EN

Modest Músorgskíj: Myndir á sýningu

Modest Músorgskíj (1839–1881) var ötull talsmaður þess að Rússar sköpuðu sína eigin tónlist út frá sérkennum rússneskar þjóðlagatónlistar fremur en að reiða sig um of á vestrænar hefðir. Að því leyti var hann andstæða Tsjajkovskíjs, sem reyndi að brúa bilið milli austurs og vesturs í sinfóníum sínum, konsertum og ballettum. Mörgum samverkamanna Músorgskíjs þótti nóg um sérviskuna í tónsköpun hans. Þegar hann lést frá mörgum verka sinna ófrágengnum kom það í hlut Rimskíj-Korsakovs að ljúka þeim, sem hann gerði m.a. með því að „lagfæra“ sérkennilegustu kaflana bæði hvað snerti tónatak og útsetningu. Það var ekki fyrr en líða tók á 20. öldina sem tónsmíðar Músorgskíjs tóku almennt að hljóma óbreyttar í tónleikasölum heimsins og nú þykir hrár stíllinn einmitt einn frumlegasti og mest heillandi þátturinn í listsköpun hans.

Einn skoðanabróðir Músorgskíjs í listinni var listmálarinn Viktor Hartmann sem lést árið 1873, 39 ára gamall. Hann hafði reynst tónskáldinu vel og hvatt hann áfram þegar hann var við það að gefast upp á óperu sinni, Boris Godúnov. Ári eftir lát Hartmanns var haldin yfirlitssýning á verkum hans, m.a. teikningum og vatnslitamyndum. Í kjölfarið samdi Músorgskíj eitt frægasta verk sitt, píanósvítu sem byggir á tíu áhrifamestu myndum sýningarinnar, „í minningu okkar kæra Viktors.“ Verkið varð til á aðeins þremur vikum í júnímánuði 1874 en það þótti „ópíanistískt“ og fáir lögðu á sig það erfiði að læra það. Það var ekki fyrr en árið 1922 sem gæfan snerist verkinu í hag, þegar Maurice Ravel samþykkti að útsetja svítuna að beiðni rússneska hljómsveitarstjórans Serge Koussevitzky. Ravel var einn snjallasti útsetjari sem sögur fara af og tókst öðrum fremur að glæða tónlist Músorgskíjs nýjum og heillandi litbrigðum.

Göngustef
Við sjáum Músorgskíj fyrir okkur, hægan og alvörugefinn Rússa sem gengur milli mynda á sýningu Hartmanns og raular fyrir munni sér stef með rússneskum blæ. Það hljómar einnig síðar í verkinu í ýmsum búningi. Gegnum breytingarnar sem á því verða heyrast áhrifin sem myndirnar hafa á tónskáldið. 

Dvergurinn
Skissa Hartmanns fyrir leikfanga-hnotubrjót: dvergur sem hleypur klunnalega með skakkar lappir. Tónlist Músorgskíjs er ógnvekjandi en Ravel bætir um betur, lætur til dæmis fiðlur og lágfiðlur skapa draugalegan hljóm með því að renna sér upp og niður strengina nálægt fingrabrettinu.

Gamli kastalinn
Í vatnslitaskissu Hartmanns syngur trúbadúr við miðaldakastala. Músorgskíj semur hér blíðan ítalskan siciliano-dans, og í útsetningu Ravels er hann leikinn af nýrri viðbót við sinfóníuhljómsveitina á fyrstu áratugum 20. aldar: alt-saxófóninum.
 
Tígulsteinagarðurinn
Tuileries-garðurinn í París dregur nafn sitt af tígulsteinum sem notaðir voru í stéttarnar fyrir margt löngu. Þar var iðulega krökkt af börnum í fylgd með barnfóstrum sínum og hér bregður Músorgskíj upp mynd af ungviði að leik.
 
Uxakerran
Bydlo, yfirskrift Músorgskíjs, er pólska orðið yfir nautgripi. Hér hafði Hartmann teiknað mynd af pólskri uxakerru með risavöxnum hjólum. Ravel fylgir fyrirmælum Rimskíj-Korsakovs um að láta kerruna nálgast úr fjarlægð, fyrst pianissimo en sterkar eftir því sem líður á kaflann. Músorskíj biður um að píanistinn leiki fortissimo allt frá fyrsta takti.
 
Dans kjúklinganna í egginu
Mynd Hartmanns sýndi unga nema við keisaralega ballettskólann dansa ballettinn Trilbíj, sem fyrst var sýndur 1871. Í einu atriðinu, dansi hinna ófæddu kjúklinga, minntu búningar barnanna á risastóra eggjaskurn. Af útsetningu Ravels má ráða að hann hafði lært ýmislegt af balletttónlist Tsjajkovskíjs.
 
Tveir pólskir gyðingar
Skissur Hartmanns sýna tvo gyðinga, annan ríkan og hinn fátækan. Í tónlistinni býr Músorgskíj til dramatískar samræður þeirra á milli; sá ríki (Samuel Goldenberg) er glæsilegur og breiðir mjög úr sér, en sá fátæki (Schmuyle) skelfur og stamar.
 
Markaðstorgið í Limoges
Hér heyrast franskar konur rífast heiftarlega og slúðra hverja í kapp við aðra á markaðstorginu. Æsingurinn verður skyndilega að engu þegar við erum minnt á nærveru dauðans í næstu mynd.
 
Katakomburnar – Cum mortis in lingua mortua
Mynd Hartmanns, Katakombur Parísarborgar, sýnir þrjá menn sem standa í grafhvelfingum neðanjarðar og skína ljósi á vegg sem samanstendur af eintómum hauskúpum. Hér dregur Músorgskíj upp mynd af dimmum hvelfingunum, og Ravel notar málmblásturshljóðfæri á áhrifamikinn hátt til að auka við stemninguna.
 
Nornakofinn
Teikning Hartmanns sýnir klukku sem er í laginu eins og nornakofi á hænufótum. Tónlist Músorgskíjs sýnir ekki aðeins kofann sjálfan heldur nornareið hinnar ógnvænlegu Böbu Jögu, erkinornar rússneskra þjóðsagna. Hún flýgur um á risastóru mortéli, rænir saklausum börnum og færir þau heim í kofa sinn. Í sumum heimildum er einnig getið um rammgert hlið sem umlýkur kofann, gert úr mannabeinum og hauskúpum.
 
Hliðið mikla við Kænugarð
Hartmann hafði gert drög að miklu borgarhliði í Kænugarði í gömlum rússneskum stíl, með „laukturni“ og hvelfingu sem minnti á rússneskan stríðshjálm. Hliðið var aldrei byggt en hefur orðið ódauðlegt gegnum glæsilega tónlist Músorgskíjs, þar sem stef úr rússneskum kirkjusöng hljóma í bland við mikilfenglegan klukkuhljóm.