvaldi hjá Esterházy fjölskyldunni allt til ársins 1790. Það ár lést Nikolás prins en Anton sonur hans sem erfði krúnuna hafði lítinn áhuga á tónlist og leysti upp hljómsveitina. Þá var Haydn búinn að skapa sér nafn um gervalla Evrópu sem eitt mesta tónskáld síns tíma. Hann hélt til London í tvígang á árunum 1791-2 og 1794-5 og naut mikillar velgengni þar. Tólf síðustu sinfóníur Haydns frá þessum árum eru jafnan nefndar Lundúnasinfóníurnar, síðasta sinfónía hans sem nefnd er Lundúnasinfónían er í D-dúr eins og sú fyrsta. 

Lundúnasinfóníuna samdi Haydn árið 1795 og var hún frumflutt undir stjórn tónskáldsins þann 4. maí sama ár. Sinfónían er nokkuð hefðbundin að formgerð, í fjórum þáttum, en engu að síður frábærlega samin og skýrt dæmi um hve gott vald Haydn hafði á hinu sinfóníska formi. Óhætt að segja að verkið sé glæsilegur lokapunktur á sinfónískum ferli Haydns, ferli sem á sér ekki hliðstæðu í tónlistarsögunni.

Helgi Jónsson