EN

Róbert Schumann: Fantasía í C-dúr, Op. 17

Róbert Schumann fæddist árið 1810, var sonur bóksala og fékk snemma mikinn áhuga á bókmenntum. Schumann var ekkert undrabarn í tónlist en setti sér snemma það markmið að verða píanisti. Hann nam hjá Friedrich Wieck, frægum kennara, en talið er að notkun hjálpartækis til að styrkja fingurna hafi á endanum valdið doða í löngutöng hægri handar sem gerði út af við allan frama Schumanns sem píanista. Friedrich þessi átti hins vegar dóttur, Clöru að nafni, og þau Schumann felldu saman hugi og gengu á endanum í hjónaband árið 1840, þrátt fyrir hávær mótmæli tengdaföðurins – raunar þurfti að útkljá það mál fyrir dómstólum.

Það er býsna auðvelt að hluta niður tónskáldaferil Schumanns, að minnsta kosti í stórum dráttum. Fyrstu áratugina samdi hann einkum píanóverk – mörg þeirra fyrir eiginkonu sína, Clöru, sem var einn fremsti píanisti veraldar á sinni tíð. Þá tóku meðal annars við sönglögin sem náðu hámarki í Liederkreise og Dichterliebe. Svo má einnig nefna til að mynda sinfóníuárið, það er að segja 1841, þegar hann samdi fyrstu sinfóníuna sína, Vorsinfóníuna, og lagði ítarleg drög að þeirri fjórðu.

Fantasía Róberts Schumanns í C-dúr ópus 17 var upphaflega samin árið 1836 en birtist fyrst á prenti 1839 í endurskoðaðri útgáfu, þá tileinkuð Franz Liszt. Það er margra manna mál að verkið sé í hópi bestu verka sem Schumann samdi fyrir einleikspíanó en hvað sem til er í því má slá því föstu að um sé að ræða eitt af öndvegisverkum snemm-rómantíkurinnar.

Rómantík í tónlist á rætur sínar að rekja til bókmenntastefnu sem kom fyrst fram í Evrópu á síðustu áratugum 18. aldar og áhrif hennar vörðu þar fram til um 1830 þegar stefnan úrættaðist á marga lund en þess ber þó að geta að rómantíkurinnar gætti mun lengur í íslenskum bókmenntum. Þannig var hún hér mótandi afl hér á landi út 19. öldina, að vissu leyti í sinni upprunalegu og róttæku mynd. Rómantíkin bar einmitt með sér innhverfari tónlist sem var látin tjá innstu sálarkima. Þannig er Fantasía Schumanns býsna ástríðufull tónsmíð, full til jafns af þeirri alsælu og örvæntingu sem rúmast í tilfinningalífi ástfangins ungmennis.

Schumann var 26 ára þegar hann samdi verkið en á þeim tíma var hann aðskilinn frá Clöru og óvíst hvort þau næðu saman aftur. Sjálfur skrifaði Schumann til Clöru: „Fyrsti kaflinn kann að vera sá ástríðufyllsti sem ég hef nokkurn tímann samið …“ og telja enda margir verkið vera nokkurs konar ástarbréf í tónum. Upphaflega var það þó samið til heiðurs Beethoven.

Fantasían er þremur þáttum í lauslegu sónötuformi. Sá fyrsti ber einkenni rapsódíu og er fullur ástríðu eins og fyrr segir. Annar kafli er í mikilfenglegu rondó-formi og ber að hluta til tilfinningaleg einkenni fyrsta þáttarins. Loks er þriðji þátturinn hægur og að mörgu leyti íhugull.

Fantasían gerir miklar kröfur til einleikarans og raunar var það svo að á tíma Schumanns var Liszt einn fárra píanista sem hafði tæknilega burði til þess að gera verkinu skil, sérstaklega öðrum þættinum. Liszt lék verkið hins vegar aldrei opinberlega en lagði það meðal annars fyrir nemendur sína. Hins vegar lék hann það eitt sinn fyrir Schumann sjálfan sem eins og fyrr segir

tileinkaði Liszt verkið (sjálfur tileinkaði Liszt h-moll píanósónötu sína Schumann). Clara Schumann lék hins vegar Fantasíuna margoft opinberlega en þó ekki fyrr en frá og með árinu 1866 eða um áratug eftir að Schumann féll frá.