EN

María Antonía Walpurgis: Forleikur að Talestri, Regina Delle Amazzoni

Hin fjölhæfa María Antonía Walpurgis Symphorosa (1724–1780) fæddist í München, fjórða af sjö börnum erkihertogaynjunnar Maríu Amalíu af Austurríki og kjörfurstans af Bæjaralandi sem síðar átti eftir að verða Karl sjöundi Þýskalandskeisari. Hún hlaut afbragðsmenntun, eins og hæfa þótti svo aðalborinni stúlku, og lagði stund á málaralist og ljóðagerð auk tónlistar.

María Antonía stundaði tónsmíðanám í heimaborg sinni hjá ítölsku óperutónskáldunum Giovanni Battista Ferrandini og Giovanni Porta. Óperur voru frá upphafi snar þáttur í lífi hennar; foreldrar hennar fögnuðu fæðingu hennar með óperuflutningi og þegar hún giftist árið 1747 voru tvær óperur færðar upp í tilefni af brúðkaupinu. Brúðguminn var frændi brúðarinnar, Friðrik Kristján erfðaprins í Dresden, sem síðar varð kjörfursti í Saxlandi og var einnig hæfileikaríkur músíkant. María Antonía hélt áfram tónlistarnámi í Dresden hjá tónskáldunum Johann Adolf Hasse og Nicola Porpora og samdi fjölda verka, bæði kirkjuleg og veraldleg. Hún tók virkan þátt í flutningi eigin verka bæði sem semballeikari og sópransöngkona. Tvær óperur hennar hafa varðveist, Il trionfo della fedeltà (Sigur trúfestinnar) frá 1754 og Talestri, regina delle amazzoni (Þalestris, drottning Amasóna) sem frumflutt var í München árið 1760. María Antonía samdi sjálf líbrettóið við óperurnar. Þær voru gefnar út á prenti af forlaginu Breitkopf í Leipzig og færðar upp víða í Evrópu.

Í Talestri takast á tvær þjóðir, karlþjóðin Skýþar og kvenþjóðin Amasónur. Í upphafi verksins er prinsessan Þalestris krýnd drottning Amasóna, að móður sinni látinni, og henni er gert að sverja þess eið að leggja fæð á alla karlmenn. Það gerir hún reyndar nauðug, því hún hefur þegar fellt hug til erfðaprins Skýþa sem hefur um skeið dvalist með Amasónum, dulbúinn sem kona. Elskendurnir verða að ráða fram úr margvíslegum þrautum áður en yfir lýkur en óperan endar á því að þjóðirnar semja frið sín í milli og þau fá að eigast.

TÓNLISTIN Á ÍSLANDI
Forleikurinn hefur hljómað einu sinni áður á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands; það var í október 2019 þegar Matthew Halls hélt um tónsprotann.