Philip Glass: Sinfónía nr. 1: „Low“
Bandaríska tónskáldið Philip Glass (1937) hefur skipað sér í fremstu röð samtímatónskálda heims og liggur eftir hann gríðarlega stórt safn verka. Má nefna yfir þrjátíu óperur, fjórtán sinfóníur, þrettán einleikskonserta, margvísleg kammerverk, tónlist fyrir dans og kvikmyndir. Glass lék lykilhlutverk í þróun mínímalisma eða naumhyggju, sem var mikilvægur stíll á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Mínímalismi einkennist af takmörkuðum efniviði sem er síendurtekinn og segja má að tónlistin sé hæg og hröð í senn, með kvikum hreyfingum sem breytast mjög hægt. Glass er þó ekki hrifinn af þessu hugtaki sjálfur og segist semja tónlist með „endurtekningu í fyrirrúmi.“ Hann hefur átt stóran þátt í að víkka út hugmyndir almennings um klassíska tónlist og hefur notið hylli á meðal áheyrenda sem hafa lagt meiri rækt við aðrar tónlistarstefnur en þá klassísku. Allt frá sjöunda áratugnum hefur hann átt í samstarfi við tónlistarfólk á sviði dægurtónlistar og þjóðlagatónlistar og þar má til dæmis nefna Leonard Cohen, David Bowie og Ravi Shankar.
Sinfónía nr. 1, sem hefur einnig verið kölluð Low sinfónían, er einmitt gott dæmi um það hvernig Glass hefur tengt saman ólíkar tónlistarstefnur. Sinfónían er byggð á og innblásin af plötunni Low sem David Bowie vann með Brian Eno. Sjálfur segir Glass að sinfónían sé eftir hann út frá tónlist Bowie og Eno („Music by Philip Glass from the music of David Bowie and Brian Eno“). Platan Low, sem sinfónían byggir á, kom fyrst út árið 1977 og olli hún straumhvörfum í rokktónlist þess tíma. Vinnuaðferðirnar sem Bowie og Eno nýttu sér svipuðu mikið til vinnuaðferða tilraunatónskálda á þeim tíma og höfðaði hún til jafns til þeirra sem aðhylltust popp- og tilraunatónlist.
Brooklyn Philharmonic Orchestra pantaði verkið á sínum tíma en það var frumflutt af Junge Deutsche Kammerphilharmonie árið 1992. Verkið er í þremur köflum og heita þeir eftir þeim lögum á Low sem þeir eru byggðir á og segir Glass eftirfarandi um vinnuaðferðir sínar: „Ég nálgaðist þemun eins og þau væru mín eigin og leyfði þeim að þróast út frá mínum eigin tónsmíðaháttum þegar það var hægt. En í raun og veru hafði tónlist Bowie og Eno mikil áhrif á hvernig ég vann og það leiddi mig stundum að mjög óvæntum tónlistarlegum niðurstöðum. Ég held að niðurstaðan sé að þetta hafi verið raunverulegt samstarf.“
Sinfónían hefst á kaflanum „Subterraneans“ sem er jafnframt lokalag plötu Bowies. Í byrjun kaflans er Glass mjög trúr upprunalega laginu, eða eins langt og það nær þegar verið er að umskrifa lag, sem er flutt af hljóðgervli, fyrir sinfóníuhljómsveit. Eftir því sem verkinu vindur fram fjarlægjumst við þó lag Bowies. Annar kaflinn, Some Are, byggir á samnefndu lagi sem birtist sem bónuslag á endurútgáfu Low árið 1991. Hér leyfir Glass sér að fanga andrúmsloftið og hljóðheiminn án þess þó að taka upp laglínuna beint í upphafi. Hún birtist þó í strengjum eftir tæpar tvær mínútur og verður að meginuppistöðu kaflans sem tónskáldið þróar áfram og leikur sér með. Hann fylgir þó formi lagsins, sem er í eins konar ABA formi, þar sem laglínan kemur fram í A hlutunum en B er eins konar úrvinnsla og frekar hugleiðing á efnivið A. Lokakaflinn er Warszawa, en lag Bowies er sagt endurspegla heimsókn hans til Varsjá og á hann að hafa beðið Eno að semja „mjög hægt og tilfinningaríkt verk með trúarlegri tilfinningu.“ Rétt eins og í fyrsta kaflanum, þá er Glass mjög trúr fyrirmyndinni til að byrja með í Warszawa og hið drungalega andrúmsloft kemst vel til skila. Eftir þriðjung kaflans birtir verulega yfir og syngjandi laglína í strengjum og flautum er allsráðandi um sinn. Eftir miðbik kaflans dregur þó fyrir sólu og myrkrið tekur yfir og hljóðfæri á dýpsta sviði fá að njóta sín í angurværum laglínum. Sinfónían er í heild sinni lagrænni en mörg verka Glass og má ef til vill rekja það til fyrirmyndanna á plötunni Low. Þó eru höfundareinkenni Glass sterk og áheyrendur munu skynja vel mínímalismann sem hann er þekktur fyrir.
Sinfónía nr. 1 er nú í fyrsta sinn flutt á Íslandi en verk eftir Glass var fyrst flutt á Íslandi í febrúar 2005. Var það Konsert fyrir saxófónkvartett fluttur af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Bernharðs Wilkinson ásamt Raschèr kvartettinum. Víkingur Heiðar Ólafsson gaf út Philip Glass plötu með verkum fyrir píanó árið 2017 hjá Deutsche Grammophon og hélt útgáfutónleika það sama ár.