EN

Pjotr Tsjajkovskíj: Myndabók æskunnar, Op. 39

„Fyrir skemmstu datt mér í hug að það væri ekki slæm hugmynd að leggja þó ekki væri nema lítið eitt af mörkum til barnatónbókmenntanna sem er lítið til af. Mig langar að semja röð stuttra verka fyrir börn með aðlaðandi titli, rétt eins og Schumann.“

Svo komst rússneska tónskáldið Pjotr Tsjajkovskíj að orði í bréfi til velgjörðakonu sinnar og trúnaðarvinar, Nadezhdu von Meck, í bréfi snemma árs 1878. Nokkrum mánuðum áður en þetta bréf var samið hafði Tsjajkovskíj svo enn fremur tjáð útgefanda sínum, Pjotr Jurgenson, að hann langaði til þess að semja nokkur auðleikin verk í anda Schumanns.

Tsjajkovskíj tók til óspilltra málanna og hóf að semja Myndabók æskunnar vorið 1878 og í maí sama ár lágu drög að 24 smálögum fyrir (sagan segir að Tsjajkovskíj hafi raunar samið verkið á fjórum dögum). Hann lauk svo endanlega við verkið í júlí og var það gefið út í ágúst 1878. Verkið tileinkaði Tsjajkovskíj ungum frænda sínum, Vladimir Davydov. Í verkinu styðst tónskáldið meðal annars við rússnesk og ítölsk þjóðlög en laglínur úr verkinu skutu síðar upp kollinum í til að mynda ballettinum Svanavatninu og óperunni Mærin frá Orleans.

Flest smálögin í Myndabók æskunnar eru afar stutt, sum jafnvel ekki nema ríflega tuttugu taktar (það lengsta er tæpir níutíu taktar). Þar segir meðal annars frá leikfangahestum, tindátum, brúðum og galdrakarli en undirtitill er einmitt „24 smálög í anda Schumanns“. Vísar þar Tsjajkovskíj einmitt til Bernskumynda (Kinderszenen) eftir þýska meistarann.

Um svipað leyti og Tsjajkovskíj var að semja Myndabók æskunnar hafði hann til að mynda samið fyrstu fjórar sinfóníur sínar og óperuna Evgeníj Onégin en hér, eins og þar, birtist óskoraður hæfileiki tónskáldsins til að setja saman grípandi laglínur, hvort heldur sem þær voru frumsamdar eða þá Tsjajkosvkíj studdist við einhvers konar fyrirmyndir.

Myndabók æskunnar hefur verið hljóðrituð þónokkrum sinnum, til að mynda af Mikhail Pletnev og Valentinu Lisitsa. Þá hefur það verið útsett fyrir bæði strengjakvartett og hljómsveit. Sjálfur hefur Daniil Trifonov einmitt sagt verkið með því innblásnasta sem Tsjajkovskíj samdi.